Fjárhag Reykjavíkurborgar er borgið. Gott betur en það. Komið hefur á daginn að verðmæti skóglendis í borgarlandinu nemur 576 milljörðum króna, hvorki meira né minna! Verðmæti skóganna er því meira en stöðugleikaframlag kröfuhafa gömlu bankanna til ríkissjóðs á sínum tíma.
Rétt eins og virðisbreytingar fasteigna fegruðu fjárhag Félagsbústaða mun matsbreyting skógareigna umbreyta næsta ársreikningi Reykjavíkurborgar. Öllum má vera ljóst að bjartir tímar eru fram undan í borginni. Ekki nóg með að trén og runnarnir séu metnir á ríflega 500 milljarða króna þá hefur Sævar Freyr Þráinsson lýst því yfir að Carbfix-verkefnið í eigu Orkuveitunnar, sem er dótturfélag Reykjavíkur, muni skila borgarbúum 1400 milljörðum á komandi árum eða þriðjungi núverandi landsframleiðslu.
Týr las um þessi miklu leyndu verðmæti borgarbúa á heimasíðu Lands og skóga sem er deild innan Umhverfisstofnunar. Borgarbúar eru í ævarandi þakkarskuld við starfsmenn stofnunarinnar fyrir að hafa bjargað fjárhag borgarinnar.
Uppgötvunin byggir á rannsókn sem birt var í hinu kunna tímariti Arboricultural Journal. Verðmatið byggir á svokallaðri CAVAT-aðferðafræði (Capital Asset Value for Amenity Trees). Ekki kemur fram í greininni hvort verðmatið fór fram áður eða eftir að nokkur þúsund tré voru felld í Öskuhlíðinni fyrir nokkru. Ljóst má vera að sú niðurfelling hefur kostað borgarbúa marga milljarða samkvæmt þessu.
Þessi mikla uppgötvun hlýtur að verða til þess að Skógrækt ríkisins beiti CAVAT-aðferðafræðinni til að komast að því á hversu miklum verðmætum ríkið situr á í Hallormsstaðarskógi. Að ekki sé minnst á Vaglaskóg og Bæjarstaðarskóg. Það er aðeins tímaspursmál hvenær litið verður á Egilsstaði sem Dúbaí norðursins og að þar verði ekki þverfótað fyrir stjarnfræðilega ríkum skógræktarfurstum sem ferðast um á Ferrari og Lamborghini.
Ljóst er að ríkið situr þarna á þúsundum milljarða að ekki sé minnst á þau verðmæti sem einkaframtakið hefur skapað með skógrækt gegnum tíðina. Verðmætin eru slík að þau gætu jafnvel dugað til að hrinda villtustu kosningaloforðum Ingu Sælands og Flokks fólksins í framkvæmd.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 23. apríl 2025.