Stjórnendur finnska farsímaframleiðandans Nokia kynntu þrjá nýja farsíma á farsímaráðstefnunni Mobile World Congress sem hófst í Barcelona á Spáni í dag. Nýbreytnin sem símarnir búa yfir er sú að þeir keyra allir á Android-stýrikerfinu frá Google. Tækniskríbentar benda sérstaklega á þetta enda stutt í að Microsoft ljúki yfirtökunni á Nokia.
Símar Nokia hafa fram til þessa keyrt ýmist á Symbian-stýrikerfi Nokia en snjallsímarnir flestir á Windows-stýrikerfi Microsoft. Stýrikerfið í nýju símunum er útgáfa Nokia á Jelly Bean-útgáfu Android-stýrikerfisins. Notendur síma sem keyra á því kerfi munu ekki hafa aðgang að netverslun Google, Play store heldur aðeins netverslun Nokia og öðrum smáforritabúðum en alla jafna tíðkast.
Notendaumhverfi símanna minnir ekkert á þá síma sem keyra á Android-stýrikerfinu. Miklu frekar líkist það einhverri annarri og einfaldari útgáfu af Windows-stýrikerfinu.