Þátttaka Bandaríkjanna í síðari heimsstyrjöldinni var almennt talin vera nauðsynleg og siðferðislega rétt ákvörðun. Afstaða og stuðningur Bandaríkjamanna varð þá enn skýrari þegar útrýmingarbúðir nasista fundust.

Í bókinni sinni, America First, minnir rithöfundurinn H.W. Brands okkur hins vegar á að áður en árásin átti sér stað á Perluhöfn naut einangrunarstefna Charles Lindbergh mikils stuðnings í Bandaríkjunum.

Fréttamiðillinn WSJ tók nýlega bókina fyrir en hún kemur út samhliða svipaðri stefnubreytingu verðandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump. Bandaríkin virðast vera orðin þreytt á afskiptasemi víða um heim en mörgum þjóðum er enn stjórnað af einræðisherrum.

Brands dregur upp tvær mismunandi myndir, í fyrsta lagi af stefnu Franklin D. Roosevelt og síðan af Lindbergh. Hann gagnrýnir stefnu Roosevelt að vissu leyti með því að segja að hann hafi vitað að Bandaríkin væru á leið í stríð og að afstaða Lindbergh hafi verið að Bandaríkin væru örugg svo lengi svo Japanir og Þjóðverjar héldu sig utan Norður-Ameríku.

Lindbergh, sonur þingmanns frá Minnesota, gerði garðinn frægan þegar hann flaug frá Bandaríkjunum til Parísar árið 1927, þá aðeins 25 ára gamall. Eftir að syni hans var rænt varð hann og kona hans fyrir miskunnarlausu áreiti fjölmiðla og flúðu þau til Englands en sneru svo aftur á þriðja áratugnum.

Áður en langt um leið fór Lindbergh að nýta frægð sína til að tala gegn stefnu Roosevelt um undirbúning á stríði. Hann mótmælti meðal annars í útvarpsávörpum og líkti forsetanum við einræðisherra.