Áður hefur verið drepið á það á þessum vettvangi hvernig Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri og upplýsingafulltrúi Flokks fólksins, gerist ítrekað beinn þátttakandi í viðtölum blaða- og fréttamanna við ráðherra flokksins og sýnir þar með af sér fádæma ókurteisi.

Umfjöllun Hólmfríðar Maríu Ragnhildardóttur, blaðamanns á Morgunblaðinu, um menntamál undanfarin misseri hefur vakið verðskuldaða athygli. Í fyrri viku átti hún samtal við Guðmund Inga Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, um áform hans um að breyta lögum og heimila þar með framhaldsskólum að horfa til annarra þátta en námsárangur við innritun nemenda, sem vakti talsverða athygli og umræðu.

Fram kemur í viðtalinu að Heimir Már Pétursson hafi fylgst með viðtalinu meðan á því stóð. Það er svo sem ekkert athugavert en ósvífið að framkvæmdastjórinn sé að skjóta inn í athugasemdum við svör ráðherrans eins og Hólmfríður rekur í viðtalinu. Leysir hún það reyndar skemmtilega með því að taka fram að ráðherrann taki undir orð upplýsingafulltrúans.

Þá kemur einnig fram að upplýsingafulltrúa tjái bæði ráðherra og blaðamanni að viðtalinu þurfi að ljúka sem fyrst og stöðvar á endanum viðtalið en hvorki ráðherra né blaðamaður höfðu frumkvæði að því. Þetta er með öllu óboðleg framkoma hjá upplýsingafulltrúanum.

Orðið „upplýsing“ er mjög gagnsætt, að varpað sé ljósi á hlutina svo þeir verði öllum ljósir. Þessi upplýsingafulltrúi virðist hins vegar líta svo á að það sé hlutverk hans að stjórna því hvað fram komi, hverju ráðherrarnir séu spurðir að og hverju þeir fái að svara.

Það er skelfilegur misskilningur og beinlínis hættulegur lýðræðinu. Ráðherrum er falið vald af Alþingi og þeir sitja í skjóli þess. Hið pólitíska taumhald á ráðherrum á sér þó ekki aðeins stað í þinginu, almenningsálitið skiptir þar ljóslega miklu máli. Það er í því samhengi sem eftirlitshlutverk fjölmiðla kemur til sögunnar, ófullkomið og óformlegt sem það kann að vera.

Til þess að fjölmiðlar fái rækt það hlutverk hafa þeir aðgang að ráðherrum. Hver og einn ráðherra getur auðvitað gefið færi á sér að vild, en ríkisstjórnin hefur einnig það vinnulag, að blaðamenn hafa að öllu jöfnu aðgang að ráðherrunum að loknum ríkisstjórnarfundum og geta þá spurt þá út í málefni dagsins. Það er tiltölulega skilvirkt
fyrirkomulag, sem sparar
öllum tíma, og þess naut Heimir Már Pétursson meðan hann var enn fréttamaður.

Það hefur hins vegar gerst hvað eftir annað síðan hann var ráðinn til Flokks fólksins, að hann hefur sýnt af sér alls kyns yfirgang þegar blaðamenn reyna að eiga orðastað við ráðherra flokksins. Þar hefur hann tekið orðið af ráðherrum, verið með framíköll bæði í viðtölum og á blaðamannafundum, þar sem hann hefur farið út í að útskýra hvað ráðherrar vildu sagt hafa, jafnvel áður en þeir hafa fengið tækifæri til þess að svara.

Hefur jafnvel komið til þess að hann hefur verið áminntur í beinni útsendingu um að hann sitji þar ekki fyrir svörum. Hann virðist þó ekki láta sér segjast.

Þetta er vitaskuld dónaskapur við blaðamenn, en þeir eru nú ýmsu vanir.

Dónaskapurinn er meiri við ráðherra Flokks fólksins, sem upplýsingafulltrúinn treystir greinilega illa til þess að hugsa heila hugsun, hvað þá að orða hana svo óhætt sé að almenningur heyri.

Umfram allt er þetta þó vanvirðing við ríkisstjórnina sem stjórnvald.

Heimir Már er ekki aðstoðarmaður ráðherra eða ríkisstjórnar (og halda þeir sig þó allir hógværir til hlés), hann er bara starfsmaður stjórnmála-
flokks úti í bæ og þar af leiðandi gestur í salarkynnum ríkisstjórnarinnar. Hann hefur ekkert hlutverk á þessum fundum, þótt honum sé vitaskuld frjálst að súpa á kaffi meðan hann bíður eftir að fá að hitta ráðherra.

En þegar hann fer að gjamma á þessum fundum er hann orðinn boðflenna og fundarspillir. Ekki húsum hæfur. Mest er móðgunin þó við almenning, sem fær ekki að vita það sem hann þarf að vita, fær ekki svör við áleitnum spurningum dagsins, sem ætlast verður til að ráðherrar geti svarað án afskipta almannatengils.

***

Það er kannski vísbending um að ríkisstofnun sé ofalin þegar hún getur haft starfsmenn á launum við það að uppræta einhverja vitleysu sem einhver lætur falla á Netinu. Rekstur Ríkisútvarpsins kostar einhverja átta milljarða á ári og á stofnuninni starfar meðal annarra Tiktok-fréttamaðurinn Ingunn Lára Kristjánsdóttir.

Á dögunum birti einhver nafnleysingi myndband á Tiktok um einhverja tölfræði um útlendingamál hér á landi. Myndbandsbirtingin virðist hafa sætt miklum tíðindum uppi í Efstaleiti – svo miklum að Ingunn Lára og fréttastofa Ríkisútvarpsins töldu rétt að hrekja hverja einustu tölu sem birtist í upphaflega myndbandinu enda væri um alvarlegt dæmi um hatursorðræðu að ræða.

Sá galli var á gjöf Njarðar að staðreyndavakt fréttastofunnar stóð sig ekkert sérstaklega vel. Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur fjallaði um málið á síðu sinni sem nefnist Ráðdeildin og má finna á Substack. Þar segir Konráð:

Í myndbandinu (staðreyndavídeó) fer fréttamaður yfir ýmsar fullyrðingar um útlendingamál, sem settar voru fram í lélegu TikTok myndbandi (útlendingavídeó) og afgreiðir þær langflestar sem rangfærslur. Það er sannarlega margt í upprunalega myndbandinu sem stenst litla eða enga skoðun. Það á þó ekki við um allt og sjálft Ríkisútvarpið gerist sekt um að fara með rangfærslur, gera lítið úr aðalatriðum eða fara með lítt rökstuddar fullyrðingar.“

***

Í frétt RÚV er þeirri fullyrðingu í upphaflega myndbandinu um að fjöldi útlendinga hér á landi verði orðinn 223 þúsund eftir 20 ár vísað á bug. Konráð bendir réttilega á að í sjálfu sér hafi enginn nokkra hugmynd hversu margir útlendingar verði á landinu eftir tuttugu ár en bendir á að það sé alls ekki úr takti við spár Hagstofunnar og ekki fjarstæðukennt að áætla að fjöldi útlendinga verði kominn yfir 200 þúsund eftir tvo áratugi.

Ekki það að spár Hagstofunnar og tölfræðisöfnun hafi reynst sérlega áreiðanleg í þessum efnum og öðrum á undanförnum árum. Þannig hefur komið á daginn að mannfjöldi á Íslandi var ofmetinn, einkum vegna innflytjenda.

Þá er fjallað um fullyrðingar um kostnað ríkisins vegna málefna sem tengjast innflytjendum og þá sem sækja um alþjóðlega vernd. Gefum Konráði orðið:

„Í staðreyndavideói RÚV segir að aðföng séu allur kostnaður sem ekki er launatengdur. Það eitt og sér er ekki alveg rétt. Í raun er ekki til ein skilgreining á aðföngum. Í hagfræði eru það allir framleiðsluþættir, þar með talið vinnuafl og þá laun. Í daglegu tali er þó oft átt við þá vöru og þjónustu sem keypt er utan frá. Þá vísar fréttamaður RÚV í ársreikninga Landspítalans þar sem komi fram að aðföng hafi verið 27 ma. kr. Ruglingurinn verður svo enn meiri þegar RÚV birtir afskriftir með sem aðföng (sem súmmerast reyndar ekki upp í 27 ma.kr.) sem er reiknuð stærð og hluti af fjármagnskostnaði. Aftur á móti virðist fullyrðingin um 20 ma.kr. líka vera röng. Nær væri að tala um ríflega 24 ma.kr. heldur en 27 (RÚV) eða 20 (útlendingavídeóið). RÚV tekur annan rekstrarkostnað með þar sem opinber gjöld og þátttaka í rannsóknarverkefnum er meðtalin. Slíkt telst varla aðföng, nema þú ætlir í hagfræðilegu skilgreininguna og líta á allt sem aðföng, sem eru meira en 100 ma.kr.“

***

Konráð hrekur fleira sem kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins. Hann segist vissulega deila þeim áhyggjum sem skína í gegn í frétt RÚV um að útlendingahatur grasseri í samfélaginu. Það gera flestir.  En hann segir enn fremur:

„Til að svara því hvort svona myndband frá Ríkisútvarpinu sé gagnlegt er ágætt að stíga aðeins til baka og átta sig á tveimur staðreyndum:

  • Innflytjendum hefur fjölgað mjög hratt á Íslandi síðustu ár, svo hratt að hér hefur íbúum fjölgað eins og í ríkjum í Afríku sunnan Sahara og miklu hraðar en annars staðar í Evrópu, með tilheyrandi vandkvæðum.
  • Umfang við alþjóðlega verndarkerfið hefur margfaldast síðustu ár með tilheyrandi kostnaði og allskyns vaxtarverkjum.

Einhverjir kunna að hafa áhyggjur og telja þróunina hafa gengið aðeins of langt og það er heldur ekkert óeðlilegt þegar litið er á tölurnar. Ég deili þessum áhyggjum, sérstaklega í tilfelli hælisleitenda, og því deili ég með meirihluta landsmanna, þó að viðhorf til innflytjenda séu almennt jákvæð. Hverjum hjálpar það þá að afgreiða slíkar áhyggjur, sem innan skynsamlegra marka má fullyrða að séu réttmætar, sem hatursorðræðu og útlendingaandúð? Og er það ríkisfjölmiðilsins að taka slíka afstöðu?”

Hægt er að taka undir þessi orð Konráðs.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom 23. apríl 2025.