Matsfyrirtæki sem sérhæfa sig í mati á umhverfis-, félags- og stjórnunarþáttum í rekstri fyrirtækja hafa haft mikil áhrif á fjárfesta og fjárfestingaákvarðanir. Alls hafa 3.000 fjárfestar sem eiga yfir 100 milljarða dala í sameinuðum sjóðum undirritað skuldbindingu um að samþætta UFS upplýsingar við fjárfestingarákvarðanir sínar skv. PRI frá 2020. Hugtakið „sjálfbærar fjárfestingar“ hefur vaxið ásmegin og mikið innstreymi hefur verið í verðbréfasjóði sem fjárfesta með hliðsjón af UFS mati. Vegna þessarar þróunar reiða sífellt fleiri fjárfestar sig á UFS-mat þriðja aðila á árangri fyrirtækja í UFS málum. Þessi þróun er undirbyggð á fræðilegum rannsóknum þess efnis að UFS-mat við greiningu á fjárfestingakostum skili virðisauka. Rökleiðslan er að UFS skili virðisauka og þar af leiðandi hefur slíkt mat í auknum mæli áhrif á ákvarðanir og getur haft víðtæk áhrif á eignaverð og stefnu fyrirtækja.
Vandinn við þessu fræði er að UFS mat þeirra sem selja slíka þjónustu stenst ekki samanburð. Í nýlegri rannsókn Robert Rigobon o.fl. frá 2022 staðfesta þeir að fylgnin á milli matsaðila er á bilinu 0,38 til 0,71 sem er mun minni fylgni er mælist í sambærilegum mati á lánshæfi. Í raun ganga höfundar svo langt að líkja þessum fræðum við upplýsingaóreiðu. Rannsóknin byggir á UFS mati frá sex alþjóðlegum matsfyrirtækjum.
Ónákvæmni og áleitnar spurningar
Að mati Rigoban og félaga eru mögulegar afleiðingar eftirfarandi. Í fyrsta lagi leiðir misræmið á mati á UFS frammistöðu fyrirtækja, sjóða og eignasafna mikillar ónákvæmni og vekur upp áleitnar spurningar um trúverðugleika rannsókna þess efnis að UFS upplýsingar teljist virðisaukandi. Í öðru lagi dregur misræmi í UFS mati úr hvata fyrirtækja til að bæta frammistöðu sína í sjálfbærnimálum. Fyrirtæki fá misvísandi skilaboð frá matsfyrirtækjum um aðgerðaröð og hvað markaðurinn telur álitlegast að gera. Þetta gæti leitt til van- og offjárfestingar í UFS umbótum og gerir hagsmunagæslu hluthafa flóknari. Í þriðja lagi eru minni líkur á að markaðir verðleggi UFS frammistöðu fyrirtækja rétt. Í fjórða lagi sýnir misræmið að erfitt er að árangurstengja laun stjórnenda við UFS árangur í starfi. Stjórnendur geta staðið sig vel í UFS málum að mati eins matfyrirtækis og bætt skorið á meðan þeir standa sig illa að mati annars matfyrirtækis og í raun misst af mikilvægum umbótum. Þetta misræmi setur í raun allar reynslurannsóknir í uppnám. Niðurstaðan getur verið ólík eftir því hvaða UFS-mat var notað í aðhvarfsgreiningum.
Að vera sjálfbær og arðbær
Að mínu mati er ekki ástæða til að leggja árar í bát og kasta hugtakinu um sjálfbærni í rekstri fyrir róða. Að vera sjálfbær er eins og að vera arðbær. Greina verður hismið frá kjarnanum og leggja meiri rækt við tvöfalda mikilvægisgreiningu. Greina þarf hvernig fyrirtækið hefur áhrif á umhverfið og samfélagið annars vegar og hvernig umhverfið og samfélagið hefur áhrif á afkomuna. Stofnstærð fiskistofna hefur áhrif á sjávarútvegsfyrirtæki. Ofveiði leiðir til minni stofna sem hefur áhrif á fyrirtækið til lengri tíma. Við höfum tileinkað okkur þessa tvöföldu mikilvægisgreiningu og vitum hvað þetta merkir en erum of upptekin af því misræmi sem birtist okkur hjá ofangreindum matsfyrirtækjum. Tilfærsla á kvóta á milli byggðalaga hefur áhrif á nærsamfélagið og við höfum tekist á um þá tvöföldu mikilvægisgreiningu mjög lengi. Við höfum tekist á um það mjög lengi hvað telst vera viðeigandi auðlindagjald og varla sér fyrir endann á þeirri rökræðu frekar en áður. Hvernig á að skipta virðisaukningunni sem felst í sjálfbærum sjávarútvegi á milli hluthafa og samfélagsins. Nú hefur Evrópusambandið reglusett þá mikilvægisgreiningu sem við höfum tileinkað okkur lengi, þetta er meira spurning um aðlögun að okkar aðstæðum. Að halda áfram á þeirri vegferð sem sjávarútvegurinn hefur kennt okkur í sjálfbærniþróun sem tekur ekki enda og er viðvarandi krafa um sjálfbærni í rekstri í víðum skilningi.
Höfundur er framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs. Þessi grein birtist fyrst í blaðinu sem kom út 20. nóvember 2024.