Óðinn fjallaði um orkumál í Viðskiptablaðinu á fimmtudag. Hann bendir á að helstu sérfræðingar séu löngu farnir að vara við skorti, bæði á rafmagni og heitu vatni. Og miðað við orkuskiptaspá Orkustofnunar er ekkert sem bendir til að orkuskiptin, sem þó er búið að binda í lög verði að veruleika.

Hér er stutt brot úr Óðni en áskrifendur geta lesið Óðinn í fullri lengd hér.

Tapaður áratugur?

Þótt Óðinn óski engum ills veltir hann fyrir sér hvort slokkna þurfi á ofnum við jólabaksturinn eða kólna í húsum til þess að alvarleiki málsins renni upp fyrir fólki. Í byrjun vikunnar bárust þau tíðindi að þremur sundlaugum á Hellu, Hvolsvelli og Laugalandi var lokað til þess að spara heitt vatn. Íbúar Reykjavíkur gátu þó glaðst að sinni því Veitur sögðu á mánudag að þurfi að skammta heitavatnið þar, á næstunni að minnsta kosti. Á þriðjudag var Veitur búnar að skipta um skoðun og skoða nú hvort sundlaugum verði ekki lokað „vegna áskorana í flutningsmálum.“

Veitumálin eru því ekki í betra horfi en raforkumálin og munu fara versnandi samhliða mannfjölgun ef ekkert verður að gert.

Ætli það frjósi fyrr í helvíti en að orðum fylgi aðgerðir?

Þegar þægindin eru orðin sjálfsögð og forréttindin farin að skyggja á útsýnið duga orð ekki alltaf til. Kannski þarf almenningur að finna það á eigin skinni, bókstaflega, að sinnuleysi í málaflokknum hefur afleiðingar. Ætli það frjósi fyrr í helvíti en að orðum fylgi aðgerðir?

***

Óðinn hefur þungar áhyggjur af því að ótti og ákvarðanafælni, sem hefur ríkt í orkumálum, leiði til ærins og langvarandi fórnarkostnaðar fyrir þjóðina. Vísbendingar um þetta eru þegar farnar að koma fram þar sem tækifæri til atvinnuuppbyggingar víða um land hafa farið forgörðum af þeirri einföldu ástæðu að það er ekki til næg orka. Hugmyndir um fjárfestingar deyja með þeim orðum að það sé ekki hægt að stinga í samband. Það er ekki nóg til. Þetta mun bara ágerast eftir því sem Íslendingum fjölgar.

Ráðherra orku- og loftslagsmála hlýtur í það minnsta að hafa þungar áhyggjur af stöðunni. Kannski væri nærtækast fyrir hann að taka eins og einn fund með orkumálastjóra. Þar mætti hann spyrja þeirrar einföldu spurningar hvort Orkustofnun ætli að skila auðu í orkuskiptunum, skuldbindingum þjóðarinnar í loftslagsmálum og atvinnuuppbyggingu til framtíðar eða ekki. Ætlar hann að skila trúðanefinu?

Óðinn veit að margir úr atvinnulífinu bíða eftir svörum. Sveitarstjórnir bíða eftir svörum. Þjóðin öll þarf að fá einhvern botn í þetta. Framtíðin er í húfi og boltinn er hjá Guðlaugi Þór Þórðarsyni og samráðherrum hans í ríkisstjórn.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út í fimmtudaginn, 15. desember 2022.