Í síðustu viku fjallaði Óðinn um innflytjendur, þriðju vikuna í röð. Í fyrstu tveimur umfjöllununum sagði Óðinn ekki sína skoðun á gögnunum heldur miðlaði þeim.

Í þriðju umfjölluninni lagði Óðinn mat á gögnin. Hann svaraði að auki athugasemdum frá tveimur Samfylkiningarmönnum, þeim Merði Árnasyni og Vilhjálmi Þorsteinssyni, sem varla munu styðja Kristrúnu Frostadóttur í næstu kosningum.

Og þó. Mörður er vinur Össurar sem er helsti stuðningsmaður Kristrúnar, ásamt Ólafi Ragnari og ótrúlegt en satt þá er Ingibjörg Sólrún einnig með þeim í liði. Er það í fyrsta sinn í um tvo áratugi. En, Óðinn leyfir sér að veðja á Mörður láti sinn gamla ritstjóra á Þjóðviljanum sannfæra sig.

Vilhjálmur mun líklega einnig gefa sig. Hann er einhver sérstakasta blanda af kapítalista og kommúnista sem Óðinn þekkir. En það lífgar upp á lífið, þjóðlífið.

Hér á eftir er stutt brot úr þriðja pistilinum, svör Óðins við athugsemdum þeirra Samfylkingarbræðra. Pistilinn má lesa í heild hér.

Mörður Árnason og Vilhjálmur Þorsteinsson

Mörður Árnason, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar og blaðamaður á Þjóðviljanum heitnum, er einn þeirra sem geri athugasemd við skrif Óðins. Hann segir í athugasemdum á Facebook:

Undarleg iðja á Viðskiptablaðinu. Pólverjar koma hingað til vinnu í fullum EES-rétti. Palestínumenn allajafna á flótta. Aldrei rætt um máð í greininni.

Þessi athugasemd Marðar er þó alveg hreint ágæt. Umfjöllunin byggir á dönskum tölum og það segir í skýrslum dönsku hagstofunnar, eins og Mörður hefði getað lesið um í Viðskiptablaðinu væri hann áskrifandi, að flestir Palestínumenn hafi komið til Danmerkur í kringum 1985.

Þeir hafa því haft næstum þrjá áratugi til að aðlagast dönsku þjóðlífi. En það hefur ekki tekist. Þvert á móti þá er önnur kynslóð innflytjenda í verri stöðu en forfeðurnir. Þeir brjóta mun meira af sér en enginn hópur innflytjenda brýtur meira af sér en afkomendur Palestínumanna.

Óðinn spyr Mörð á móti. Hvernig getum við komið í veg fyrir að sama gerist á Íslandi?

***

Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir, fyrrum gjaldkeri Samfylkingarinnar og fyrrum stjórnarmaður í Kjarnanum, setti einnig fram athugasemd á Facebook.

Merkilegt þegar Viðskiptablaðið, boðberi einkaframtaks og atvinnulífs, kýs að nota afkomu ríkissjóðs af fólki sem mælikvarða á framlag þess til hagkerfisins og samfélagsins. Ég hefði haldið að sjálf störf fólks, úti á mörkinni og í atvinnulífinu, væru meginframlagið og verðgildi gagnvart hagkerfinu. En þar fyrir utan er lifað mannslíf ætíð mikils virði sem slíkt og í sjálfu sér; nokkuð sem maður hefði líka haldið að einstaklingshyggjufólk tæki undir.

Þetta er alrangt. Óðinn var aðeins að greina frá því hvað kemur fram í dönskum skýrslum þar sem fram kemur að einstakir hópar innflytjenda lifa á kerfinu alla ævi. Annað var það nú ekki.

Það er hins vegar svo að ef hér á að vera velferðarkerfi, kostað af skattgreiðendum, þá eiga allir þeir sem njóta þess að taka þátt í að greiða fyrir það.

Ella hrynur það til grunna. Ef fötlun, sjúkleiki eða annað kemur í veg fyrir þátttökuna þá er það auðvitað allt annað mál.

Annars er það óhjákvæmilegur fylgifiskur þess, eins og Vilhjálmur þekkir enda líklega ríkasti vinstrimaður landsins á eftir Kára Stefánssyni, að ef vel gengur þá greiðir maður háa skatta.

Þeir einir eru undantekning sem ákveða að greiða skatta í þeim löndum þar sem þeir eru lægri. Til dæmis Lúxemborg og Tortóla. Fæstir þeirra fara þó niður á Austurvöll og mótmæla félögum í skattaparadísum, eigi þeir sjálfir slík kompaní.

Enn færri skammast sín svo fyrir auðævin að þeir aka sérstaklega heim til sín á blæjuútgáfunni af dýrasta sportbíl þýska bílaframleiðandans BMW, sækja hjólið og fara á fund hjá vinstriflokknum sínum.

En Óðinn hefur þó ekkert við það að athuga. Hann styður fjölbreytileikann.

Óðinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn í síðustu viku. Áskrifendur geta lestið umfjöllunina í heild hér.