Óðinn fjallaði í síðustu viku um nýafstaðnar alþingiskosningar. Frá því þau orð voru skrifuð hefur svo sem fátt gerst í stjórnarmyndun nema vinstri flokkarnir þrír, Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins færast nær kjötkötlunum.
Óðinn er enn viss um að stjórnarmyndunin takist. Þá helst vegna þess að valkyrjurnar þrjár, eins og þær kjósa að kalla sig, hafa ekkert annað val um ríkisstjórn - nema gefa allt eftir.
Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur munu ekki fara í samstarf á grundvelli skattahækkanna Samfylkingar, Evrópusambandsraunargöngu Viðreisnar, ríkisgjaldþrotaleiðar Flokks fólksins.
Hér á eftir er pistill Óðins í fullri lengd.
Ný ríkisstjórn Samfylkingar og stærsti ósigur kosninganna
Kosningarnar á laugardag voru um margt góðar og um sumt vondar. Það voru gleðitíðindi á sunnudagsmorgni að sjá Vinstri græna falla af þingi. Þeir áttu það skilið eftir að hafa barist hatrammlega gegn framförum á Íslandi. Barist gegn nýtingu á endurnýjanlegri orku, barist fyrir stórauknum ríkisafskiptum, ríkisútgjöldum og hærri sköttum.
Það er lítil eftirsjá að Pírötum og Óðinn skildi aldrei erindi þeirra í íslenskum stjórnmálum. Sósíalistaflokkurinn er áfram utan alþingis en mun áfram þiggja styrki úr ríkissjóði til að halda úti Gunnari Smára og vinum hans á öldum ljósvakans. Það kæmi Óðni á óvart að ný ríkisstjórn breyti þessari vitleysu og hvað þá að hún lækki ríkisframlög til stjórnmálaflokka.
Hver er stærsti ósigurinn?
Helgi Magnússon eigandi DV, sem í eina tíð var dagblað og hét Dagblaðið Vísir, er sá einstaki maður sem fór verst út úr kosningunum á laugardag.
Hann keypti Fréttablaðið árið 2019 með það eitt að markmiði að styðja Viðreisn og koma Íslandi inn í Evrópusambandið.
Viðreisn hefur tekið þátt í fernum kosningum. Í þeim fyrstu árið 2016 fékk flokkurinn 10,5%, í kosningunum 2017 fékk hann 6,7%. Í kosningunum árið 2021 komu 8,3% upp úr kjörkössunum.
Fréttablaðið fór á hausinn í fyrra og í kosningunum á laugardag fékk flokkurinn 15,8% atkvæða.
Þegar horft er á kaupverðið og aukningu hlutafjár tapaði Helgi um 2,5 milljörðum króna á því ævintýri. Fylgisaukningin frá kaupum Helga og að næstu kosningum nam 1,6%. Þá verður að hafa í huga að Viðreisn klúðraði ríkisstjórninni 2017 ásamt Bjartri framtíð. Því væri aðeins hægt að eigna Fréttablaðinu hluta þessara 1,6%. En Óðinn er í góðu skapi í dag og eignar Helga það allt.
Þá kostaði eitt prósentustig Helga ekki nema 1,6 milljarð króna eða um 10 milljónir evra. Þetta er einhver mesta sönnun þess að það er alls óvíst að peningamenn geti keypt kosningaúrslit.
Ný ríkisstjórn fæðist
Í hádeginu á mánudag upplýsti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir stuðning sinn við að Samfylkingin fengi stjórnarmyndunarumboðið og sagði einnig að þingflokkur Viðreisnar styddi það. Það ætti því ekki að koma neinum sérstaklega á óvart að Þorgerði sé hlýtt til Samfylkingarinnar.
Í aðdraganda alþingiskosninganna 2007 og eftir að úrslit þeirra voru ljós talaði Þorgerður Katrín mjög fyrir ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.
Þorgerður Katrín hefur síðustu daga, eftir að niðurstöður kosninganna urðu ljósar, útilokað nær öll stefnumál Samfylkingarinnar og Flokks fólksins. Hún segist ekki ætla að hækka skatta, ekki að taka 90 milljarða út úr lífeyrissjóðunum og ekki að tryggja 450 þúsund króna greiðslur til bótaþega án skerðinga og skatta.
Gæti orðið fróðleg ár
Þessi ríkisstjórn, sem Óðinn efast ekki um að verði að veruleika, eru auðvitað vondu tíðindi þessara kosninga fyrir almenning í landinu.
Kristrún Frostadóttir, eins frambærileg og ágæt eins og hún er, er einhver helsti og mesti besserwisser í íslenskra stjórnmála. Hún veitir engan afslátt af sínum sjónarmiðum.
Þær Þorgerður Katrín og Inga Sæland eru hins vegar popúlistar af bestu gerð og því verður fróðlegt að fylgjast með samstarfinu.
Það má hins vegar ekki vanmeta áhrif þess hversu mikill spenningur þeirra tveggja síðarnefndu er fyrir því að setjast í stólana og sætin - ráðherrastólinn, ráðherrabílstólinn og Saga Class sætið. Ávallt með franskt kampavín af dýrustu gerð í kallfæri.
Þetta verður auðvitað hrein vinstri stjórn og Þorgerður Katrín mun að sjálfsögðu þurfa að éta stóran hluta þess sem hún hefur sagt undanfarið ofan í sig. Enda var það nú allt saman bara sagt til að sækja atkvæði.
Óðinn er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins.