Það er ánægjulegt að Alþýðusambandið hafi séð til þess að vikulegir föstudagspistlar forsetans hættu ekki að birtast eftir að Drífa Snædal hvarf af vettvangi. En eins og flestir vita þá hafa þessir pistlar verið ómissandi þáttur í yfirferð þeirra sem fylgjast með efnahags- og þjóðmálum.

Síðastliðinn föstudag birti Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ, pistil á heimasíðu samtakanna sem fékk svo töluverða fjölmiðlaathygli. Það sem vakti helst eftirtekt fjölmiðla er sú fullyrðing Auðar að ríkið hafi einungis lagt einn milljarð til reksturs Strætó bs í fyrra en hins vegar niðurgreitt kaup landsmanna á rafmagnsbílum um níu milljarða á sama tíma. Og við þetta fléttir svo Auður vísunum í stéttaskiptinguna í íslensku samfélagi þar sem sauðsvartur almúginn ferðast með almenningssamgöngum meðan hinir efnameiri aka um á rafbílum. Jafnframt gerðu fjölmiðlar sér mat úr þeirri fullyrðingu að almenningssamgöngur með Strætó hefðu getað verið gjaldfrjálsar hefði ríkið varið tæpum milljörðum meira til rekstursins en raunin varð.

Gallinn við þessa framsetningu er að hún er beinlínis röng. Í fyrsta lagi vörðu ríki og sveitarfélög samtals um sjö milljörðum til reksturs Strætó í fyrra en ekki einum milljarði. Samtals kostaði reksturinn 8,6 milljarða en farþegar greiddu um 1,3 milljarða í farargjöld.

Í öðru lagi er frekar hæpið að slá þeirri staðreynd fram að skattar sem ríkið innheimtir ekki – eins og í tilfelli rafmagnsbíla samanborið við bíla með sprengihreyfli – sé sérstök niðurgreiðsla. Í besta falli afhjúpar það sérstaka sýn á hlutverk ríkisvaldsins og gildi eignarréttarins.

***

Fjölmiðlar voru hins vegar með á nótunum þegar kom að fréttum af því að borgin hafi hlotnast eftirsótt verðlaun sem kennd eru við græna skóflu. Frétt um að Reykjavík hafi fengið verðlaunin fyrir byggingu leikskólans Brákarborgar birtist á vef borgarinnar á föstudag.

Morgunblaðið greindi hins vegar frá því að Reykjavíkurborg væri meðal stofnenda verðlaunanna sem veitt voru í fyrsta sinn og benti á að leikskólinn væri ekki einu sinni fullbyggður. Í frétt Morgunblaðsins segir:

„Þessi ræða sem borgarstjóri flytur við afhendingu á þessari viðurkenningu lætur ástandið liggja milli hluta. Það er talað um að allt sé í blóma og að þau séu búin að skila af sér byggingu sem prýði hverfið og bæti úr þörf á leikskólaplássum í Reykjavík,“ segir Georg í samtali við mbl.is.

„Á meðan er staðan sú að húsið er ekki fullbúið og við getum ekki tekið á móti fullri starfsemi í húsinu,“ bætir hann við.

„Skrifstofa leikskólastjórans er geymsla auk þess sem fullbúnir iðnaðarmenn og umferð stórvirkra vinnuvéla eru daglegt brauð á leikskólanum.“

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 6. október 2022.