Willum Þór Willumsson á sex ára atvinnumannaferil að baki í Belarús, Hollandi og Englandi.

Hann átti afar gott tímabil með Breiðabliki, undir stjórn Ágústs Gylfasonar, sumarið 2018 þar sem hann skoraði sex mörk í nítján leikjum í efstu deild. Endaði liðið í öðru sæti með 44 stig, tveimur stigum á eftir deildarmeisturum Vals.

Var þetta fyrsta tímabilið sem Willum spilaði reglulega í meistaraflokki en fyrir það hafði hann spilað níu leiki í efstu deild, þar af fjóra sem byrjunarliðsmaður.

Snemma árs 2019 fór hann síðan út í atvinnumennsku til BATE Borisov í Belarús, tvítugur að aldri. Spurður hvort það hafi alltaf legið fyrir að hann myndi spila í atvinnumennsku segist Willum alltaf hafa haft mikla trú á sjálfum sér, þrátt fyrir að hafa komið frekar seint inn í meistaraflokk.

„Ég vissi alltaf sjálfur að ég myndi fara út, ég ætlaði mér alltaf að verða atvinnumaður. Ég hef alltaf verið með góða tækni og var góður í fótbolta þegar ég var yngri.“

„Hins vegar var ég seinþroska, sem gerði það að verkum að ég var kannski ekki alltaf í A-liðinu í yngri flokkum. Ég var líka frekar seinn að koma mér upp í meistaraflokk og var ekki valinn í U17. Ég byrjaði aðeins að fá tækifærin í U19 og síðar með U21, þó að það hafi komið frekar seint hjá mér miðað við hjá öðrum,“ bætir Willum við.

Hann segir BATE hafa verið mest spennandi kostinn á borðinu á sínum tíma. Hinir kostirnir hafi verið að leika áfram með Breiðabliki í efstu deild eða fara til Spezia í B-deildinni á Ítalíu.

„Ég var kominn með tilboð frá Spezia sem mér fannst ekki nógu spennandi, og þeir voru ekki að bjóða mér neinn sérstakan samning á þessum tíma. Annars var þetta meira bara áhugi hér og þar, en ekkert „concrete“, og stefndi allt í annað tímabil á Íslandi.“

„Áhuginn frá BATE kom síðan upp og þeir buðu mér að koma út að horfa á liðið spila við Arsenal í Evrópudeildinni, sem fór 1-0 fyrir BATE. Ég kíkti á æfingasvæðið og þeir buðu mér samning á meðan ég var úti, sem var mjög flottur samningur fyrir leikmann í íslensku deildinni,“ segir Willum.

Nánar er rætt við Willum í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út mánudaginn 30. desember. Áskrifendur geta lesið blaðið hér og viðtalið í heild sinni hér.