Baldvin Þorsteinsson, aðaleigandi Öldu Seafood, og Þóra Kristín Pálsdóttir greiddu 297,5 milljónir króna fyrir 302 fermetra einbýlishús að Selbraut 5 á Seltjarnarnesi. Húsið var áður í eigu Haraldar Þórðarsonar, forstjóra Skaga, og Ragnhildar Ágústsdóttur listamanns.
Viðskiptablaðið sagði í byrjun vikunnar frá kaupunum en kaupsamningur er nú aðgengilegur í fasteignaskrá HMS. Einbýlishúsið er eins og fyrr segir 302 fermetrar að stærð og nam fermetraverð því um 985 þúsund krónum. Baldvin og Þóra eru í dag með skráð lögheimili í Noregi.
Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir mánuði síðan var óskað tilboða í húsið, sem er 302 fermetrar að stærð, en gildandi fasteignamat hússins nemur 179,5 milljónum króna. Haraldur og Ragnhildur keyptu húsið árið 2015 fyrir 95 milljónir króna og hefur það verið endurnýjað samkvæmt lýsingu fasteignasölunnar sem sá um söluna.
Haraldur og Ragnhildur festu fyrr á árinu kaup á 467 fermetra einbýlishúsi að Blikanesi 21 á Arnarnesi í Garðabæ. Kaupverð hússins nam 335 milljónum króna.