Óðinn fjallaði í lok febrúar um Óbyggðanefnd. Hún var sett á laggirnar árið 1998 og átti á ljúka störfum árið 2007.
Verkefni nefndarinnar hafa sífellt verið víkkuð út og kostnaðurinn við nefndina er mun meiri eftir að hún átti að vera hætt störfum, en þann tíma sem hún átti að starfa.
Hér á eftir er pistilinn í fullri lengd.
Tveimur komma tveimur milljörðum og sautján árum seinna
Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, mælti fyrir frumvarpi til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta fyrir rétt um 26 árum, þann 5. febrúar 1998.
Sagði hann að alla 20. öldina og enn fyrr hefðu risið upp deilur hér á landi um eignarrétt yfir hálendissvæðum landsins. Með tveimur stefnumarkandi dómsniðurstöðum hæstaréttar vegna sama landsvæðisins, Landmannaafréttar, mætti hins vegar segja að umræðunni hefði verið beint inn á vettvang Alþingis. Með lögunum sló ríkið eign sinni á landsvæði sem enginn hafði getað sannað eignarrétt sinn á.
Þingmenn sem tóku þátt í umræðu um frumvarpið sögðu það löngu tímabært þó að stjórnarandstaðan hafi talið að sum ákvæði í frumvarpinu ættu að vera öðruvísi úr garði gerð. Frumvarpið var samþykkt mótatkvæðalaust 28. maí 1998 og varð því að lögum.
***
Óbyggðanefnd komið á fót
Í þriðja kafla laganna var komið á fót sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, sem falið var að eiga frumkvæði að því að skera með skipulögðum hætti úr um mörk eignarlands og þjóðlendna, mörk afrétta innan þjóðlendna og annarra réttinda þar.
Síðan lögin voru samþykkt árið 1998 hefur mikið vatn runnið til sjávar. Í upphafi átti aðeins að skera úr um eignarrétt á hálendi Íslands vegna sífelldra deilna sem Davíð Oddsson minntist á þegar hann lagði frumvarpið fram.
Síðan þá hafa verið gerðar margvíslegar breytingar á lögunum og í raun hefur óbyggðanefnd og ríkið, með kröfum sínum, kannað eignarréttarlega stöðu nær alls landsins.
***
Hvers vegna í ósköpunum?
Óðinn hafði efasemdir um að nauðsynlegt væri að semja sérstök lög og setja á stofn opinbera stofnun, þótt nefnd kallist, til að kanna eignarrétt á hálendinu og leiða deilur til lykta í eitt skipti fyrir öll. Það sem var ekki hvað síst við allt málið var sú staðreynd að ríkið myndi hirða landið sem deilt var um væri vafi á eignarheimildunum sem blessaðir bændurnir bæru á borð dómstóla.
En þessi ákvörðun var þá tekin vegna góðra manna ráða. Meðal þeirra sem mæltu með þessari leið var Gaukur Jörundsson, okkar fyrsti umboðsmaður Alþingis.
***
Hin mikilvægu verkefni
Óbyggðanefnd hefur hvað eftir annað á undanförnum árum sest upp í flugvél ásamt lögmönnum og starfsmönnum, leigt bílalest af Land Cruiser-jeppum og farið út í móa. Í einhverjum tilfellum til að kanna einhverja verðlausa bleðla sem enginn er að velta fyrir sér nema kontóristar hjá ríkisnefndinni. Stundum hefur fólkið gert sér glaðan dag um kvöldið en ríkið borgar allt saman. Nefndarlaunin, lögmannskostnaðinn, flugið, bílana og dinnerinn. Þeir mega þó eiga það að þeir greiða ekki vín með matnum.
Núna er fjármálaráðherra búinn að gera kröfu um að eignast hálfar Vestmannaeyjar eftir rannsókn kontóristanna. Skattgreiðendur geta huggað sig við að Slippurinn í Vestmannaeyjum er lokaður fram í maí svo að ekki fá þeir svo gott að borða.
***
17 árum seinna
Davíð Oddsson sagði, þegar hann mælti fyrir frumvarpinu, að óbyggðanefndin ætti að ljúka störfum árið 2007. Síðan eru liðin 17 ár.
Þegar kostnaðurinn er skoðaður við óbyggðanefndina sést að minnihluti hans féll til á þeim tíma sem nefndinni var ætlað að starfa. Núvirtur er kostnaðurinn 1.362 milljónir króna fram til 2007. Frá þeim til þessa árs mun kostnaðurinn verða 2.195 milljónir króna.
Ríkisútgjöldin eru stjórnlaus sama hvert litið er. Samanlagt nemur kostnaðurinn um 3,6 milljörðum króna frá 1999 til 2024, virði nefndin fjárlögin.
***
Er tíma fjármálaráðherra ekki betur varið í að stöðva takmarkalausa eyðslu ríkissjóðs á annarra manna fé en að standa fyrir hönd ríkisins í lagaþrætum um land í Vestmannaeyjum sem ríkið seldi árið 1960?