Í síðustu viku fjallaði Óðinn um loftlagsráðstefnuna og frumvarp sem Guðlaugur Þór hefur lagt fram á Alþingi sem mun stórhækka flutningskostnað.

Hér á eftir er brot úr pistlinum en hann má lesa í fullri lengd hér.

Frumvarp gegn hagmunum Íslands

Á sama tíma er Guðlaugur Þór nefnilega að reyna að troða frumvarpi í gegnum Alþingi sem eykur flutningskostnað til Íslands.

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins benti á þetta í aðsendri grein í Morgunblaðinu mánudag. Við skulum gefa Bergþóri orðið.

Guðlaug­ur Þór ákvað að reyna að koma aft­an að þing­inu með þessu frum­varpi sínu, sem varðar gríðarlega hags­muni í flutn­inga­starf­semi á Íslandi, bæði flugi og sigl­ing­um. Ráðherr­ann ákvað sem sagt að henda mál­inu inn með af­brigðum, þegar aðeins 11 dag­ar eru eft­ir af þing­störf­um fram að jóla­hléi, með kröfu um af­greiðslu áður en jól­in ganga í garð.

Það þýðir að ráðherr­ann virðist vilja kom­ast hjá allri umræðu um málið. Hann vill þrengja svo að um­sagnaraðilum að þeir varla hafa tíma til að lesa um málið áður en þeim er ætlað að hafa skilað um það um­sögn sem vit er í. Vit­andi hvað þetta er í raun slæmt mál elt­ir hann Vinstri græna og þeirra lofts­lags­fas­isma og skattagleði í blindni án þess að gæta að af­leiðing­un­um.

Þetta er glapræði af hálfu ráðherr­ans enda er í þess­um doðranti sem hann kall­ar frum­varp að finna sum af flókn­ustu mál­um sem á fjör­ur Íslands hef­ur rekið síðan EES-samn­ing­ur­inn var lög­fest­ur.

Lofts­lags­skatt­ar á flug­starf­semi, lofts­lags­skatt­ar á skipa­sigl­ing­ar og 12 aðrar gerðir í leiðinni. Sum­ar glæ­nýj­ar, aðrar upp­færðar.
Meg­in­skylda hverr­ar rík­is­stjórn­ar er að vernda hag lands og þjóðar. Nú um stund­ir sitj­um við hins veg­ar uppi með rík­is­stjórn sem virðist ófær um ein­mitt það. Hún er ófær um flest og situr með bæði hend­ur og fæt­ur bundna í hnút ósætt­is og ráðal­eys­is – allt í þágu stöðug­leika. Á meðan geis­ar verðbólg­an, vext­ir hækka, orku­mál­in eru í ólestri og þá skal ekki gleyma út­lend­inga­mál­un­um.

Ráðherr­un­um er meira um­hugað um að hossa sér með koll­eg­um sín­um í sýnd­ar­veru­leik­an­um í Dúbaí, þar sem rætt er um 28. og síðasta tæki­færið til að bjarga heim­in­um. Mála­mynda­yf­ir­lýs­ing­ar, sýnd­ar­sam­ráð og annað bíó renn­ur frá ráðherr­un­um sem eng­um ár­angri ná þar, né ann­ars staðar.

Ef Óðinn ætti að finna eina góða ástæðu fyrir þetta ríkislið að fara til Dúbaí er að þar gerir þetta annars ágæta fólk minna ógagn.

Það myndi spara Íslandi verulega fjármuni ef Guðlaugur Þór myndi framlengja í Dúbaí og halda áfram að drekka kokteila.

***

Verðbólgubálið brennur

Það er ekki að ástæðulausu að ríkisútgjöldin vaxa og vaxa. Því orð og efndir fara engan veginn saman hjá ráðherrunum. Allt sem kemur frá þessari ríkisstjórn þessi dægrin er moðsuða. Þessi grein Guðlaugs Þórs og svör hans við spurningum mbl.is eru ágætt dæmi um það

Það sem verra er að það er ekki nokkur einasta von að verðbólgan lækki nema annað af tvennu komi til, eða bæði. Kraftaverk eða enn meiri vaxtahækkanir.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.