Óðinn fjallaði um Viðskiptablaðinu í þann 26. júní um að ferðamönnum á Íslandi gæti fækkað meira á milli ára en uppfærð spá Ferðamálastofu gerir ráð fyrir.

Í morgun birti Hagstofan tölur um að gistinóttum erlendra ferðamanna hafi fækkað um 18% í maí.

Í gær birti Icelandair flutningstölur sínar fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Samkvæmt þeim fækkaði þeim sem ferðuðust til Íslands um 10% á fyrri helmingi ársins. Það eru því blikur á lofti í ferðaþjónustu.

Óðinn fjallar meðal annars um hugmyndir stjórnvalda að hækka skatta á atvinnugreinina sem varla hefur náð sér eftir Covid-19 lokanir stjórnvalda.

Ferðaþjónusta á krossgötum

Íslensk ferðaþjónusta hefur vaxið nær viðstöðulaust frá árinu 1949, en eldri tölur um komu ferðamanna höfum við ekki.

Undantekningarnar eru kreppur, annað hvort hér á landi eða á erlendri grundu, og eins setti Covid-19 rautt strik í reikninginn árin 2020 og 2021. Árið 2019 var svo samdráttur vegna gjaldþrots flugfélagsins Wow air.

***

Spá samdrætti

Ferðamálastofa breytti spá sinni í byrjun mánaðarins og spáir fækkun ferðamanna á þessu ári, samanborið við árið í fyrra. Spáin gerir ráð fyrir 2,8% fækkun.

Óðinn óttast að þetta sé mikið vanmat hjá ríkisstofnuninni og fækkunin geti orðið mun meiri. Jafnvel 10% en vonum það besta.

Óðinn byggir þetta á óformlegum upplýsingum frá ferðaþjónustuaðilum. Fjárfestar virðast meta stöðuna eins því flugfélögin hafa lækkað mikið í verði undanfarin misseri. Frá áramótum hefur Icelandair lækkað um 27,34% og Play um 64,36%. Eins mistókst að setja Íslandshótel á markað.

Það verður þó að hafa í huga þegar gengi félaganna er skoðað að hlutabréfamarkaðurinn íslenski hefur verið rjúkandi rúst, svo töluð sé íslenska. Það jákvæða við þá sorgarsögu er að það kemur sá dagur að hann fer upp, en ekki áfram niður. Það er þó ólíklegt fyrr en í haust, þegar hyllir undir stýrivaxtalækkanir.

***

Gistináttaskattur hjálpaði ekki

Eldgos hafa verið regluleg á Reykjanesskaganum frá 2021. Þegar kom örlítið hlé á gosóróanum mættu ráðherrar og alþingismenn upp í pontu á Alþingi og mæltu fyrir auknum álögum á ferðaþjónustuna með því að endurvekja gistináttaskatt og hann útvíkkaður. Það varð raunin.

Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýndu þetta mjög og bentu á að fyrirvarinn væri allt of skammur, aðeins nokkrir mánuðir, og því myndu ferðamenn ekki greiða skattinn heldur ferðaþjónustufyrirtækin.

Þegar Alþingi samþykkti þessa breytingu kom þungt högg á ferðaþjónustuna með enn einu eldgosinu sem í þetta sinn setti rekstur Blá Lónsins í uppnám. Þá sáu menn fyrst með eigin augum hversu mikilvægt lónið er fyrir ferðaþjónustuna.

***

Hækkun virðisaukaskatts

Ferðaþjónustan varð illa fyrir barðinu á ofsafengnum viðbrögðum íslensku ríkisstjórnarinnar í Covid. Hún var rétt farin að rétta úr sér þegar gosið kom síðasta vetur sem minnkaði eftirspurnina mjög.

Undanfarið hafa heyrst raddir í stjórnkerfinu á ný um þá gömlu og vondu hugmynd að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu í 24%. Þetta væri óskaplega þægileg leið fyrir vinstri ríkisstjórnina sem eyðir eins og enginn sé morgundagurinn. Að því er virðist takmarkalaust.

Samtök ferðaþjónustunnar létu gera skýrslu um áhrif hækkunar virðisaukaskatts í apríl. Síðan þá hefur ríkisstjórnin hækkað listamannalaun, hækkaði hámark fæðingarorlofsgreiðslna svo einhver útgjöld séu nefnd af handahófi. Ríkissjóður er rekinn með verulegum halla og því er enn þrýstingur á gjaldahækkanir eins og á ferðaþjónustuna. Engu skiptir að greinin er í töluverðri, jafnvel mikilli, vörn þessi dægrin.

***

Niðurstaðan

Helsta niðurstaða samtakanna var þessi:

>Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði bendir til þess að svona hækkun [úr 11% í 24%] muni:

  • Minnka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnisstöðu greinarinnar og draga úr vexti hennar á komandi árum.
  • Draga úr vergri landsframleiðslu og vexti hennar.
  • Auka opinberar skatttekjur mun minna en nemur hækkun virðisaukaskattshlutfallsins og ef til vill lækka þær í framtíðinni miðað við það sem að öðrum kosti hefði orðið.
  • Lækka gengi og hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári. Til lengri tíma eru verðbólguáhrifin hins vegar óviss og gætu orðið neikvæð.

>Athugun á reynslu annara þjóða af hliðstæðum skattahækkunum (-lækkunum) staðfesta ofangreindar niðurstöður í öllum aðalatriðum. Hærra hlutfall virðisaukaskatts á greinar ferðaþjónustu dregur úr umsvifum í ferðaþjónustu, lækkar verga landsframleiðslu og í framhaldinu opinberar skatttekjur, en lækkun virðisaukaskattshlutfalls hefur gagnstæð áhrif.

***

Óðinn hefur ekki séð nokkurn ráðherra taka sér örstutta hvíld frá ferðalögunum og útgjaldafylleríinu til þess að svara þessum niðurstöðum Samtaka ferðaþjónustunnar.

Staðreyndin er að Ísland er of dýrt fyrir ferðamenn. Hér er verðlag himinhátt og sérstaklega vegna mikilla álagna ríkisvaldsins. Ísland á ekki að vera ódýrt en það er auðvitað rannsóknarefni hvernig ferðamaður kemst til Íslands á 10 þúsund króna flugmiða en til Reykjavíkur á 20 þúsund króna leigubíl. Flugvélin er 15 milljarða fjárfesting en leigubílarnir eru stundum þannig að eina sem eitthvert virði er það sem er á tanknum þá stundina.

Vissulega hafa lukkuriddarar einnig verið á ferð og hljóta samtök ferðaþjónustunnar einn daginn að taka á því. Þeir riddarar eyðileggja fyrir heildinni.

Óðinn vonar að ríkisstjórnin valdi ekki frekari skaða í ferðaþjónustunni með hækkun virðisaukaskatts.