Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, virðist vera lausnamiðaður maður. Týr telur það til eftirbreytni.

Fram kom í Morgunblaðinu að ráðherrann ætli að bregðast hratt og örugglega við dómi héraðsdóms Reykjavíkur um að fella virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi. Jóhann hefur sagt það óþolandi ef dómurinn verður til að seinka virkjunarframkvæmdinni enn frekar og hefur boðað frumvarp sem tekur á málinu og gerir almenn áform um orkuöflun skipulegri og skilvirkari.

© xs.is (xs.is)

Ef þetta nær fram að ganga er ljóst að Jóhann Páll gerir meira gagn en forveri hans í starfi sem afrekaði það helst að hækka kolefnaskatta, koma á kynlausum salernum í opinberum byggingum og ráðast í stórfelldar niðurgreiðslur á rafbílakaupum stærstu bílaleigna landsins.

***

Annars er dómur héraðsdóms stórmerkilegur. Það er rannsóknarefni hversu aftengdir þingmenn þessa lands eru. Það er hreint ótrúlegt að þeim hafi tekist að búa svo um hnútana að allar vatnsaflsvirkjanir hér á landi séu ólöglegar án þess að gera sér nokkra grein fyrir afleiðingum gerða sinna.

Það er líka rannsóknarefni hvers vegna tveir umhverfisráðherrar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, gerðu ekkert í málinu þrátt fyrir að þeim hafi verið bent á þennan galla í lögunum.

***

En það eru fleiri aftengdir en þingmenn. Þorgerður María Þorbjarnardóttir, formaður Landverndar, virðist ekki hafa nokkurn skilning á verðmætasköpun og vægi hennar fyrir þjóðarhag. Þorgerður var í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins í síðustu viku til að ræða hinn nýfallna dóm.

Í viðtalinu sagðist formaðurinn vera hissa á umræðunni um að afturköllun virkjunarleyfisins hafi slæm áhrif á almenning. „Ég veit ekki betur en að þessi orka eigi meira og minna að fara í gagnaver og landeldi eða einhverja svona stórnotendur,“ sagði Þorgerður í viðtalinu.

Týr veltir fyrir sér hvort það sé boðlegt hjá Ríkisútvarpinu að bjóða upp á viðmælendur sem gera sér ekki grein fyrir mikilvægi útflutningstekna og gjaldeyrissköpun fyrir þjóðarbúið og mikilvægi raforkuframleiðslu fyrir það allt saman þegar kemur að umræðum um orkumál?

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 22. janúar 2025.