Óðinn fjallaði aðra vikunna í röð í Viðskiptablaðinu sem kom út fyrir viku, um innflytjendur.
í annarri umfjölluninni var fjallað um einstaka upprunalönd innflytjenda í Danmörk og þau sérstaklega skoðuð með tilliti til innflytjenda á Íslandi.
Hér á eftir er pistilinn í fullri lengd.
Upprunalöndin, Pólland og Palestína
Í síðustu viku fjallaði Óðinn um innflytjendur í Danmörku og hópana fjóra sem danskir innanríkisráðherrann og þingmaður sósíalista skilgreindi árið 2020.
Nú er fjallað nánar um einstök lönd innan hópanna með hliðsjón af upprunalöndum þeirra innflytjenda sem fjölmennastir eru á Íslandi þar sem tölur eru tiltækar.
***
Óðinn ætlar, rétt eins og síðustu viku, að hafa sem minnstar skoðanir á tölunum, reyna að útskýra þær en eftir fremsta megni að leyfa þeim að tala sínu máli. Í lokin tekur Óðinn hins vegar afstöðu hvort megi birta tölurnar, en viðbrögð sumra er að það megi bara alls ekki.
Jafnvel þó tölurnar séu sláandi fyrir suma hópa þurfa lesendur að hafa í huga að meginþorri fólks í þeim hópum fremur ekki glæpi.
***
Pólverjar fjölmennasti hópur innflytjenda
Pólverjar eru fjölmennasti hópur innflytjenda í Danmörku. Þeir voru 46.917 þann 1. janúar 2023 og 6,7% allra innflytjenda í landinu. Þeir fóru að flytjast til Danmerkur árið 2004 þegar Pólland gekk í Evrópusambandið.
Rétt eins og Danmörku eru Pólverjar stærsti hópur innflytjenda á Íslandi. Þeir voru 23.081 þann 1. janúar 2023 og lang stærsti hópur innflytjenda á Íslandi, eða 32,3% allra innflytjenda.
Fjölmennustu hópar hinna svokölluðu MENAPT landa í Danmörku og Íslandi eru Sýrlendingar, Palestínumenn, Írakar, Íranar og Marokkómenn.
***
Hreint framlag einstakra upprunalanda
Óðinn birti í síðustu viku upplýsingar um öll þau upprunalönd sem danska fjármálaráðuneytið birti í skýrslu sinni í fyrra vegna ársins 2019 (ef íbúar upprunalands eru 5 þúsund eða fleiri í Danmörku). Nú er umfjöllunin þrengri. Hér á eftir er stuðst við dönsk gögn en eingöngu fjallað um upprunalönd innflytjenda sem fjölmennastir eru á Íslandi.
Það verður að hafa í huga að þeir sem flytjast á milli landa eru líklegri til að vera í láglaunastörfum eða lægri launuðum störfum. Einnig er ekki víst að íslenskur raunveruleiki endurspeglist nákvæmlega í dönsku tölunum því innflytjendur gætu verið að sinna tekjuhærri, eða eftir atvikum tekjulægri, störfum hérlendis en í Danmörku. Einnig gæti kynjahlutfall haft áhrif, sem og annað. Samanburðurinn ætti samt að gefa vísbendingu um raunveruleikann.
***
Það sem vekur líklega mesta athygli í tölunum eru innflytjendur frá Úkraínu. Framlag þeirra er ívið meira en innflytjenda frá Póllandi, Rúmeníu og Eystrasaltslöndunum. Þessar tölur eru frá því fyrir innrás Rússlands og samsetning kynjanna önnur en í þeim hópi sem komið hefur til Íslands eftir að stríðið hófst, því það eru aðallega konur og börn.
***
Atvinnuþátttaka nokkurra upprunalanda
Atvinnuþátttaka er langminnst hjá þeim sömu þremur upprunalöndunum sem koma verst út í samanburðinum hér á undan um hreint framlag til hins opinbera.
Lægst atvinnuþátttaka er hjá innflytjendum frá upprunalöndunum Líbanon (stór hluti þeirra sem koma frá Líbanon eru Palestínumenn), Sýrlandi og Sómalíu. Það sem skilur þessi þrjú upprunalönd að er að Líbanir/Palestínumenn komu í flestir í kringum 1985 rétt eins og Sómalar en Sýrlendingarnir komu flestir í árið 2015.
***
Misjafnt er hversu langan tíma það tekur fyrir innflytjendur að finna sér vinnu í nýju landi. Sérstaklega á það við um hælisleitendur. En varla er hægt að halda því fram að innflytjendur þessara tveggja fyrrnefndu landa hafi ekki haft nægan tíma til að aðlagast dönsku þjóðlífi og vinnumarkaði. Ástæðurnar hljóta að vera aðrar og flóknari. Einnig, líkt og Óðinn benti á í síðustu viku, þá minnkar atvinnuþátttaka múslimalandanna (MENAPT landanna) eftir 15-22 ára búsetu í nýja landinu.
Þótt atvinnuþátttaka karla frá löndunum þremur sé lítil er hún enn minni hjá konum. Árið 2021 var atvinnuþátttaka lægst meðal sýrlenskra kvenna eða aðeins 29% og 33% meðal líbanskra/palestínskra kvenna.
***
Hverjir eru á opinberu framfæri
Danska hagstofan greinir frá því skýrslum sínum frá 2008 hvaða hópar eru á opinberu framfæri. Tölurnar sína hlutfall þeirra sem eru á opinberu framfæri allt árið. Nýjustu tölurnar eru frá 2021.
Þegar hóparnir eru skoðaðir er skýr fylgni á milli lítillar atvinnuþátttöku og fjölda bótaþega. Líbanir/Palestínumenn koma þar verst út þar sem 51% karla og 66% kvenna eru á opinberu framfæri.
Hlutfall pólskra karlmanna á bótum er lægra en hlutfall karlmanna af dönskum uppruna. Aðeins 10% pólskra karla eru á bótum en 16% danskra.
Hlutfall pólskra kvenna á bótum er einnig lægra en danskra kvenna. Einnig sést á tölunum að hlutfall Rúmena og Litháa á opinberu framfæri er lágt, en þetta eru stórir hópar á Íslandi.
***
Glæpatíðni er rétt undir meðaltali hjá Pólverjum
Ekki aðeins er hlutfall Pólverja á bótum lágt heldur eru þeir einnig undir meðaltali í sérstakri vísitölu dönsku hagstofunnar yfir karla sem fremja glæpi. Gildið 100 er meðaltalið og Pólverjar eru í 99 stigum.
Efstir eru Líbanir/Palestínumenn með 281. Þeir hafa verið efstir í glæpavísitölunni frá árinu 2008, eða frá því hún var birt. Töluvert á eftir koma Sómalar, svo þeir sem komu frá gömlu Júgóslavíu og síðan Sýrlendingar. Þetta eru sömu upprunaþjóðirnar og eru að stórum hluta á framfæri danskra skattgreiðenda.
Rúmenar og Litháar eru aðeins fyrir ofan meðaltalið en Indverjar og Úkraínumenn langt undir.
Það sem er sláandi við tölurnar eru að afkomendur innflytjenda eru mun líklegri til að fremja afbrot. Líbanskir/Palenstínskir innflytjendur eru með gildið 281 en afkomendur þeirra eru 370.
Er þetta vísbending um að þeir séu enn óánægðari með að búa í Danmörku en forfeðurnir? Eru aðstæður þeirra slíkar að þeir þrífast illa?
***
Palestínumennirnir sem fengu dvalarleyfi árið 1992
Dönsk stjórnvöld viðurkenna ekki sjálfstæði Palestínu og flokka Palestínumenn sem ríkisfangslausa. Í skýrslum hagstofunnar dönsku, voru Palestínumenn sagðir tveir af hverjum þremur þeim sem voru frá Líbanon fram til 2012. Eftir það eru þeir sagðir stór hluti. Þeir voru flokkaðir sem Líbanar í gögnunum sem er nokkuð stór hópur eða telur um 27 þúsund manns árið 2019.
Í september 2020 svaraði danska innflytjendaráðuneytið fyrirspurn frá þingmanninum Piu Kjærsgaard um afdrif 321 Palestínumanns sem var veitt dvalarleyfi árið 1992 og komu allir frá Líbanon.
***
Borgarastríð ríkti í Líbanon frá 1975 til 1990. Stríðinu lauk þann 13. október 1990 en skærur héldu áfram næstu mánuði. Lokabardaginn um borgina Sidon, sem háð var 2-6. júlí 1991, markar endalok borgarstríðsins í landinu milli Frelsishreyfingar Palestínumanna (PLO) og Líbanska hersins.
Þá um sumarið var yfir 300 Palestínumönnum hafnað um hæli en þeir sóttu um það á grundvelli ofsókna. Því var hafnað og sagt að Líbanon væri orðið friðsælt. Þá komu 96 þeirra sér fyrir í Enghave kirkjunni í Kaupmannahöfn og dvöldu þar mánuðum saman.
***
Nýr meirihluti samþykkti sérlög
Kirkjan veitti þeim leyfi til að dvelja í kirkjunni. Byggði leyfið á gamalli reglu um friðhelgi í kirkjum sem hafði ekkert lagagildi í Danmörku. En dönsk stjórnvöld vildu ekki fara inn í kirkjuna þar sem töluverð samúðarbylgja hafði risið til stuðnings Palestínumönnunum. Aðallega meðal listamanna, líkt og Kim Larsen, presta og vinstri sinnaðra aðgerðarsinna.
Dönsku vinstriflokkarnir þrír mynduðu nýjan meirihluta í danska þinginu í mars 1992 og samþykktu lög sem veitti öllum 321 Palestínumönnunum dvalarleyfi í landinu.
***
64% hafa fengið dóm
Í svari innflytjendaráðuneytisins kemur fram að 204 af þeim 321 Palestínumönnum höfðu hlotið dóm fyrir afbrot á árunum 1992-2019, eða 64%. Sektir undir 1.500 dönskum krónum, um 30 þúsund íslenskrar krónur, eru ekki taldar með. Þeir sem hafa hlotið fangelsisdóm eru 71, eða 22%.
Í árslok 2019 voru 270 af þeim 321 Palestínumönnum sem komu árið 1992 lifandi og búsettir í Danmörku. Af þeim þáðu 176 þeirra, eða 65%, framfærslubætur frá hinu opinbera.
Fjölmennasti bótaflokkurinn er örorku- og veikindalífeyrir (dk. førtidspension) en reglur um slíkar bætur eru rýmri en á Íslandi.
***
Líbanar og Palestínumenn
Sú spurning hefur eflaust vaknað hvers vegna Líbanar/Palestínumenn hafa samlagast dönsku þjóðlífi svo illa? Þeir koma verst út í öllum samanburði og ástandið versnar þegar tölfræði afkomendanna er skoðuð.
Þeir eru reyndar í þriðja sæti yfir þau upprunalönd eru með neikvætt hreint framlag til hins opinbera. Óðinn veit ekki skýringuna en er með tilgátu. Það voru ekki aðeins múslimar frá Palestínu sem flúðu Líbanon. Kristnir Líbanar flúðu líka borgarastríðið. Flest efnafólk og menntafólk flúði og er reyndar enn að flýja. Líbanon hefur í raun aldrei verið verr statt en í dag.
Efnamiklir Líbanar eru áberandi í París, Lundúnum, Los Angeles og víðar. Getur verið að eitthvað af þessu fólki hafi farið til Danmerkur, sem gerir það að verkum að hreina framlagið til hins opinbera lítur aðeins betur út?
***
Hvaða ályktun á að draga af þessu?
Munur milli einstakra upprunalanda og innflytjendahópa er gríðarlegur. Það eru margar kenningar á lofti hvers vegna hann er. Óðinn telur að ástæðurnar séu margþættar og óvíst hvort hægt verður að bæta úr sumum þeirra.
Sumir hafa haldið því fram að Danir séu ekki góðir gestgjafar og það skýri þessar óskaplegu tölur. Ef það er rétt þá spyr Óðinn á móti. Eru einhverjar líkur að við Íslendingar stöndum okkur betur?
***
Má fjalla um þessar tölur?
Mattias Tesfaye innflytjendaráðherra danska Sósíalistaflokksins rökstuddi flokkun innflytjenda og skýrslugerðina í viðtali við Berlinske þann 13. desember 2020:
Við þurfum réttar tölur og ég held að það muni gagnast og bæta umræðuna ef við opinberum þessar tölur, því í grundvallaratriðum sýna þær að við í Danmörku eigum í raun ekki í vandræðum með fólk frá Suður-Ameríku og Austurlöndum fjær. Við eigum í vandræðum með fólk frá Miðausturlöndum og Norður-Afríku.
Óðinn er þeirrar skoðunar að auðvitað eigi að fjalla um tölur dönsku hagstofunnar og danska fjármálaráðuneytisins. Reyndar er hann einnig þeirrar skoðunar að íslenska fjármálaráðuneytið eigi að vinna samskonar skýrslu. Það er réttur þeirra sem greiða þá himinháu skatta á Íslandi að vita hvernig þeim er varið og það er augljóst að fjármálaráðherrann núverandi og fyrrverandi hafa ekki hugmynd um hvað innflytjendastefnan kostar.
Það er líka nauðsynlegt að fram fari skoðun á því hvort við erum að standa okkur nógu vel í að taka á móti innflytjendum.
Hvort við getum á einhvern hátt gert betur svo tölurnar sem við sjáum í Danmörku verði ekki þær sömu hjá okkur.