Margir þeirra sem styðja einstaklingsfrelsi, lága og almenna skatta og hóflegt ríkisvald eiga erfitt með að ákveða hvað þeir eiga að kjósa fyrir þessar kosningar.

Sjálfstæðisflokkurinn, sem er sá flokkur sem hefur barist fyrir þessum grundvallargildum, hefur átt undir högg að sækja. Ekki að ástæðulausu heldur vegna þess að flokkurinn missti áttir í stjórnarsamstarfi með Vinstri grænum og Framsóknarflokknum.

Sjálfstæðisflokkurinn gaf alltof mikinn afslátt af stefnu sinni og geldur nú, að minnsta kosti í könnunum, fyrir þau mistök. En kjósendur geta fyrirgefið mistök. Það sem mestu skiptir er að forysta flokksins gangist við þeim. Það hefur hún ekki gert með nægilega afdráttarlausum hætti í þessari kosningabaráttu.

***

Að gera upp hug sinn

Því eiga frelsishugsandi menn erfitt með að gera upp hug sinn. Margir vilja refsa Sjálfstæðisflokknum. En þá verða menn að huga að því að ef þeir gera það, þá refsa þeir sjálfum sér. Þeir kjósa yfir sig enn verri ríkisstjórn en setið hefur síðustu sjö ár, og er þá mikið sagt.

Miðflokkurinn er um margt ágætur flokkur og er eini flokkurinn á Alþingi sem veitti ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins raunverulegt aðhald. Eini flokkurinn sem hefur talað gegnum auknum ríkisútgjöldum, galopnum landamærum og stofnun dellustofnanna. En er hann hið rétta val á laugardag?

***

Að treysta ekki sjálfum sér

Viðreisn er mesta furðufyrirbærið í íslenskum stjórnmálum að Pírötum meðtöldum. Í raun algjört viðundur. Formaðurinn, sem var eitt sinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur komist upp með það að skipta algerlega um stefnu í flestum málum - enda popúlisti fram í fingurgóma. Sú gerir allt fyrir atkvæðið.

En það sem verra er hún hefur aldrei gert hreint fyrir sínum dyrum varðandi aðkomu sínu að Kaupþingi og neyðarláni Seðlabankans.

Ef það er rétt, sem fullyrt er við Óðinn að hafi verið svo, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafi misnotað stöðu sína sem varaformaður og ráðherra til að hafa áhrif á forsætisráðherra Kaupþingi og sjálfri sér til hagsbóta, þá ætti það að verða til þess að Þorgerður Katrín hætti afskiptum af stjórnmálum samstundis.

En Þorgerður Katrín og Viðreisn treysta sjálfum sér jafn illa til að stjórna landinu og Óðinn gerir. Því vilja þau stóran hluta valds íslenska ríkisins til Evrópusambandsins. Fá í staðinn boð í kokteilboð í Brussel og drekka þar til að gleyma – fortíðinni og nútíðinni og ef til vill framtíðinni.

Og minna þau þá mjög á unga manninn sem studdi mjög bann við reykingum á vínveitingahúsum upp úr aldamótum. Hann átti erfitt með að hætta að reykja og taldi sína einu von að með reykingabanni myndi það takast. Sá reykir enn.

***

Lausnin

Allt útlit er fyrir Evrópusambands- og vinstri stjórn Samfylkingar, Viðreisnar, Framsóknar og hugsanlega eins varadekks að auki. Reykjavíkurmódelið á landsvísu.

Við þá stjórn væri einn kostur, og aðeins einn. Þetta lið myndi sína sitt rétta andlit. Og hægri menn gætu almennilega náð vopnum sínum. Helsti ókosturinn er hins vegar sá að hér færi allt til helvítis.

***

Óðinn telur aðeins eitt í stöðunni og það er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, þrátt fyrir allt og allt. Ef menn eru með horn í síðu einhverra á listum flokksins þá er rétt að láta þá skoðun í ljós með útstrikunum.

En það er mikilvægt að muna eitt. Það má ekki strika allan listann út. Einn frambjóðendanna verður að vera ósnertur svo atkvæðið sé gilt.

Óðinn er fastur dálkur í Viðskiptablaðinu. Pistillinn birtist í blaði vikunnar sem kom út á miðvikudag.