Við áramót myndast oft á tíðum hugarfarsleg vatnaskil, tímamót þar sem fólk lítur yfir farinn veg, hvort sem við kemur atvinnulífinu eða persónulega lífinu. Sjálf er ég þar engin undantekning og nýti jafnan tækifærið til að fara yfir það sem mér fannst ég gera vel og að sama skapi það sem mér fannst ábótavant.

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa innan sjávarútvegsins á Íslandi í hálfan annan áratug og þannig kynnst því hversu öflugan og kraftmikinn atvinnuveg við eigum þar. Ég hef notið þess að starfa innan þessa atvinnuvegar og að leggja mitt lóð á vogarskálarnar við að skapa þjóðarbúinu verðmæti.

Ég gerði mér þó fljótlega grein fyrir því að þessi atvinnuvegur væri ansi karllægur og að raddir kvenna innan hans væru jafnan ekki mjög háværar. Ég sá því fljótt að til þess að breyting yrði þar á, þyrftu konur að grípa til sinna eigin ráða, að við yrðum að vera okkar eigin gæfusmiðir.

Það var því mikið ánægjuefni þegar félagið Konur í sjávarútvegi (KIS) var stofnað árið 2013. Þar kom saman hópur kvenskörunga sem fundu þörf fyrir aukinni tengingu, samstarfi og eflingu kvenna innan greinarinnar. Nauðsynlegt þótti að byggja upp kröftugt félag kvenna til að við gætum fundið hver aðra, kynnst betur okkar á milli og myndað eins konar sameiningarafl til að öðlast enn sterkari rödd.

Helsta markmið félagsins er því í raun að mynda fjölbreytta fylkingu kvenna innan starfsgreinarinnar, gera konur sýnilegri bæði innan sjávarútvegsins og utan hans sem og að auka áhrif kvenna og tækifæri þeirra innan greinarinnar.

Ásamt því að standa fyrir öflugri viðburðaröð í formi fyrirtækjaheimsókna, fræðsluviðburða og árlegra vorferða á hverju starfsári svo dæmi séu nefnd, hefur KIS tvisvar staðið fyrir rannsóknum á stöðu kvenna innan sjávarútvegsins á Íslandi. Félagið fékk RHA – Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri með sér í lið við úrvinnsluna. Fyrri rannsóknin var unnin árið 2016 og sú síðari árið 2021. Rannsóknirnar voru unnar með það að markmiði að kortleggja stöðu kvenna innan sjávarútvegsins með því að safna tölulegum upplýsingum um konur og kanna viðhorf til þeirra innan greinarinnar.

Spurningum var beint til æðstu stjórnenda um 500 fyrirtækja í sjávarútvegi og tengdum greinum. Niðurstöður þessara tveggja rannsókna voru nýttar til samanburðar til þess að leggja mat á hvort einhver breyting hefði orðið á viðhorfi til kvenna innan greinarinnar á þessu 5 ára tímabili sem leið á milli rannsóknanna.

Helstu niðurstöður voru þær að á þessu fimm ára tímabili sást að á heildina litið sé konum í fullu starfi í sjávarútvegstengdum greinum að fjölga í öllum starfsflokkum. Þeim vinnustöðum sem hafa enga konu í fyrirtækinu fækkaði verulega (en tæplega fjórðungur fyrirtækjanna hefur innan við fimm starfsmenn).

Á heildina litið er sjávarútvegurinn að skapa fleiri störf, því við sjáum að körlum er einnig að fjölga í öllum flokkum nema í flokki framkvæmdastjóra þar sem störf virðast hafa verið að færast til kvenna í eilítið auknum mæli.

Hlutfall kvenkyns framkvæmdastjóra er þó ekki nægilegt að okkar mati. Hlutfallið hækkaði úr 16% upp í rúm 24% sem er vissulega þróun í rétta átt. Framfarirnar eru þó allt of hægar hvað þetta varðar og hlutfall kvenna í æðstu stöðum allt of lágt. Slíkar niðurstöður undirstrika þörfina fyrir félagið Konur í sjávarútvegi og áframhaldandi starf þess.

Senn fer að líða að vinnu við þriðju rannsóknina um stöðu kvenna í sjávarútvegi. Ég vil því nýta tækifærið til þess að skora á ákvörðunartökuaðila fyrirtækja innan geirans að gefa í við að ráða konur í æðstu stöður og stjórnir.

Ég er ekki að hvetja til ráðninga til þess að fylla upp í kynjakvóta, ég er að hvetja til ráðninga vegna þeirra fjölmörgu kosta sem margar af þessum frábærlega frambærilegu konum búa yfir, kostir sem klárlega geta nýst fyrirtækjum í sjávarútvegi til hagsbóta, til vaxtar og víðsýni.

Ráðum ekki konur til að fyrirtæki líti vel út á við og geti þannig stolt sýnt fram á fjölbreytileika í ráðningum. Ráðum konur vegna verðleika þeirra og þess sem þær geta komið með að borði og lagt af mörkum.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði