Það verður sífellt erfiðara fyrir fólk í nútímasamfélagi að freistast þæginda rafrænna greiðslna og fara aftur í að nota reiðufé. Með notkun snjallsíma og Apple Pay er líka varla lengur ástæða til að ganga um með veski á sér.
Höfundurinn Jay Zagorsky, prófessor við viðskiptaháskóla Boston, gaf hins vegar nýlega út bók sem ber heitið The Power of Cash. WSJ hefur tekið þessa bók fyrir en í henni hvetur Jay fólk til að berjast gegn rafrænum greiðslum og snúa aftur til reiðufjár.
Frá 2010 til 2018 starfaði Jay sem ráðgjafi hjá seðlabanka Boston þar sem hann rannsakaði greiðsluþróun almennings. Á þeim tíma voru margir Bandaríkjamenn að skipta yfir í rafrænar greiðslur, jafnvel fyrir minnstu dagsdaglegu kaup.
Árið 2015 sögðust 17,1% Bandaríkjamanna ekki ganga um með reiðufé og árið 2022 hafði sú tala meira en tvöfaldast í 34,6%. Meðal ungmenna á aldrinum 18 til 34 ára tvöfaldaðist einnig fjöldi þeirra sem notuðu ekki reiðufé á sama tímabili.
Ferðir í hraðbanka hafa einnig minnkað en árið 2009 námu hraðbankaúttektir um sex milljörðum talsins en árið 2021 voru þær komnar niður í fjóra milljarða.
Þróunin virðist þó gerast hraðar í sumum löndum frekar en öðrum. Í Japan virðist almenningur enn vilja halda fast í reiðufé en þar er hlutfallið 23%. Í Bandaríkjunum er talan hins vegar komin niður í 10% og eru Svíar komnir lengst í rafrænum greiðslum en þar segjast aðeins 1,3% ganga um með reiðufé.
Þjóðverjar elska einnig reiðufé en könnun frá 2021 sýndi að aðeins 4% Þjóðverja gengu ekki um með reiðufé og sögðust 30% þeirra telja að reiðufé væri betri greiðslumáti.
Höfundur nefnir nokkrar ástæður fyrir því að fólk ætti að nota reiðufé á ný. Í fyrsta lagi snýst það um öryggi. Hann spyr hvað myndi gerast ef það kemur jarðskjálfti eða ef óvinaþjóð ræðst gegn rafmagns- og samskiptaneti þjóðar.
Í öðru lagi eru það einkafjármálin en fólk hefur tilhneigingu til að finna meira fyrir kostnaði þegar það sér peninginn hverfa frekar en þegar það greiðir fyrir hlut rafrænt.
Jay bætir við að rafrænar greiðslur myndi einnig gögn sem smásalar nota til að sérsníða, og oft hækka, verð. Með notkun rafrænna greiðslna erum við því ekki aðeins að fórna friðhelgi einkalífsins, heldur erum við líka mögulega að láta svindla á okkur.