Óðinn fjallaði í Viðskiptablaðinu á föstudag um söluna á Kerecis, einhverju besta fyrirtæki sem Ísland hefur átt.
Ríkisstyrkir til nýsköpunar er einnig umtalsefni, sem og óvæntar en ánægjulegar yfirlýsingar Guðmundar Fertram, stofnanda Kerecis, um samfélagsmál - þó Óðinn sé þeim ekki öllum sammála.
Að endingu fjallar Óðinn um þögn vinstri manna.
Við skulum ekki gleyma því að Samfylkingin undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar, þá formanns og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur forsætisráðherraefnis, lýsti yfir stríði gegn kvótakóngum í alþingiskosningum 2003.
Þá var einmitt Ágúst Einarsson aðalhagræðingur Samfylkingarinnar hættur á þingi fyrir flokkinn - en fáir hafa farið með eins mikil auðævi út úr greininni.
Mun flokkurinn líka lýsa stríði gegn Kerecis. Eða kemur stjórnarseta Ólafs Ragnars í veg fyrir það?
Hádegisverðurinn er ekki ókeypis og heldur ekki áskrift að Viðskiptablaðinu, þó hún sé vissulega á kostakjörum.
Hér er á eftir er stutt brot úr pistli Óðins sem áskrifendur geta lesið hér.
Auðlindagjaldið
Óðinn hefur ekki heyrt Kristrúnu Frostadóttur formann Samfylkingarinnar, né aðra vinstrimenn, leggja til að lagt verði auðlindagjald á þorskroðið sem kemur úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar í ljósi mikilla tekna Kerecis og hugmynda um gríðarlegan vöxt á næstu.
Það væri fróðlegt ef blaðamenn myndu spyrja Kristrúnu, eða aðra málsvara þess að leggja á skatta á alla nema sjálfa sig, um málið.
Kannski jafnvel Ólaf Ragnar Grímsson, sem er ásamt Össuri Skarphéðinssyni, sagður er vera guðfaðir Kristrúnar í stjórnmálum.
Óðinn ætlar svo við tækifæri að ræða skattamál formanns Samfylkingarinnar.
Þar voru nú skýringarnar heldur aumar, svo ekki sé meira sagt.
Óðinn hefur aldrei nokkurn tímann heyrt um að skattstjórar, ríkisskattstjóri eða skatturinn í 101 árs sögu skattembætta hafi beint þeim tilmælum til nokkurs manns að greiða aðeins meira í skatt.
Nei. Þar á bænum hefur hingað til verið talað um vantaldar tekjur, skattundanskot, röng framtalsskil, oftalinn kostnað svo lengi mætti telja.
En í tilviki formanns Samfylkingar voru þetta nú bara tilmæli.
Nú! Var það bara þannig?