Landsbankinn greindi nýlega frá því að hagfræðingurinn Hildur Margrét Jóhannsdóttir, fréttamaður Ríkisútvarpsins (og systir Jóhanns Páls þingmanns Samfylkingar), hefði verið ráðin til hagfræðideildar bankans, en hún starfaði fyrst sem hagfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ).

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Henni hefur vafalaust verið tekið með kostum og kynjum í bankanum og þar hefur Una Jónsdóttir, sem í vor var ráðin forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans vafalaust verið fremst í flokki, enda hóf hún líka feril sinn sem hagfræðingur í Hagdeild Alþýðusambands Íslands. Er þá ótalinn Ari Skúlason, einnig hagfræðingur hjá Landsbankanum, sem á sínum tíma var framkvæmdastjóri ASÍ. Augljóst má heita að Landsbankinn er þess albúinn að verða samfélagsbanki hvenær sem þurfa þykir.
En síðan er auðvitað spurning – svona miðað við afkomuna — hvort Landsbankinn eigi ekki að snúa sér að einhverju öðru en hefðbundinni fésýslu og viðskiptabankastarfsemi. Við blasir að þar á bæ eru menn miklu flinkari í fasteignaþróun og fasteignabraski. Glæný skrifstofubygging hans á Austurbakka var á dögunum seld til ríkisins fyrir hæsta fermetraverð á Íslandi og er þó enginn hörgull á skrifstofuhúsnæði í borginni. Þar hlýtur allt að vera klætt með gulli og fílabeini í hólf og gólf, en aðra sögu er að segja af húsnæði bankans við Hafnarstræti, sem er svo þjakað af myglu að það er varla hægt að nota hann til annars en undir barnaskóla á vegum borgarinnar. Samt virðist Bjarni Benediktsson hafa ákveðið að kaupa hann líka, sem bendir til þess að ríkissjóður sé yfirfullur af peningum sem ekki finnist nein þarfleg not fyrir. Eða eins og þau segja hjá ASÍ: „Það er nóg til!“