Nýlenska ríkisstjórnarinnar ríður ekki við einteyming. Hún hefur boðað afnám samsköttunar hjóna og sambýlisfólks. Þetta leiðir ekki til að skattar á fólk lækki eða standi í stað – það leiðir til þess að skattar hækki. Þar af leiðandi er um skattahækkun að ræða.

En samkvæmt stjórnvöldum er ekki um skattahækkun að ræða heldur er verið að „fella niður eftirgjöf ríkissjóðs.“ Minnir þetta um margt á að í meðförum ríkisstjórnarinnar er ekki verið tvöfalda veiðigjaldið. Það er veriðað „leiðrétta veiðigjaldið“. Þau boða ekki skattahækkanir heldur „aðhald á tekjuhlið ríkisfjármála“.

***

Annars þykir Tý þetta orðalag – að fella niður eftirgjöf ríkissjóðs – afhjúpa fremur ógeðfellda hugsun. Hún felur það í sér að ríkið í raun og veru eigi allt það sem launamaðurinn aflar og það sé undir undursamlegri náð ríkisstjórnarinnar hversu miklu hann fær að halda til þess að framfleyta sér og sínum. Þegnarnir eru til fyrir ríkið en ekki öfugt.

Þess vegna virðist eina erindi ríkisstjórnarinnar vera að hækka í skatta þrátt fyrir fögur fyrirheit um eitthvað allt annað. Það er eins og ráðherrum ríkisstjórnarinnar sé ekki sjálfrátt í þessum efnum.

***

Í þeim efnum er engin verr haldin en Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra. Hún ætlar að hækka skatta á sjávarútveginn með þeim hætti að það mun draga úr verðmætasköpun og skila á endanum lægri skatttekjum þegar allt er tekið til. Nú ætlar hún að skattleggja ferðaþjónustuna.

Í undarlegu viðtali við Morgunblaðið í síðustu segir hún skattahækkun ferðaþjónustunnar nauðsynlega til að ná niður vöxtum og verðbólgu. Skattar skila engu í þeim efnum. Ríkið eyðir þeim skatttekjum sem það tekur til sín og skattar eru því í raun þensluhvetjandi. Þá réttlætti hún skattinn í viðtalinu með því að segja að skattfénu yrði varið í markaðsmál fyrir ferðaþjónustuna. Það gerir hún þrátt fyrir að í lögum um opinber fjármál er ekki heimilt eyrnamerkja fjármuni og ejkki er heimilt að vera með markaða tekjustofan.

En það breytir auðvitað engu þegar markmiðið er að hækka skatta – eingöngu til að hækka skatta.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 16. apríl 2025.