Eggjapúns (e.eggnog) kemur upprunalega frá Bretlandi á miðöldum. Upphaflega var það kallað „posset“, heitur mjólkurdrykkur með áfengi og kryddi, notaður bæði til skemmtunar og lækninga. Þetta var dýr drykkur og var því yfirleitt tengdur við efri stéttir samfélagsins sem höfðu efni á mjólk, eggjum og sterku áfengi. Þegar drykkurinn barst til Ameríku á 18. öld þróaðist uppskriftin enn frekar, þar sem romm, sem var aðgengilegra, var notað í staðinn.
Eggjapúnsið varð sífellt tengdara jólunum, líklega vegna þess að mjólk og egg voru dýr hráefni sem fólk gat aðeins leyft sér á tyllidögum. Í Bandaríkjunum, þar sem mjólkur- og rjómaframleiðsla jókst, varð drykkurinn að hefð um jólin og er ennþá ein af þeim jólavenjum sem hafa orðið vinsælar á heimsvísu. Í dag er eggjapúnsið þekkt fyrir sitt rjóma- og eggjarauðubragð, oft með rommi eða viskíi fyrir smá hlýju, og er það stundum kryddað með kanil eða múskati.
Eggjapúns með jólaívafi
Þetta eggjapúns er rjómakennt og ilmar af jóla- og vanillubragði. Fullkomið til að njóta með skemmtilegum (og leiðinlegum) fjölskyldumeðlimum yfir hátíðarnar!
Hráefni:
4 stór egg
100 g sykur
500 ml nýmjólk
250 ml rjómi
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk kanill
1/2 tsk múskat
120 ml romm, viskí eða koníak (valfrjálst)
Aðferð:
Aðskiljið eggjarauður frá eggjahvítum og setjið eggjarauður í skál. Bætið sykri við eggjarauðurnar og þeytið þar til blandan er ljós og þykk, um það bil 2-3 mínútur. Hitið mjólk, rjóma, vanillu, kanil og múskat í potti við meðalhita þar til blandan fer að malla (ekki sjóða). Hellið heitu mjólkurblöndunni rólega saman við eggjablönduna í mjórri bunu, hrærið stöðugt. Setjið allt aftur í pottinn og hitið yfir meðalhita þar til blandan þykknar aðeins (um 5 mínútur). Ekki láta hana sjóða. Hellið í skál og hrærið rommi, viskí eða koníaki út í, ef þið viljið. Þeytið eggjahvítur þar til þær verða léttar og freyðandi, og blandið þeim varlega saman við drykkinn. Berið fram heitt eða kalt, með smá múskati stráð yfir.