Hér sit ég á bílastæði, bíð eftir að barn komi frá tannlækni og var að borga skattana mína. Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá finnst mér gaman að borga skatta – finnst ég vera að gera gagn.

Verst er þó að þessi misserin gagnast skattarnir mínir verr en ella af því að ríkisstjórnin stýrir efnahagsmálunum svo illa og ríka fólkið sleppur svo auðveldlega við sínar skyldur.

Svo mælti Illugi Jökulsson í síðustu viku á Facebook. Fallega dyggðaskreyttur um borð í einkabílnum.

Hér sit ég á bílastæði, bíð eftir að barn komi frá tannlækni og var að borga skattana mína. Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá finnst mér gaman að borga skatta – finnst ég vera að gera gagn.

Verst er þó að þessi misserin gagnast skattarnir mínir verr en ella af því að ríkisstjórnin stýrir efnahagsmálunum svo illa og ríka fólkið sleppur svo auðveldlega við sínar skyldur.

Svo mælti Illugi Jökulsson í síðustu viku á Facebook. Fallega dyggðaskreyttur um borð í einkabílnum.

Óðinn gerði sér sérstaka ferð á skattstofuna til að skoða skattgreiðslur Illuga fyrir árið 2023 og sjá þá með eigin augum hversu rausnarlegur Illugi er gagnvart samborgurum sínum, og öllum þeim sem vilja búa á Íslandi og fá alla mögulega þjónustu frítt frá skattgreiðendum.

Óðinn gerði reyndar þau mistök að segja kjaftöskunum í Þjóðmálum niðurstöðuna sem auðvitað misstu þetta út úr sér í ölæði norðan heiða á bjórkvöldi. En það má auðvitað fyrirgefa.

***

Óskaplega einfalt dæmi

Gefum okkur að til sé maður sem heitir Þorsteinn Már Baldvinsson. Hann sé hluthafi og forstjóri í útgerðarfélagi sem heitir Samherji. Samherji hagnaðist árið 2023 og greiddi 21% tekjuskatt af hagnaðinum. Reyndar greiddi félagið einnig veiðigjald sem er hagnaðargjald, en látum það vera.

Ef Þorsteinn þessi vill greiða sér út arð, fá peninginn í eigin vasa, þarf hann að greiða 22% fjármagnstekjuskatt.

Þá er skattlagning af hagnaði fyrirtækisins komin í vasa eigandans samanlagt 38,38%.

Það vill þannig til að Þorsteinn fékk 397 milljónir í fjármagnstekjur á síðasta ári. Segjum sem svo að þær hafi allar komið úr Samherja, þá námu skattgreiðslurnar um 170 milljónum króna af þeirri fjárhæð sem Þorsteinn fékk í arð.

Óðinn endurtekur. Skatthlutfall Þorsteins er því 38,38% af fjármagnstekjunum.

En sami Þorsteinn var líka með launatekjur. Þær námu 6,5 milljónum á mánuði eða 77,3 milljónir yfir árið. Skatthlutfall Þorsteins Más af launum hans var 41,53%.

***

En hvað með Illuga?

Illugi Jökulsson var með 471 þúsund á launatekjur á mánuði árið 2023, eða 5,65 milljónir króna yfir árið. Hann greiddi 1,058 milljónir í tekjuskatt og útsvar, þar af 847 þúsund í útsvar og 211 þúsund krónur í tekjuskatt í ríkissjóð. Tekjuskattshlutfall Illuga Jökulssonar árið 2023 var 18,4%.

Nú skilur Óðinn betur hvers vegna einn besti leikmaður góða liðsins er svona glaður með að greiða skattana sína. Þeir eru nefnilega bæði litlir í hlutfalli og krónutölu.

„Ríka fólkið“, þetta fólk sem sleppur svo auðveldlega við sínar skyldur að mati Illuga, getur ekki með nokkru móti greitt svo lágt hlutfall í skatta.

Rétt er að hafa í huga þegar Illugi leggur til ný útgjöld ríkissjóðs að hann greiddi heilar 211 þúsund krónur í ríkissjóð árið 2023.

***

Er Illugi hið nýja 1%

Þorsteinn Már Baldvinsson greiddi 32 milljónir í tekjuskatt og útsvar og 87 milljónir í fjármagnstekjuskatt. Til þess að rekstrarfélag eins og Samherji geti greitt út arð líkt og Þorsteinn Már fékk á síðasta ári þarf félagið fyrst að greiða 83,37 milljónir í tekjuskatt.

Þorsteinn Már greiddi persónulega 119 milljónir króna í skatta og hafi arðurinn komið frá rekstrarfélagi greiddi það 83 milljónir af hagnaði.

Illugi Jökulsson, sem skemmtir sér á daginn við að greiða skatta, greiddi 1 milljón króna í skatta. Eða 0,5%-0,8% af því sem Þorsteinn Már greiddi. Námundað er það 1% af sköttum Þorsteins.

Hver er eiginlega að sleppa undan „skyldum sínum“?

***

Missagnir sveitarstjórnarmanna

Aftur og aftur mæta sveitarstjórnarmenn, sem flestir eru með allt niðrum sig í rekstrinum, og halda því fram að þeir sem eru með háar fjármagnstekjur greiði ekki tekjuskatt og útsvar.

Þetta er einhver lífseigasta þvæla í íslensku þjóðlífi. Um langt skeið hafa verið reglur um að eigendur fyrirtækja, ef þeir sinna þar tilteknu starfi eða eiga ráðandi hlut, þurfi að reikna sér laun eftir reglum sem yfirvöld setja.

Um þetta segir á vef Skattsins:

Ef unnið er við atvinnurekstur lögaðila ber að reikna endurgjald ef maður er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, þó ekki ef um er að ræða starf á vegum lögaðila sem skráður er á opinberum verðbréfamarkaði. Maður telst ráðandi aðili ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum, eða starfandi hluthöfum, á samtals 50% hlut eða meira í lögaðila, og á sjálfur 5% hlut eða meira í lögaðilanum.

Skattyfirvöld hafa undanfarin ár fylgt þessum reglum eftir af miklu harðfylgi. Það er því ósennilegt að þarna sé eftir einhverju að slægjast.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

***

Að endingu er rétt að benda á að Margrét okkar í Pfaff hefur ekkert gert með ráðleggingar Óðins um að leiðrétta skattgreiðslur hennar. Þetta sést á ársreikningi Pfaff fyrir árið 2023.

Hún skrifaði bakþanka í Fréttablaðið fyrir kosningar 2021 og sagði þar:

Það eru margir á því að íslenska skattkerfið sé ekki sanngjarnt – að breiðustu bökin beri einfaldlega ekki sinn skerf. Þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur snýst því ekki um öfund heldur réttlæti.

Af þessu tilefni skrifaði Óðinn tvo pistla, haustið 2021 og sumarið 2022. Margrét var þá með sömu ranghugmyndirnar um íslenska skattkerfið og Illugi Jökulsson.