Íslenskur fjármálamarkaður starfar að mestu eftir sameiginlegum reglum sem gilda á EES-svæðinu, en býr þó við nokkur sérkenni.
Hið evrópska regluverk um fjármálastarfsemi hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum. Breytingarnar eiga flestar rætur að rekja til alþjóðlegu fjármálakreppunnar sem reið yfir fyrir að verða sautján árum. Margar af þeim breytingum hafa verið skynsamlegar og er ætlað að treysta umgjörð um fjármálastarfsemi í ríkjum álfunnar. Aðgengi íslenskra fjármálastofnana að markaði EES-svæðisins er þeim afar mikilvægt og er ríkur vilji til að starfa innan þess ramma sem þar er markaður. Á sama tíma er flestum ljóst að megnið af regluverkinu var ekki skrifað með íslenskt hagkerfi eða fjármálafyrirtæki í huga, enda eru jafnvel stærstu innlendu fjármálafyrirtækin agnarsmá í evrópskum samanburði. Óhjákvæmilega verður það kostnaðarsamara fyrir lítil fyrirtæki og samfélög að uppfylla kröfur viðamikils regluverks en þau stærri.
Sífellt fleiri virðast vera að komast á þá skoðun að pendúllinn innan Evrópu hafi sveiflast of langt í átt að ofregluvæðingu. Þannig sendu forstjórar fjármálaeftirlitsstofnana á Norðurlöndunum, þar með talið Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fyrir hönd fjármálaeftirlits Seðlabankans, bréf á síðasta ári til evrópskra eftirlitsstofnana þar sem hvatt var til einföldunar regluverksins sem gilti um fjármálastarfsemi án þess að endilega væri gefinn afsláttur af kröfum. Meðal þess sem bent var á í bréfinu er að of mikill tími færi í að tikka í box til að uppfylla kröfur regluverksins á kostnað þess að fylgjast með þeim áhættuþáttum sem voru tilefni upphaflegrar reglusetningar. Evrópsku bankasamtökin hafa um leið ítrekað varað við hættunni af því að Evrópa sé að regluvæða sig frá samkeppni við aðra heimshluta sem um leið komi niður í lífskjörum.
Fjölmörg tækifæri til úrbóta
Við hið samevrópska regluverk bætist sá rammi utan um fjármálastarfsemi sem er í höndum innlendra stjórnvalda. Þar á meðal er tilhneiging löggjafans til gullhúðunar eða blýhúðunar regluverks, en í því felst að ganga lengra við innleiðingu Evrópureglna en kröfur Evrópusambandsins segja til um. SFF sendi starfshópi stjórnvalda á síðasta ári ábendingar um 24 dæmi um gullhúðun á fjármálamarkaði og var þar ekki um tæmandi upptalningu að ræða.
Þá hefur um nokkurt skeið verið til staðar svokallað „Íslandsálag“ sem fyrst var fjallað um í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018 í þessu samhengi. Í Hvítbókinni var bent á að smæð bankanna og hagkerfisins, háir sértækir skattar og háar eiginfjárkröfur væru allt þættir í ytra umhverfi banka sem stuðluðu að því að vaxtamunur íslenskra banka væri hærri en í nágrannalöndunum. Ísland þarf á vel fjármögnuðu fjármálakerfi að halda en á sama tíma má velta upp hve mjög Ísland eigi að skera sig frá öðrum Evrópuþjóðum í þeim efnum. Þá stóð upphaflega til að leggja hina háu sértæku skatta á tímabundið í kjölfar fjármálakreppunnar. Í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Intellecon vann fyrir SFF á síðasta ári var áætlað að Íslandsálagið sem hlytist af hærri sértækum sköttum á banka, óvaxtaberandi bindiskyldu og kröfum um eiginfjárbindingu umfram nágrannaríkin kynni að stuðla að því að útlánsvextir íslenskra viðskiptabanka væru allt að 0,96-1,15 prósentustigum hærri en ella af algengum lánum. Yfirfært á 50 milljón króna lán samsvari það um 480-575 þúsund krónum á ári. Þessi áætlun Intellecon var sett fram með þeim fyrirvara að áhrifin komi einungis fram í útlánsvöxtum bankanna en um leið tekið fram að ákvörðun um vaxtakjör og önnur verðlagning, sé alltaf í höndum hvers lánveitenda fyrir sig. Þá kunni áhrifin að koma fram með öðrum leiðum s.s. niðurskurði kostnaðar eða þjónustu, minni arðgreiðslu til eigenda eða lægri innlánsvöxtum.
Samantekið leiðir þessi umgjörð af sér að það er dýrara og flóknara en ella er að veita fjármálaþjónustu hér á landi. Íslensk stjórnvöld geta stigið skref til þess að draga úr þessum kvöðum og um leið fært starfsumhverfið nær öðrum Evrópuríkjum án þess að gefa afslátt af öryggi fjármálakerfisins. Það myndi auka samkeppnishæfni Íslands og stuðla að því að innlend fjármálafyrirtæki geti betur sinnt þörfum viðskiptavina sinna. Það er mikilvægt fyrir okkur öll, ekki síst íslenska neytendur.
Höfundur er greininga- og samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.