Óðinn fjallaði um miðjan júní um kaup Vátryggingarfélagi Íslands á Fossum og velti fyrri sér hvort þetta hefðu verið verstu kaup og besta sala ársins 2023. Það mun auðvitað koma í ljós.

Viðskiptablaðið flutti í síðustu viku frétt af 216 milljóna króna tapi Íslenskra verðbréfa samkvæmt ársreikningi 2023. Skagi (áður VÍS) keypti félagið 97% hlut í félaginu á 1,6 milljarða en tilkynnt var um kaupin í maí.

Hlutabréf Skaga/VÍS hafa lækkað um tæp 9% í ár sem er minna en margra félaga í kauphöllinni.

Pistill Óðins er hér á eftir.

Óðinn fjallaði um miðjan júní um kaup Vátryggingarfélagi Íslands á Fossum og velti fyrri sér hvort þetta hefðu verið verstu kaup og besta sala ársins 2023. Það mun auðvitað koma í ljós.

Viðskiptablaðið flutti í síðustu viku frétt af 216 milljóna króna tapi Íslenskra verðbréfa samkvæmt ársreikningi 2023. Skagi (áður VÍS) keypti félagið 97% hlut í félaginu á 1,6 milljarða en tilkynnt var um kaupin í maí.

Hlutabréf Skaga/VÍS hafa lækkað um tæp 9% í ár sem er minna en margra félaga í kauphöllinni.

Pistill Óðins er hér á eftir.

Hvers vegna svo hátt verð?

Fáir á fjármálamarkaði skyldu hvers vegna VÍS keypti Fossa á svo háu verði. Í tveggja manna tali var sagt að þetta væru óskaplega góð kaup fyrir VÍS og menn ættu eftir að sjá dulin tækifæri í Fossum. Tíminn mun auðvitað leiða það í ljós.

Óðni væri alveg sama ef þarna væri Pétur að selja Páli. En lífeyrissjóðirnir áttu yfir helming hlutafjár í VÍS þegar kaupin áttu sér stað.

Tveir stórir einkafjárfestar voru í hluthafahópi VÍS þegar kaupin fóru fram. Þeim er eignaður heiðurinn af viðskiptunum, hvort það er með réttu eða röngu. Bjarni Ármannsson er sagður hafa farið þar fremstur meðal jafningja en félag hans Sjávarsýn er í dag næst stærsti hluthafi félagsins með 8,43% hlut. Litlu minni hlut en A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem á 8,55% hlutafjárins.

Hvernig var kaupverðið reiknað?

Þegar viðræður um kaupin hófust lá fyrir að Fossar töpuðu 87 milljónum króna fyrir skatta árið 2022. Það markverðasta sem gerðist á árinu var að tekjurnar lækkuðu um 15% en kostnaður hækkaði um 34%.

Ekki eru neinar beinar upplýsingar að finna í kynningu í fyrir hluthafafund frá síðasta sumri, en fundinum var ætlað að taka afstöðu til kaupsamningsins. Vissulega kom þar ýmislegt fram sem hefur áhrif á verð. Mikil samlegð og mikill tekjuvöxtur voru orð sem þar voru að finna en fátt sem hönd er leggjandi á.

Þar komu líka fram háleit markmið. Þar var gert ráð fyrir því að tekjur Fossa myndu 3,11 faldast á tímabilinu frá 2023 til 2025. Menn hefðu án nokkurs vafa fengið Bjartsýnisverðlaun Brøstes fyrir slíka list í eina tíð. En við skulum sjá.

***

Spennandi valkostur

Þegar tilkynnt var um viðræður sagði Stefán Héðinn Stefánsson, stjórnarformaður VÍS og fulltrúi lífeyrissjóðanna, þó aðallega Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, fátt um verðlagninguna. Í tilkynningunni eru bara frasar sem óvíst er að nokkurt hald sé í:

Hröð samfélags- og tækniþróun með aukinni fjártækni, nýrri samkeppni og dreifileiðum á markaði hefur umbreytt samkeppnisumhverfi trygginga- og fjármálamarkaða.

VÍS er í sterkri stöðu til að mæta og taka þátt í þessari þróun. Mikilvægt er að félagið sé skrefinu á undan og verði virkur þátttakandi í þróun fjármálastarfsemi hér landi, með áherslu á arðsaman vöxt og eignastýringu.

Fyrsta skrefið í að víkka út starfsemi félagsins á fjármálamarkaði var stofnun SIV eignastýringar — en með sameiningu við Fossa fjárfestingarbanka eru tekin markviss skref í átt að framtíðarsýninni, sem er að verða spennandi valkostur á íslenskum fjármálamarkaði, ásamt því að auka og efla tekjustoðir félagsins.

Í stuttu máli vill stjórnarformaðurinn að VÍS verði skrefinu undan — stórt og spennandi. Og reyndar með arðsaman vöxt. Það er ekki mikil hjálp í þessum texta við mat á kaupverði Fossa.

Markaðsaðstæðurnar

Núna kenna sömu menn, og sögðu kaupin góð, markaðsaðstæðunum um. En útlitið á mörkuðum var ekki sérstaklega gott þegar bindandi samningur komst á um kaupin.

Vaxtahækkanir Seðlabankans höfðu verið mjög brattar í meira en ár á undan og ekkert sem benti til þess á kaupsamningsdegi að verðbólga tæki að hjaðna og vextir að lækka.

Ef til vill gerðu menn sér vonir um að verðbólgan yrði ekki eins vond eins og varð en markaðsaðstæðurnar voru öllum kunnar. Að gera sér vonir um viðsnúning er mikið vanmat á eyðsluglöðum ráðherrum sem hafa kynt verðbólgubálið hressilega og engan bilbug á þeim að sjá.

Og allir vita ef vextir hækka þá lækkar eignaverð og það þrengir venjulega að fjármálafyrirtækjum sem treysta á þóknanir því enginn gerir neitt.

Enn verri afkoma

Ársreikningur Fossa fyrir árið 2023 hlýtur að hafa verið mikil vonbrigði fyrir þá sem studdu kaup VÍS á félaginu. Tekjur drógust lítillega saman en rekstrarkostnaður jókst verulega, eða um 550 milljónir króna. Tapið nam 723 milljónum króna fyrir skatta.

Óðinn ætlar að viðurkenna að hann kann ekki að verðmeta fyrirtæki sem skilar 723 milljóna í tapi. En ljóst er að Fossar hefðu þurft verulegt nýtt hlutafé í fyrra hefði VÍS ekki keypt félagið.

Afkoma samstæðunnar slök

VÍS skilaði 135 milljóna króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi. Markaðsaðstæðurnar eru enn krefjandi en tryggingareksturinn er einnig slakur.

Óðinn tók eftir misræmi við mat á hlutabréfum í Controlant. Sjóvá mat hlutabréf í Controlant á 105 í ársreikningi 2023 en tók verðið niður í 85 á fyrsta ársfjórðungi.

VÍS mat Controlant á sama gengi og Sjóvá í ársreikningi 2023 en birti óbreytt verð í uppgjöri 1. ársfjórðungs.

Hefði VÍS farið sömu leið og Sjóvá hefði bókfært tap af bréfunum í Controlant orðið 166 milljónir króna og tap af rekstri Skaga samstæðunnar, eins og VÍS heitir nú, að upphæð 31 milljón króna.

Spurningin er hvers vegna munar fimmtungi á mati tryggingarfélaganna tveggja á hlutabréfunum í Controlant.

Síðustu viðskipti sem Óðinn hefur heyrt um í félaginu eru í kringum 70.

Hvaða upplýsingar áttu menn þá að notast við ákvörðunina?

Óðinn er löngu hættur að lesa fyrirvarann í lok fjárfestakynninga og efast um að nokkur geri það nema einhverjar skrifstofublókir á Fjármálaeftirliti Seðlabankans löngu eftir að kynningarnar hafa verið gefnar út.

En gerði óvart undantekningu. Í fjárfestakynningunni í aðdraganda hluthafafundar VÍS þar sem tekin var ákvörðun um kaupin á Fossum voru lokaorðin, fyrirvarinn, þessi:

Áætlanir sem settar eru fram í kynningu þessari, þ.m.t. áætlanir sem lúta að tekjum, arðsemi og vexti Fossa fjárfestingabanka hf. (Fossar), VÍS og tengdra félaga til framtíðar, eru eingöngu ætlaðar til upplýsingagjafar en ekki sem grundvöllur að ákvörðunartöku.

Upplýsingarnar eru svo almennar að á grundvelli þeirra verða ekki dregnar ályktanir um verðmyndandi áhrif á fjármálagerninga útgefna af VÍS eða fjármálagerninga þeim tengdum, ef af viðskiptunum verður.

Hvað varð um almenna skynsemi? Áttu hluthafarnir heldur að nota veðurspána sem grundvöll ákvarðanatöku?

Það er hins vegar rétt sem þarna kemur fram að upplýsingarnar voru almennar.