Í sjálfu sér hafa fyrirtæki þann eina tilgang að mæta eftirspurn með skilvirkum hætti og skapa verðmæti fyrir hluthafa þegar búið er að taka tillit til alls kostnaðar sem hlýst af vegna úthrifa eða ytri áhrifa (e. externalities). Ef fyrirtæki nær þessu markmiði þá hlýtur það að teljast vera sjálfbært í víðasta skilningi þess hugtaks..

Í sjálfu sér hafa fyrirtæki þann eina tilgang að mæta eftirspurn með skilvirkum hætti og skapa verðmæti fyrir hluthafa þegar búið er að taka tillit til alls kostnaðar sem hlýst af vegna úthrifa eða ytri áhrifa (e. externalities). Ef fyrirtæki nær þessu markmiði þá hlýtur það að teljast vera sjálfbært í víðasta skilningi þess hugtaks..

Hvað raunverulega felst í sjálfbærni fyrirtækja vefst fyrir ansi mörgum þessa dagana. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Birtu, skrifaði fyrir nokkru eftirtektarverða grein í fréttabréf Festu – miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð. Ólafur bendir á eftirfarandi:

„Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þegar ávinningur verður af samþættingunni verður hann ekki bara félagslegur eða umhverfislegur heldur líka efnahagslegur. Það er því mikilvægt að þær UFS upplýsingar sem birtar eru nýtist við mat á sjálfbærri þróun. Að þegar fyrirtæki ná tökum á umhverfismálum verði það líka sett í samhengi við lækkun á kostnaði sem mun þá leiða til virðisauka. Áherslan á að vera á samþættingu en ekki stakstæðar og samhengislitlar upplýsingar. Annars kunna þær að missa marks, – upplýsingarnar eru ekki ætlaðar til friðþægingar heldur
virðissköpunar.“

Full ástæða er til að halda þessum skrifum Ólafs til haga, ekki síst vegna þess að fjölmargir aðilar sjá sér hag í því að afskræma hugtakið meðan aðrir virðast hafa misst sjónar á því hvað fyrirtækjarekstur gengur út á. Sjálfbærniskýrslur sumra fyrirtækja eru þannig úr garði gerðar að fjárhagsleg markmið rekstrarins virðast vera í algjöru aukahlutverki meðan allt snýst um minnkun losunar á gróðurhúsalofttegundum.

Ágætt dæmi um þetta er Sjálfbærniásinn sem kynntur var til sögunnar í síðustu viku. Það eru ráðgjafarfyrirtækið Langbrók, Stjórnvísi og Prósent sem standa að verkefninu. Sjálfbærniás Langbrókar og Stjórnvísi sýnir að útgerðarfélögin Brim og Samherji eru skussar þegar kemur að sjálfbærnimálum en Íslensk erfðagreining, dótturfélag bandaríska lyfjarisans Amgen, er hins vegar afbragð annarra fyrirtækja þegar kemur að sjálfbærni.

En Sjálfbærniásinn mælir ekkert sem tengist sjálfbærni. Hann er niðurstaða spurningakönnunar sem könnunarhópur Prósents tók og segir ekkert um hversu sjálfbær þau fyrirtæki sem spurt var um eru í raun og veru. Það þarf ekki að efast um að verslunarkeðjur austanhafs og vestan gera ríkar kröfur um sjálfbærni til birgja sinna og þar með talið til íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á borð við Brim og Samherja. Sjávarútvegur er einmitt gott dæmi um nauðsyn þess að samþætta stoðir sjálfbærrar þróunar, hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu, eins og Ólafur lýsir í tilvitnuninni hér fyrir ofan. Sjálfbærniásinn í þeirri mynd sem hann var kynntur er því með öllu gagnslaust innlegg í umræðuna um sjálfbærnimál.

Annað sambærilegt dæmi er sjálfbærnivísir ráðgjafafyrirtækisins PCW. Sjálfbærnivísir PwC er árlegt yfirlit um hvernig sjálfbærnistarfi 50 stærstu fyrirtækja Íslands vindur fram. Niðurstaðan í ár er að aðeins eitt af fimmtíu stærstu fyrirtækjum landsins getur sýnt fram á losunarsamdrátt síðustu þrjú ár í samræmi við Parísarsamkomulagið. Þetta virðist í fyrstu vera býsna skuggaleg niðurstaða. En málið horfir öðruvísi við þegar haft er í huga að íslensk fyrirtæki nýta endurnýjanlega orku að langstærstum hluta í starfsemi sinni og hljóta að teljast býsna umhverfisvæn í öllum erlendum samanburði. Það segir líka meira en mörg orð um hvaða villigötur menn feta í sjálfbærnivegferðinni að ekkert er horft til rekstrar í mælingum PWC.

Að einhverju leyti hefur umræðan um sjálfbærni ratað út í skurð á liðnum árum. Það endurspeglast meðal annars í orðum sjálfbærnistjóra Landsbankans í sjálfbærniskýrslu ársins 2022: „Fyrir okkur stendur valið á milli þess að vera tilbúin til að taka þátt í breytingum og þannig styðja við rekstrarhæfi bankans í breyttum heimi eða það verði hreinlega enginn heimur til að stunda viðskipti í.“ Sjálfbærni í fyrirtækjarekstri er nauðsynleg og full þörf er að halda áfram samtali hvernig líklegast er að ná því markmiði. Það verður einungis gert með vitrænni nálgun á úrlausnarefnið.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 11. september 2024.