Óðinn fjallaði í Viðskiptablaðinu, sem kom út í gær, um ótrúlega velgengni Samfylkingarinnar frá því Kristrún Frostadóttir tók við sem formaður.

Hins vegar hefur hún gert ein stór mistök á þessum tíma og teknar hafa verið óskiljanlegar ákvarðanir eftir að boðað var til kosninga. Stóru mistökin eru að lofa 70 milljarða skattahækkunum.

Í gær kom einn helsti jólasveinn íslenskra stjórnmála, Guðmundur Ari Sigurjónsson, sem er af einhverjum óútskýrðum ástæðum formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, og sagði Samfylkingin ætla að hækka tekjuskatt.

Og staðfesti þar með það sem Óðinn skrifaði á þriðjudag, og birtist í gær, að skattahækkanir Samfylkingarinna muni leggjast á venjulegt fólk.

Hér á eftir er pistill Óðins í fullri lengd.

Óskiljanlegur afleikur Samfylkingarinnar

Óðinn hefur sagt áður, og segir enn á ný, að Kristrún Frostadóttir hefur allt frá því að hún tók við sem formaður Samfylkingarinnar fyrir næstum því nákvæmlega tveimur árum, haft ótrúlega stjórn á flokki sínum og aðeins gert ein mistök. Þar til nú.

Óðinn telur að Kristrún hafi gert ein grundvallarmistök. Að lofa skattahækkunum. Það loforð hefur til þessa skipt litlu en málið horfir öðruvísi við nú þegar kosningabaráttan er hafin.

Það skiptir nefnilega engu hvernig skattahækkanir verða útfærðar, þær lenda á endanum alltaf á hinum venjulega skattborgara.

Þess utan eru ekki nokkur rök fyrir að hækka skatta á Íslandi. Þeir eru með þeim hæstu í OECD löndunum, en við erum í 2. til 3. sæti eftir því hvernig það er reiknað.

Það væri miklu nær að Kristrún lofi því að fara betur með skattpeninginn en meira segja blindir menn sjá alla sóunina í ríkiskerfinu.

***

Að lifa af aðgengi fólks

Menn eru alltaf að ræða um það að stjórnmálin séu allt önnur í dag en fyrir 10, 20,30,40 eða 50 árum. Það er í grundvallaratriðum vitleysa. Þau eru í meginatriðum eins.

Það sem skilur helst á milli nútímans og fortíðarinnar er aðgengið að stjórnarmálamönnunum í gegnum fjölmiðla og á síðari árum í gegnum samfélagsmiðla.

Stjórnmálamaður sem á að lifa af slíkt offramboð af sjálfum sér þarf stöðugt að vekja upp á áhuga kjósenda og í raun að vera einstaklega skemmtilegur og uppátækjasamur svo það takist. Það eru þeir langfæstir.

***

Þríeykið

Þrír einstaklingar voru áberandi í næstum tvö ár vegna kvefpestar nokkurrar – sem virtist í fyrstu vera mjög alvarleg. Þríeykið svokallaða, Alma Möller, Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason.

Það var heilmikið offramboð af þessu ágæta fólki allan Covid-tímann. Sem flestum fannst heil eilífð, svo ömurlega leiðinlegt var lífið á Íslandi stóran hluta þess tíma.

Þríeykið er táknmynd Covid-tímans. Það sem verra er, að allri þjóðinni fannst aðgerðir embættismanna fráleiddar þegar leið á og kvefpestin reyndist lang flestum meinlaus.

Sumar aðgerðirnar voru hlægilegar þá og nú.

Að aðeins þrír mættu vera í 4 stóla skíðalyftu, að bera þyrfti grímu í röðinni í lyftuna og ekki mætti spila golf.

Af einhverri óútskýranlegri ástæðu ákveður Kristrún Frostadóttir að minna okkur á þennan leiðinlega tíma með því að bjóða fram tvo af þremur í þríeykinu í næstu kosningum.

Meira að segja Oddný Harðardóttir er skemmtilegri.

***

Kemur Dagur?

Það ætti ekki að vefjast ekki fyrir nokkrum manni að Dagur B. Eggertsson vill komast á framboðslistann fyrir kosningarnar.

Óðinn veit ekki hvort það væri gott eða slæmt fyrir Samfylkinguna. Dagur nýtur ákveðins stuðnings innan flokksins en margir flokksmanna telja hann þó hafa of mikinn farangur úr fortíðinni.

Hún var því áhugaverð fréttin á mbl.is á laugardag þar sem fram kom að í gangi væri könnun þar sem styrkur Dags er kannaður. Nokkrar kenningar eru uppi um hver er að kosta könnunina. Ein er að Dagur kosti hana sjálfur. Önnur er að andstæðingar úr öðrum flokkum, eða jafnvel innan flokksins, kosti hana. Þriðja er sú að könnunarfyrirtækið Prósent hafi tekið þetta upp hjá sjálfu sér. Sem væri auðvitað snjallt til að vekja athygli á kompaníinu. Fjórða kenningin er sú að einhver fjölmiðill sé að kanna stöðu Dags.

***

Vinstri áherslur á lokasprettinum

Það kom einnig verulega á óvart þegar tilkynnt var að Þórður Snær Júlíusson væri farinn að vinna einhverja málefnavinnu hjá Samfylkingunni og orðrómur um að hann myndi hugsanlega taka sæti á framboðslista.

Óðinn hefur áður viðrað þá skoðun sína að Þórður Snær sé bitrasti blaðamaður þjóðarinnar og er samkeppnin þó hörð.

Það gladdi Óðinn því að sjá að hann ætlaði að hætta í blaðamennsku og snúa sér að öðru. Því ef til vill myndi Þórður Snær þá verða glaðari maður og mögulega öðlast innri ró. Jafnvel einnig með því að fara í jóga og stunda núvitund.

En Óðni er mikið til efs að stjórnmálaþátttaka myndi gera Þórði Snæ gott. Það sem mikilvægara væri fyrir Samfylkinguna er að Óðinn telur fullvíst að sú ró sem var yfir flokknum, og sú stjórn sem Kristrún hafði á honum, fari út í veður og vind fái Þórður Snær sæti á lista.