Ársins 2024 verður m.a. minnst sem árs umbrota. Náttúruöflin létu enn finna fyrir sér og færðu orku- og veitufyrirtækjum ógnvænlegar áskoranir með tíðum eldsumbrotum við Sundhnúkagíg.

Ástandið virðist viðvarandi en fyrir elju, hugvitssemi og tækniþekkingu hefur fyrirtækjum á svæðinu og öflugu tæknifólki tekist að koma í veg fyrir stórkostleg áföll í orkubúskap svæðisins, skemmdum á eignum og rekstri annarrar grunnþjónustu.

Jákvæð þróun viðskipta

Töluverð umbrot urðu líka í fyrirkomulagi viðskipta með raforku en tvö ný fyrirtæki hófu rekstur skipulegra viðskiptavettvanga með raforku. Í þessu fólst ekki eðlisbreyting á íslenskum raforkumarkaði því í nær tvo áratugi hafa raforkuviðskipti verið í frjálsu samkeppnisumhverfi.

Breytingin verður að teljast jákvæð því með henni hafa viðskipti orðið tíðari og niðurstöður gagnsærri svo mikilvægar upplýsingar um framboð, eftirspurn og verð birtast nú hreint og beint þeim sem þurfa að taka ákvarðanir í orku- og veitumálum, jafnt fyrirtækjum sem stjórnvöldum. Ítarleg raforkuspá Landsnets sýnir helst til dökka mynd af horfum í raforkubúskapnum.

Hvort sem litið er til skamms eða meðallangs tíma er þrýstingur á afl- og orkujöfnuð landsins. Ef raforkuskortur sverfir að er virkur markaður farsæl og þekktasta leiðin til að leysa úr honum. Hætt er við því að hinir ýmsu aðilar eða hópar muni koma fram og krefjast sérmeðferðar eða breytinga á viðskiptakerfi með raforku. Slíkar lausnir eru oft skemmri tíma friðþæging sem leiða á endanum til óskilvirkra lausna.

Tíma stjórnmálamanna er betur farið í að vinna að varanlegum lausnum á rót vandans í stað þess að sitja og hlusta á slíkar kröfur. Skjálfta varð líka vart í stjórnmálum. Í haust féll ríkisstjórnin m.a. vegna ágreinings um afgreiðslu orkumála í ríkisstjórninni. Á vettvangi stjórnmálanna birtast oft metnaðarfull markmið í orkuskiptum þó minna fari fyrir lausnum eða vilja til að skapa umhverfi sem laðar fram nauðsynlegar fjárfestingar í orkuöflun, flutnings- og dreifikerfum.

Núverandi fyrirkomulag stjórnsýslu mun að óbreyttu ekki skila íslensku samfélagi þeim árangri sem stefnt er að í orkuskiptum. Mikilvægt er að ný ríkisstjórn nálgist orkuframleiðslu sem grundvöll að frekari verðmætaframleiðslu og mikilvægt útspil í þágu loftsslagsmála. Lítið mun verða úr markmiðum um kolefnishlutleysi verði ekki ákveðið að bæta úr stöðunni sem fyrst. Framleiðsla grænnar orku er stærsta mótvægisaðgerðin sem íslenska þjóðin hefur gegn hlýnun jarðar.

Leyndu lífsgæðin

Íslendingar búa við góð lífsgæði. Undir yfirborðinu leynast samfélagslegar fjárfestingar í vatns-, hita- og fráveitukerfum sem þjóna heimilum og fyrirtækjum um allt land. Það er stöðugt verkefni að auka gæði þessara kerfa og víða er kominn tími á endurnýjun þeirra.

Gríðarlegar framfarir hafa orðið í tækni og ríkari umhverfis- og gæðakröfur gera það að verkum að uppfærð og endurnýjuð veitukerfi munu reynast stórar fjárfestingar hjá veitufyrirtækjum og sveitarfélögum. Magra augu eru á þeim ávinningi í umhverfisvernd sem hægt er að ná með hagkvæmari veituinnviðum vegna bættrar nýtingar á vatni, varma og betri fráveitu.

Það er grundvallaratriði að stjórnvöld búi þessum aðilum umgjörð sem hvetur til tímanlegra fjárfestinga. Þá verða stjórnvöld að tryggja sveitarfélögum eðlilegt rekstrarumhverfi þessara innviða m.a. að heimilt verði að gera ráð fyrir tiltekinni lágmarksarðsemi og hvetja þannig til nauðsynlegra fjárfestinga.

2025 – ár umbóta?

Á nýju ári bíður það nýrrar ríkisstjórnar það verkefni að setja raunhæf markmið í orkuskiptum og loftslagsmálum, tryggja orkuöryggi, gera umbætur á stjórnsýslu og skapa vænlegt fjárfestingarumhverfi fyrir veitustarfsemi samhliða efnahagslegum skilyrðum til fjárfestingar.

Skilvirkni, gagnsæi og trúverðugleiki stjórnvalda eru sérlega mikilvæg þegar fjárfestingar af þessu umfangi eru í undirbúningi. Orkumál eru efnahagsmál og skynsöm efnahagsstjórn sem hyggst auka verðmætasköpun getur ekki vikist undan umbótum á sviði orku- og veitumálefna.

Hagsmunir orku- og veitufyrirtækja eru samofnir hagsmunum íbúa landsins og er það sjaldan skýrara en í köldum desember. Aukin orkuframleiðsla, uppbygging á flutnings- og dreifikerfum auk nauðsynlegra endurbóta á vatnsog fráveitum eru framundan. Allt þetta er samtímis í þágu heimila, fyrirtækja og náttúrunnar og mikilvægt að takist vel til.

Samtök orku- og veitufyrirtækja eru sem fyrr fús til uppbyggilegs samstarfs. Samorka þakkar landsmönnum samstarfið á árinu og óskar þeim gleðilegs nýs árs.