Nýjasta bók á vinsældarlista WSJ sem miðillinn mælir með fjallar um áratuga löng átök sem áttu sér stað í ekki nema tveggja klukkustunda flugferð frá Íslandi.
Bókin Four Shots in the Night eftir Henry Hemming fjallar um átökin á Norður-Írlandi sem hófust seint á sjöunda áratug seinustu aldar og enduðu svo árið 1998 með föstudagssáttmálanum.
Stríðið milli kaþólskra lýðveldissinna og sambandssinna sem voru af mótmælendatrú er ekki aðeins svartur blettur á sögu Norður-Írlands, heldur er stríðið enn til staðar víðs vegar um landið.
Í borginni Belfast liggja múrar sem skilja að hverfi kaþólikka og mótmælenda, börn fara enn í skóla samkvæmt sinni trú og það sama má segja um fullorðið fólk og þá bari sem það sækir.
„Fortíðin er hér og hún mun ekki fara fyrr en við höfum séð hana,“ skrifar Henry Hemming í bókinni sinni, sem WSJ lýsir sem bestu bók um Norður-Írland frá því bók Patrick Radden Keef, Say Nothing, kom út árið 2018.
Bókin fjallar um hlutverk uppljóstrara í stríðinu sem unnu fyrir bæði breska herinn og írska lýðveldisherinn. Hemming vitnar í háttsettan leyniþjónustumann sem fullyrðir að einn af hverjum þremur leiðtogum innan IRA hafi annaðhvort unnið náið með Bretum eða undir þeim.
Stríðið á Norður-Írlandi leit í rauninni meira út eins og húskarlavígin úr Njálu en þegar einn úr einu liðinu var drepinn, var hefnt fyrir það daginn eftir. Það skipti engu máli hvort sá aðili hafi tengst fyrri árásinni eða ekki.
Það sama mátti segja um uppljóstrara en þeir sem stunduðu slíkt á stríðsárunum voru nánast samstundis teknir af lífi þegar stríðandi fylkingar komust upp um þá. Four Shots in the Night fer vandlega í gegnum þessa sögu og leitar aðeins að sannleik málsins.