„Markmiðið með framboði mína [sic] var að gera tilraun til að sameina krafta okkar á þessum vettvangi. Sameinast undir merkjum ASÍ og sameinast sem breiðari fylking en áður og nýta þingið sem tækifæri til að slíðra sverðin og snúa bökum saman. Ég hafði einlæga trú um að við gætum skilið þá eitruðu orðræðu og átök sem hafa einkennt Alþýðusambandið síðustu ár eftir á þinginu,” segir í brandara vikunnar sem er í boði Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR og fyrrverandi ASÍ forsetaframbjóðanda. Týr hló að minnsta kosti upphátt þegar hann las fésbókarpistil Ragnars Þórs á þriðjudag.
***
Húmoristarnir þrír – það eru Ragnar Þór ásamt þeim Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Vilhjálmi Birgissyni – hafa haldið skrípaleik sínum áfram og þau munu halda uppteknum hætti þangað til meðalgreindur almúginn rankar við sér og áttar sig á því að verið er að hafa hann að fífli, ef honum ber þá nokkurn tíma gæfa til þess.
***
Það er augljóst að þríeykið hafði ákveðið þetta leikrit áður en þau buðu sig fram og það ætti ekki að koma neinum á óvart þegar stéttarfélögin sem þau leiða segja sig úr ASÍ í kjölfarið. Með gerviframboðum sínum fældu þau vafalaust frá góða leiðtoga sem kynnu að hafa gefið kost á sér við eðlilegar kringumstæður. Þannig munu þau skilja við ASÍ með veikari forystu en ella og laskaða breiðfylkingu, klofna í herðar niður.
***
Það þarf enga snilligáfu til að sjá að þríeykið hefur aldrei haft neinn áhuga á að sameina krafta verkalýðshreyfingarinnar að öðru leyti en að þau vilja óskoruð völd innan hennar, til að þau geti í krafti hennar misnotað stöðu sína til að skapa upplausn á íslenskum vinnumarkaði, og um leið efnahagslífi, í pólitískum tilgangi. Þau vilja byltingu og þau vita að bylting verður ekki til öðruvísi en við samfélagslegar hörmungar. Við skulum bara tala hreint út: þau eru ekkert annað en efnahagslegir ribbaldar. Það grátlegasta er að þessar hörmungar munu bitna verst á þeim sem minnst mega sín í þessu samfélagi, þeim sömu og húmoristarnir þykjast berjast fyrir. Hatrið hefur ekki enn sigrað, en þangað stefna þau.
Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 13. október 2022.