Óðinn fjallaði um bensínstöðvamálið í Viðskiptablaðinu á miðvikudag. Þar er meðal ananrs útskýrður munurinn á bensínstöðvalóðum og öðrum lóðum.
Áskrifendur geta lesið pistlinn í heild sinni hér, en hér að eftir er umfjöllunin um hlutleysi Ríkisútvarpsins.
Þungur dómur ritstjórans
Í lögum um Ríkisútvarpið er þess krafist af stofnunni að hún sé hlutlaus. Í aðdraganda birtingar Kastljósþáttarins á mánudag var gerð tilraun til að stöðva birtingu efnisins. Fréttamaðurinn var einn fjölmargra starfsmanna Kveiks.
Ingólfur Bjarni Sigfússon, ritstjóri Kveiks, vildi ekki birta þáttinn og sagði, að sögn, að umræddur fréttamaðurinn væri lélegur rannsóknarblaðamaður en snotur fréttalesari.
Þetta var þungur dómur, en kom frá manni sem fyrir rétt rúmum tveimur árum ákvað að fara til Úkraínu í sama mund og Rússar réðust inn í landið.
Hann var líklega eini maðurinn í veröldinni allri með internettengingu, sem hafði ekki heyrt af því eitt hundrað þúsund rússneskir hermenn væru við úkraínsku landamærin og vestrænar leyniþjónustur væru fullvissar að innrás hæfist fyrr en seinna.
Þá hófst einhver allra hlægilegasti flótti sem sést hefur í sjónvarpi. Það var líka ágætt sjónvarp, að vísu alveg óviljandi.
Hafi ritstjórinn rétt fyrir sér með fréttamanninn, þá eru að minnsta kosti tveir fréttamanna Kveiks þannig af guði gerðir að rannsóknarblaðamennska hentar þeim ekki, en spurning hvort hann sé dómbær á það.
***
Eiga „eigendur“ Ríkisútvarpsins ekki rétt á skýringum?
Ríkisútvarpið hefur auglýst um áratugaskeið að þjóðin eigi Ríkisútvarpið. Það er auðvitað misskilningur, þjóðin getur ekkert átt en ríkið á Ríkisútvarpið að forminu til. Raunverulegur eigandi er Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins.
Deilan í starfsmannafélaginu fór í þetta sinn aðeins úr böndunum. Vinstri armur stofnunarinnar, sem eru nokkurn veginn nákvæmlega allir starfsmenn hennar, kom í veg fyrir birtingu þáttarins um tíma. En svo neyddust þeir til að sýna þáttinn þegar málið komst upp á yfirborðið og varð vandræðalegt.
Útvarpsstjórinn, sem var starfsmaður Dags B. Eggertssonar þar til að hann var handvalinn af ráðherra í Efstaleiti, hefur ekki einu sinni reynt að útskýra þetta. Á almenningur ekki rétt, nei kröfu, á skýringum?
***
Hlutleysi fréttamannsins
Sumir halda ef til vill að stjórnendur Ríkisútvarpsins gæti sérstaklega að hlutleysi fréttamanna í einstaka málum. Að ríkisfréttastofan sé jafnvel með eitthvert kerfi til að tryggja hlutleysið. Og ef minnsti vafi leiki á hlutleysi einstakra fréttamanna sé greint frá hagsmunaárekstrum eða öðrum fréttamanni fengið verkefnið.
Nei. Slíkt fengi auðvitað ekki samþykki hjá stjórn starfsmannafélagsins. Markmiðið er nefnilega að fara með Ríkisútvarpið eins og stjórninni sýnist.
Fréttamaðurinn, sem vann Kastljósþáttinn, minntist t.d. ekki á það í umfjöllun sinni um bensínstöðina á Ægisíðu að af þeim níu einbýlishúsum sem eiga lóðamörk að bensínstöðvarlóðinni þá eru tvö húsanna í eigu aðila nákomnum honum.
Það vakti líka eftirtekt að Ögmundur Jónasson var einn þeirra álitsgjafa, sem lýsti yfir sérstökum stuðningi við fréttamanninn.
En lét þess ógetið að dóttir hans á eitt þessara níu húsa og á því persónulegra hagmuna að gæta.
Auðvitað er það svo í litlu samfélagi eins og Íslandi að allir eiga hagsmuni og skyldleika í velflestum málum. Þeir mega vitanlega eiga þá og verja þá hagsmuni og það má fjalla um þá hagsmuni. En það er lágmarkskrafa til ríkisstofnunar, þar sem löggjafinn hefur sett þá skyldu með lögum að starfsmenn að gæti hlutleysis í umfjöllun sinni, að þeir fari eftir þeim lögum.
***
Hlutleysi Ríkisútvarpsins
En hlutleysi eru orðin tóm hjá Ríkisútvarpinu. Það hefur sést í hverju málinu á fætur öðru. Mikilvægasta málið var auðvitað Icesave, en aldrei hefur sést önnur eins misnotkun starfsmannafélagsins á stofnunni og í því máli. Og aldrei rætt meir, aldrei gert upp, eins og allt hafi verið eðlilegt.
Þar lagðist Ríkisútvarpið með hagsmunum Breta og Hollendinga gegn hagsmunum íslensk almennings. Að einhverju leyti vegna afstöðu til Evrópusambandsaðildar, en sjálfsagt frekar vegna þess að Ríkisútvarpið stóð allt til enda með ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu, einu hreinu vinstri stjórn lýðveldisins.
Hið sama virðist hafa verið upp á teningnum nú og útvarpseigendafélagið í Efstaleiti var enn og aftur til í hvað sem er fyrir málstaðinn og vini sína í ráðhúsinu. Og hefði sjálfsagt tekist ef almenningi hefði ekki blöskrað karlremban og kvenfyrirlitningin í yfirstjórninni.
En hver er grundvöllur ríkisútvarps, sem öllum íbúum landsins er skylt að borga til, ef það getur ekki verið hlutlaust, getur ekki annað en verið hlutdrægt með vinum sínum og samherjum?
Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.