Óðinn fjallaði um síðustu mánaðarmót um varanlegan kostnað af innflytjendum á Íslandi frá tilteknum löndum og byggir þar á afar ítarlegum gögnum frá Danmörku.

Ef marka má kostnaðinn í Danmörku er hann varlega áætlaður á Íslandi um 10 milljarðar króna. Á hverju einasta ári.

Pistillinn er hér á eftir í fullri lengd.

Kostnaður af MENAPT á Íslandi og íslensk hagskýrslugerð

Óðinn fjallaði í síðustu viku um viðtal við Bjarna Benediktsson í Þjóðmálum, þar sem hann taldi ríkisstjórnina hafa brugðist of seint við gríðarlegum straumi hælisleitenda til Íslands.

Taldi Bjarni að þær breytingar sem nú væru gerðar á útlendingalögum myndu minnka útgjöldin til málaflokksins verulega.

Morgunblaðið flutti frétt á laugardag um að umsóknum hælisleitenda hafi fækkað um 60% það sem af er ári, borið saman við síðasta ár. Því muni kostnaður við kerfið lækka mikið.

***

Kostnaðurinn hverfur ekki

Óðinn hefur fjallað ítarlega um skýrslur dönsku hagstofunnar og fjármálaráðuneytisins um innflytjendur. Þeir sem hafa kynnt sér efni þeirra skýrslna vita að kostnaður hins opinbera er ekki aðeins sá kostnaður sem hlýst af hælisleitendakerfi hvers lands.

Samkvæmt dönsku gögnunum eru sumir innflytjendur alltaf byrði á öðrum landsmönnum, fá meira úr sameiginlegum sjóðum en þeir greiða í. Það eru innflytjendur frá hinum svokölluðu MENAPT-lönd (uppruni í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku auk Pakistan og Tyrklands).

Það sem er hvað verst við dönsku tölurnar er að aldrei á æviskeiðinu greiða innflytjendur, að meðaltali, til hins opinbera í Danmörku, heldur fá alltaf greitt frá samlöndum sínum.

***

Hver er kostnaðurinn af MENAPT-löndunum á Íslandi?

Samkvæmt íslensku hagstofunni eru tæplega 3 þúsund innflytjendur frá MENAPT-löndunum á Íslandi.

Nýjustu tölurnar sem við eigum frá danska fjármálaráðuneytinu um hreint framlag innflytjenda til hins opinbera er vegna ársins 2018.

Óðinn hefur, á grundvelli dönsku gagnanna, áætlað kostnaðinn sem hið opinbera á Íslandi ber vegna fólks frá þessum upprunalöndum.

Beinn kostnaður er um 10 milljarðar króna og reynsla Dana er að hann lækkar ekki eftir því sem innflytjendur frá þessum löndum dvelja lengur í landinu.

Það verður þó að hafa nokkra fyrirvara á tölunni, bæði til hækkunar og lækkunar. Danska skatt- og bótakerfið er ekki eins og hið íslenska. Mikill fjöldi fólks hefur komið til Íslands frá þessum löndum vegna þess að þjónusta við sjúka og fatlaða er betri en í þeim löndum sem fólkið á tækifæri til að fá dvalarleyfi í.

Það er því svo, að sinnuleysi Bjarna Benediktssonar og ríkisstjórnarinnar í innflytjendamálum mun kosta ríkissjóð verulegar fjárhæðir um ókomin ár.

***

Löggæsla og réttarvarsla ekki talin með

Innflytjendur frá MENAPT-löndunum fremja fjórum sinnum fleiri glæpi í Danmörku en til að mynda Pólverjar, sem er lang stærsti hópur innflytjenda á Íslandi.

Kostnaðurinn við lögreglu, dómstóla og fangelsin er ekki meðtalinn í gögnum danska fjármálaráðuneytisins.

Óðinn ítrekar að þetta eru allt saman meðaltalstölur. Það er því vitanlega margt duglegt og löghlýðið fólk frá MENAPT-löndunum.

En dönsku tölurnar eru staðreynd. Helmingur karla í Danmörku frá Palestínu/Líbanon taka ekki þátt á vinnumarkaði. Hlutfall kvenna er enn hærra.

***

Hvenær fáum við sambærilegar skýrslur á Íslandi?

Danska hagstofan hefur unnið skýrslur um atvinnuþátttöku, glæpi og margt fleira frá árinu 2006, eða í sautján skipti.

Danska fjármálaráðuneytið hefur unnið skýrslur um hreint framlag eftir upprunalandi frá árinu 2017.

Danskir sósíalistar, systurflokkur Samfylkingarinnar, er í forsæti vinstri stjórnar í landinu. Þeir voru það einnig árið 2017 þegar fjármálaráðuneytið danska fór að reikna hverju einstaklingar skila í ríkiskassann, eftir upprunalandi.

© epa (epa)

***

Rökin fyrir flokkuninni

Innflytjendaráðherra sósíalista í Danmörku, Mattias Tesfaye, kom fram með MENAPT-skilgreininguna. Hann rökstuddi hana í viðtali við Berlinske þann 13. desember 2020:

Við þurfum réttar tölur og ég held að það muni gagnast og bæta umræðuna ef við opinberum þessar tölur, því í grundvallaratriðum sýna þær að við í Danmörku eigum í raun ekki í vandræðum með fólk frá Suður-Ameríku og Austurlöndum fjær. Við eigum í vandræðum með fólk frá Miðausturlöndum og Norður-Afríku.

***

Rökin fyrir breyttri stefnu danskra sósíalista

Financial Times tók viðtal við Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana í lok febrúar og ræddi kosningar til Evrópuþingsins sem verða haldnar í byrjun júní. En hún ræddi einnig innflytjendamál í Danmörku.

Frederiksen sagði að stefna danska Sósíalistaflokksins gegn glæpum og í innflytjendamálum væri vinsæl meðal hefðbundinna, fátækari vinstri kjósenda. Danska vinstristjórnin lokaði meðal annars fyrir frekari flóttamannastraum frá Sýrlandi árið 2015.

© epa (epa)

Frederiksen sagði í viðtalinu að hinir ríkari geti valið hvar þeir búa og hvert þeir senda börnin sín í skóla. Hún sagði að „barnaleg" Evrópa yrði að draga úr útgjöldum til velferðarmála og auka framlög til varnarmála:

Óöruggt samfélag er alltaf stærri áskorun fyrir fólk án mikilla tækifæra. Ef þú átt peninga muntu alltaf geta varið þig.

Óðinn er sammála danska forsætisráðherranum en vill þó benda á eitt. Þeir sem eru ríkari geta ekki alltaf varið sig. Það sannaðist í Seinni heimsstyrjöldinni þegar Nasistar reyndu að útrýma gyðingum.

***

Hvar er íslensku skýrslurnar?

Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Bjarna Benediktssonar leiðir ekki stjórnmálaumræðuna á Íslandi, heldur eltir hana. Það er sama hvar borið er niður. Eitt sinn forystuflokkur í íslenskum stjórnmálum er aukaleikari á hinu pólitíska sviði.

Hvers vegna hefur forysta Sjálfstæðisflokksins ekki beitt sér fyrir því að sambærilegar skýrslur séu unnar hér landi, líkt og í Danmörku. Það hefði ekki átt að vera flókið því fjármálaráðuneytið hefur síðasta áratuginn nær eingöngu verið undir stjórn ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Að minnsta kosti að nafninu til.

Með skýrslum, líkt og Danir vinna, væri hægt að ræða útlendingamál af yfirvegun og skynsemi. Og við gætum jafnvel lært af mistökum Dana, bæði hvað varðar kostnaðinn vegna innflytjenda og eins það hvað Danir hefðu geta gert betur við móttöku hælisleitenda.

Það kæmi Óðni lítið á óvart ef einhver stjórnarandstöðuflokkurinn krefðist sambærilegra skýrslna. En það kæmi Óðni enn minna á óvart ef þær skýrslur yrðu hrákasmíði.

En hvers er svo sem hægt að vænta af íslenskum hagtölum. Hagstofan veit ekki hvað við erum mörg en starfsmenn hennar, sem eru 112 talsins, fá samt umbun í formi lengra jólaleyfis, langt umfram kjarasamninga.

Nýjasta sem Óðinn hefur séð – í tengslum við yfirvofandi andlát ÁTVR - er að stofnanir ríkisins hafa ekki hugmynd um hversu mikið Íslendingar drekka af áfengi. En það er eitt haldreipi þeirra sem trúa að ríkisrekstur á þessu sviði sé góður.