Ferskir vindar ársins 2007 leika greinilega um sali Orkuveitunnar, en hvort útsvarsgreiðendur í Reykjavík vilji hafa það svona er svo annað mál.
Sævar Freyr Þráinsson forstjóri OR var í miklu viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku. Í viðtalinu sagði forstjórinn að hóflegar áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir að Carbfix-verkefnið gæti skilað 1400 milljörðum eða sem nemur þriðjungi af landsframleiðslunni. Eftir höfðinu dansa limirnir og starfsmenn Carbfix eru yfirlýsingaglaðir um þessar mundir. Þegar hrafnarnir sáu þetta var þeim hugsað til frægrar forsíðu tímaritsins Þjóðlífs frá árinu 1989. Á henni mátti sjá Össur Skarphéðinsson boða landsmönnum milljarðagróða á fiskeldi en það er önnur saga.
Þannig skrifar Ólafur Elínarson, einn af samskiptaleiðtogum þessa dótturfélags OR, aðsenda grein í Morgunblaðið í þessari viku. Þar segir hann efnislega nauðsynlegt að dæla innfluttum útblæstri frá iðnaði í bergið á Völlunum í Hafnarfirði til þess að afstýra að Golfstraumurinn breytist og Ísland verði þar með óbyggilegt. Hrafnarnir velta fyrir sér hvort þessi röksemd sé notuð í söluræðum þegar útsendarar Carbfix ræða við erlenda fjárfesta en aðkoma þeirra er forsenda fyrir stórhuga uppbyggingu félagsins hér á landi.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnarálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 30. október 2024.