Einn morguninn í síðustu viku fór ég í apótek að sækja lyf sem ég tek daglega. Þar hitti ég vin foreldra minna og spjallaði við hann á meðan ég beið eftir afgreiðslu. Svo fór ég út í bíl með panodil, otrivin og mildison fyrir ofnæmi dóttur minnar, en ekki lyfin sem voru tilgangur ferðarinnar.
Þrátt fyrir allt taldist ég vel fúnkerandi ADHD-manneskja.
Svona atvikum hefur sem betur fer fækkað eftir að ég fékk ADHD-greiningu. Áður var ég iðulega að hugsa tólf hluti í einu og var mjög utan við mig. Ég get svo sem enn verið utan við mig, en það er langt síðan ég hellti síðast yfir mig kaffi við það að líta á úrið. Ég hef heldur ekki týnt bílnum svo heitið geti síðan ég fór á lyf og ekki bakkað á neitt á bílastæðinu heima hjá mér. Það gerðist nokkrum sinnum af því að ég gleymdi um leið og ég settist inn í bílinn að það væri eitthvað fyrir aftan mig. (Maðurinn sem fann upp bakkmyndavélina ætti samt að fá nóbelinn.)
Þrátt fyrir allt taldist ég vel fúnkerandi ADHD-manneskja. Með allskonar bjargráðum eins og minnislistum, stífum dagbókarskráningum og blessun ofureinbeitingar sem stundum fylgir ADHD, hefur mér tekist að gera ýmislegt. Það hefur bara krafist mikils tíma og orku og mér skilst að þau batterí endist ekki endilega ævina á enda.
Það getur alveg verið fyndið að vera eins og skilgetið afkvæmi Viggós viðutan og prófessors Vandráðs, en það er alls ekki fyndið að þróa með sér kvíða, vera líklegri til að lenda í óhöppum og slysum, strögla eða hrökklast úr námi og vera oft í brekku í samanburði við samferðamennina. Stytting biðlista í greiningu yrði örugglega þjóðhagslega hagkvæm aðgerð, enda er ógreint ADHD-fólk vannýtt auðlind.
Pistillinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu, sem kom út 13. október.