Flestir borgarbúar þekkja vel til bygginga hans og tengja þær gjarnan eigin minningum og reynslu. Allmargir einstaklingar hafa stigið sín fyrstu spor á námsbrautinni í skólum sem hann hannaði, átt bernskuár í hverfum sem hann skipulagði eða átt heimili í húsum sem hann teiknaði. Verk Einars lifa góðu lífi enn þann dag í dag, okkur til ánægju og yndisauka.

Einar fæddist í Reykjavík árið 1906. Hann lauk stúdentsprófi frá stærðfræðideild Menntaskólans í Reykjavík árið 1926 og hélt að því loknu til Þýskalands. Einar var fyrstur íslenskra arkitekta til að sækja menntun til Þýskalands og lauk hann námi í húsagerðarlist við tækniháskólanum í Darmstadt árið 1932.

Menntun Einars skapaði honum sérstöðu meðal íslenskra arkitekta. Hann var fyrsti Íslendingurinn sem hlaut menntun í fagurfræðilegri mótun borga sem voru í anda rótgróinnar, evrópskrar skipulagshefðar. En fram til þessa höfðu norræn áhrif verið ríkjandi í íslenskri húsagerð.

Einar fluttist heim til Reykjavíkur að námi loknu og stofnaði teiknistofu ásamt Sigmundi Halldórssyni húsameistara. Á fjórða áratugnum unnu þeir að mörgum húsum og byggingum borgarinnar.

HUGMYNDAFRÆÐINGUR FUNKISSTEFNUNNAR

Ákveðin þáttaskil urðu hér á landi um 1930 er áhrif funksjónalismans fór að gæta. Hugtakið er yfirleitt notað um byggingalist og hönnun módernismans fram að seinni heimsstyrjöld. Einkenni stefnunnar tóku brátt að setja svip sinn á húsagerð og arkitektar beittu sér í auknum mæli að fagurfræði einfaldleikans og nytsemi.

Einar var einn helsti boðberi og hugmyndafræðingur funkisstefnunnar í íslenskri húsagerð. Stefnan hafði mikil áhrif á byggingarlist hér á landi þar sem krafan um hagræði og notagildi var lögð til grundvallar í formrænni mótun.

Það sem einkennandi fyrstu verk Einars voru einföld og teningslaga húsform, vandaðar tæknilegar útfærslur og næmni fyrir stærðarhlutföllum og samstillingu sem og einstök lagni hans við niðurröðun glugga á veggflöt.

Eitt af mikilvægustu atriðum við fyrirkomulag hvers íbúðarhúsnæðis að mati Einars var að hvert herbergi væri hannað með dagsbirtu og sólarljós í huga, þannig mætti tryggja almenningi sjálfsagðan rétt til bjartari og heilsusamlegri híbýla.

Fyrsta hús Einars eftir námið í Þýskalandi var Freyjugata 43 í miðborg Reykjavíkur en það var byggt árið 1933. Húsið bar öll einkenni funkisstefnunnar að innan sem utan, þar sem byggingartækni og efniviður héldust í hendur á látlausan og listrænan hátt.

HÚSAMEISTARI REYKJAVÍKUR

Árið 1934 var Einar ráðinn af Bæjarráði Reykjavík- ur til þess að vinna að skipulagi og öðrum húsameist- arastörfum fyrir borgina. Hann hafði jafnframt yfirumsjón með skipulagsmálum Reykjavíkur til ársins 1949.

Einar var afkastamikill í starfi sínu sem húsameistari og átti stóran þátt í að móta ásýnd Reykjavíkur tuttugustu aldar. Hann ásamt samferðamönnum sínum vann markvisst að skipulagi fjölmargra íbúðahverfa borgarinnar. Á starfsævi sinni teiknaði hann og skipulagði helstu hverfi borgarinnar eins og Norðurmýrina, Vesturbæinn, Hlíðarhverfið, Vogana, Laugarnesið, Túnin og Smáíbúðahverfið. Einar gegndi embætti Húsameistara Reykjavíkur allt til æviloka árið 1973.

ARKITEKTINN OG FAGURKERINN

Fyrsta verk Einars sem hann fékk í hendur sem húsameistari Reykjavíkur var bygging barnaskóla í Laugarnesinu árið 1934. Skólinn hlaut nafnið Laugarnesskóli og var tekin í notkun árið 1944. Einar teiknaði einnig Melaskóla árið 1945.

Mjög var vandað til verka við byggingu skólanna og sérstök alúð lögð í innviði þeirra. Einar var fagurkeri af lífi og sál og mikill áhugamaður um listir. Hann átti iðulega frumkvæði að því að listamenn væru fengnir til að vinna verk í byggingar hans. Við hönnun skólanna fékk Einar til lið við sig listamenn eins og Ásmund Sveinsson myndhöggvara, Jóhann Briem listmálara og Barböru Árnason myndlistarkonu en einnig fékk hann húsgagnaarkitekta til að hanna húsgögn og innréttingar.

Á sjötta og sjöunda áratugnum teiknaði Einar margar aðrar skólabyggingar, þar má nefna Langholtsskóla, Laugarlækjaskóla, Vogaskóla og Breiðagerðisskóla.

BRAUTRYÐJANDI Í HÖNNUN FJÖLBÝLISHÚSA

Á árunum 1942-1949 var mikill skortur á íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Til að bregðast við þessum vanda var hafist handa við að byggja stór fjölbýlishús með vönduðum íbúðum fyrir almenning.

Einar Sveinsson var sannur brautryðjandi í hönnun fjölbýlishúsa hér á landi. Hann var meðal annars höfundur að fjölbýlishúsum við Hringbraut, Skúlagötu og Lönguhlíð. Með þessum byggingum var farið inn á nýjar brautir í úrlausn húsnæðismála borgarinnar, bæði hvað varðar ytra skipulag og innri tilhögun bygginga. Einar teiknaði og hannaði einnig fjölda glæsilegra einbýlishúsa í höfuðborginni.

Hönnun opinberra bygginga á vegum Reykjavíkurborgar var einn umfangsmesti þátturinn í lífsstarfi Einars enda er hann hvað kunnastur fyrir verk sín á því sviði.

Þekktustu byggingar Einars eru til að mynda Heilsuverndarstöð Reykjavíkur við Barónsstíg sem hann teiknaði á árunum 1949 - 1955. Hann hannaði einnig Sundlaugina í Laugardal sem var byggð á árunum 1954-1966. Borgarspítalinn í Fossvogi er stærsta verk Einars en bygging spítalans hófst árið 1950 og var formlega lokið árið 1973.

FRUMKVÖÐULL OG SANNUR HUGMYNDAFRÆÐINGUR

Einar Sveinsson lifði fyrir starf sitt. Hann kom fyrir sem hæglátur og hlédrægur maður og hafði sig lítið í frammi á mannamótum fyrir utan vinnutíma. Hann var duglegur og afkastamikill í starfi sínu sem arkitekt og eyddi oft löngum stundum á vinnustofu sinni eða við skrifborðið á heimili sínu á Bergþórugötu 55. Á langri starfsævi átti Einar fjöldann allan af hæfileikaríkum samferðamönnum sem unnu með honum að byggingum og skipulagsmálum borgarinnar.

Einar Sveinsson er án efa einn af okkar ástsælu arkitektum. Hann var einn af okkar fyrstu arkitektum sem luku námi erlendis. Hann var farsæll á fjörutíu ára starfsævi og eftir hann liggja margar af fallegustu byggingum og hverfum Reykjavíkur. Einar var frumkvöðull og sannur hugmyndafræðingur en með verkum sínum átti hann stóran þátt í mótun nýs byggingarstíls sem honum tókst að aðlaga að íslenskum aðstæðum. Það má því með sanni segja að Einar hafi átt ríkan þátt í að móta ásýnd Reykjavíkur tuttugustu aldar.