Í síðustu viku fjallaði Óðinn um kjör formanns Sjálfstæðisflokksins og óskiljanlegar ákvarðanir Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Óðinn minnir í leiðinni á áhugaverða úttekt á viðskiptasögu Donald Trump sem birtist í Frjálsri verslun fyrir ekki svo löngu.

Hér á eftir fer byrjunin á pistli Óðins frá úr Viðskiptablaðinu í síðustu viku.

Nýr for­maður Sjálf­stæðis­flokksins og Donald Trump

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fór fram um helgina. Guðrún Hafsteinsdóttir úr Hveragerði var kosinn formaður flokksins og fékk hún 19 atkvæðum meira en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Guðrún Hafsteinsdóttir tók fyrst sæti á þingi fyrir fjórum árum og lítið bar á henni þar til hún var skipuð dómsmálaráðherra um mitt ár 2023. Hún sat í því embætti í tæpt eitt og hálft ár.

Almenn ánægja var með störf hennar í ráðuneytinu meðal sjálfstæðismanna. Mörgum þótti hún, og þykir, nokkuð stirð í fasi og skorta þá pólitísku fimi sem formaður Sjálfstæðisflokksins þarf að búa yfir.

***

Kópavogsfundurinn hinn síðari

Til marks um þetta þá kom Guðrún sjálfri í sér og flokknum í nokkurn vanda þegar hún fullyrti á fundi í Kópavogi stuttu fyrir landsfund að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að endurgreiða 207 milljón króna ríkisstyrk, núvirt en ekki vaxtareiknað, frá árinu 2022 þegar skráningu flokksins var að sögn ábótavant. Hún endurtók þetta í Spursmálum á mbl.is.

Þessu hélt hún fram þrátt fyrir að hafa setið þingflokksfund þar sem Þórður Þórarinsson framkvæmdastjóri flokksins fór í smáatriðum yfir málið.

Á mánudag dró svo Guðrún í land í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins og sagði: „Mín skoðun er einfaldlega þessi: Ef að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið einhverja fjármuni frá ríkinu sem hann átti ekki rétt á þá finnst mér að okkur beri að skila þeim.“

Óðinn hefur engin ráð til Guðrúnar um hvernig hún eigi að snúa sér út úr þessari stöðu.

***

Er Donald Trump genginn af göflunum?

Óðinn hafði ekki sérstakar áhyggjur af kjöri Donalds Trump í nóvember og taldi að staða Bandaríkjanna myndi batna eftir óskaplega dapra forsetatíð Joe Biden. Reynslan frá fyrri forsetatíð Trump var nefnilega sú að þá var mikið talað en minna framkvæmt.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn 5. mars. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.