Óðinn fjallaði um mánaðarmótin síðustu um taprekstur hjá Sýn, tap í fjárfestingarfélagsins Gavia og vinstrivillu á fréttastofum Sýnar.
Reynir Grétarsson stærsti eigandi Sýnar sendi ritstjóra Viðskiptablaðið bréf sem birt var í blaðinu í síðustu viku. Þar segir Reynir meðal annars.
„Hvað varðar hina meintu vinstri slagsíðu á miðlum Sýnar er það að segja að eigendum Sýnar hf. er óheimilt að hafa afskipti af ritstjórn. Þeir sem koma að fréttaflutningi á vegum Sýnar hf. starfa undir ritstjórnarstefnu, ábyrgð stjórnenda og eigin fagmennsku – eins og tíðkast hjá alvöru fjölmiðlum.“
Óðinn telur rétt að leiðrétta þann misskilning sem fram kemur í orðum Reynis. Það er alrangt að eigendur fjölmiðlafyrirtækja megi ekki hafa afskipti af ritstjórn. Þau afskipti mega hins vegar ekki vera hvernig sem er.
Fulltrúar eigendanna, stjórn félagsins, tekur ákvörðun um ritstjórnarstefnu fjölmiðla í sinni eigu. Þeir mega, og sumir myndu segja eiga, að framfylgja ritstjórnarstefnunni. Hins vegar verður fjölmiðilinn verður að setja sér reglur um það hvernig stjórnendurnir gera það, sbr. 24. gr. fjölmiðlalaganna.
Tveir af starfsmönnum fjárfestingarfélags Reynis sitja í stjórn Sýnar. Er Reynir þá að segja að þeir hafi ekkert um ritstjórnir miðla Sýnar að segja? Eru þessir menn bara upp á punt?
Ef Reynir er að reyna að segja, að eigandi megi ekki hafa áhrif á fréttaflutning af einstaka málum sér eða öðrum til hagsbóta þá er það hárrétt. En hann þarf þá að segja það.
Ljóst er að Reynir hefur ekki fylgst ekki með störfum fyrrum framkvæmdastjóra Alþýðubandalagsins og fyrrum frambjóðandi til varaformanns Samfylkingarinnar á fréttastofu Stöðvar 2. Ekki síst nú fyrir þessar kosningar þar sem um tíma leit út fyrir að flokkur Heimis Más myndi vinna stórsigur.
Í 26.gr. segir að fjölmiðill skuli gæta „hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni.“ Óðinn fullyrðir að Heimir Már Pétursson gerir það ekki í stjórnmálaumfjöllun sinni.
Hér á eftir fer pistill Óðins um Sýn.
Tvöfaldur skaði Reynis og Hilmars af rekstri Sýnar hf. ?
Viðskiptablaðið sagði frá því um miðjan mánuðinn að fjárfestingafélag Gavia, sem er að langmestu leyti í eigu Reynis Grétarssonar, stofnanda Creditinfo, hafi tapað um milljarði króna á fjárfestingu sinni í Sýn, sem rekur meðal annars Stöð 2 og Vísi.
Í tilefni af kaupunum á sínum tíma sagði Reynir þetta:
Það er svo mikið af flottum eignum og rosalegur mannauður í þessu fyrirtæki. Vodafone er flaggskipið en það eru miðlar þarna eins og Vísir og Bylgjan til dæmis sem eru yfirburðar miðlar á sínu sviði.
Þegar Óðinn las þetta, fyrir um tveimur árum, þá velti hann því fyrir því hvaða svið þetta væru.
Mbl.is er stærsti fréttavefur landsins svo ekki átti það við Vísi. Og Ríkisútvarpið ber auðvitað höfuð og herðar yfir Stöð 2 og Bylgjuna með 6,125 milljarða ríkismeðgjöf auk að því er virðist takmarkalausrar heimildar til tapreksturs.
Í aðdraganda alþingiskosninganna hefur Óðinn komist nokkru nær niðurstöðu. Reynir hefur að því er virðist talið miðlanna tvo, Vísi og Bylgjuna, hafa einhverja yfirburði í að breiða út sósíalisma á Íslandi.
Óðinn er þó ekki viss um að svo sé, Ríkisútvarpið er líklega fetinu framar en það er vart sjónarmunur.
***
Hvert var markmiðið með kaupunum?
Það er er auðvitað ekki svo að Reynir Grétarsson hafi keypt hlut Heiðars Guðjónssonar bara til gleðja hinn síðarnefnda. Hann taldi greinilega einhver tækifæri felast í rekstri Sýnar. Þau virðast þó liggja eitthvað dýpra en Reynir taldi.
Háir stýrivextir hafa vitanlega ekki haft góð áhrif á hlutabréfaverð en rekstur Sýnar er hins vegar vondur. Tap fyrstu sex mánuðina nam 349 milljónum króna. Ítrekað hefur verið skipt um æðstu stjórnendur félagsins í tíð Reynis sem aðaleiganda.
Óðinn getur alveg sýnt því skilning þegar kapítalistar fara út í rekstur sem er hugsanlega andstæður lífsskoðunum þeirra ef þeir hagnast á honum.
Fara út í einhver loftslagsverkefni sem eru tóm vitleysa og meðgjöf sótt í vasa skattgreiðenda. Fara í laxeldi þó þeir trúi á stangveiði. Gefa út Mein Kampf þó allir viti að ritið hafi verið notað sem réttlæting til mikilla grimmdarverka. Eða reki fréttastöðvar sem höfða bara til vinstri manna.
En þegar menn tapa á rekstrinum þá botnar Óðinn ekkert í slíkum mönnum.
***
Vinstri slagsíða og vankunnátta
Það sem einkennt hefur vinnbrögð fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis undanfarin misseri er oft á tíðum slök vinnubrögð, vankunnátta og vinstri slagsíða.
Nú halda einhverjir eflaust að þarna sé Óðinn tala um Jakob Bjarnar Grétarssonar vegna nýlegrar umfjöllunar hans um hlaðvarpsþátt með Bjarna Benediktssyni. Það er alls ekki svo. Óðinn tók fullt mark á útskýringum Jakobs Bjarnar.
Það hlýtur hins vegar að orka tvímælis hjá eigendum Sýnar að Heimir Már Pétursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins, frambjóðandi Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningarnar 2003 og frambjóðandi til varaformanns Samfylkingarinnar árið 2007, skuli sjá um nær alla stjórnmálaumfjöllunum og stjórnmálaþætti hjá fyrirtækinu.
***
Umhugsunarefnið
Þessi vinstri slagsíða miðla Sýnar hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir Reyni Grétarsson og Hilmar Þór Kristinsson, sem eru stærstu einkafjárfestarnir í Sýn.
***
Fyrir alþingiskosningarnar 2021 sagðist Kristrún Frostadóttir ætla að sækja 15 milljarða með því að leggja stóreignaskatt á hreina eign yfir 200 milljónir. Fjárhæðin var engin tilviljun. Rétt yfir hreinni eign hennar sjálfrar.
Kristrún hefur ekki haft tíma til að reikna út hina réttu hreinu eign samkvæmt síðasta skattframtalinu sínu því hún hefur verið upptekin að segja fólki að stroka út Dag B. Eggertsson. Eftir að hafa sett Dag á lista Samfylkingarinnar fyrir þau orð ráðgjafa sinna og aðstoðarmanna að Dagur njóti svo mikil stuðnings. Sem er rangt.
***
Tvöfaldur skaði
Það stefnir því allt í að tapið verði tvöfalt hjá Reyni Grétarssyni, Hilmari Kristinssyni og öðrum einkafjárfestum. Annars vegar tapið á hlutabréfum Sýnar og hins vegar að útbreiða sósíalismann og tryggja hér myndun vinstri stjórnar sem leggur á þá stóreignaskatt. Það stefnir nefnilega allt í vinstri stjórn Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Framsóknar.
Hvort ætli þeir flytji þá til Barcelona eins og Hallbjörn og Árni gerðu eftir hrun, eða til Sviss eins og norsku auðmennirnir.
Lokaspurningin og mikilvægasta er þó sú. Er ekki nóg að Ríkisútvarpið og Samfylkingin séu í kostuðu samstarfi – sem skattgreiðendur greiða fyrir með nauðungargjöldum? Þarf Stöð 2, Bylgjan og Vísir líka að taka þátt í því – á kostnað hluthafanna?