Sky Harbor International flugvöllurinn í Phoenix í Arizona var á dögunum valinn besti flugvöllur Bandaríkjanna samkvæmt Wall Street Journal. Sky Harbor var einnig valinn besti flugvöllurinn árið 2019 rétt fyrir heimsfaraldur.

Ferðalangar virðast hafa mjög fátt slæmt að segja um flugvöllinn en hann býður upp á mikið úrval af flugfélögum og er mjög sjaldan seinkun á þeim vélum.

Í öðru sæti var Minneapolis-St. Paul flugvöllurinn og í þriðja sæti var flugvöllurinn í Los Angeles.

Árlega tekur fréttamiðillinn fyrir 50 stærstu flugvelli Bandaríkjanna og veitir þeim einkunn sem byggist á áreiðanleika, verðmætum og þægindum. Á þessu ári var nýjum mælikvarða bætt við sem byggist á þjónustu þegar kemur að mat, drykk, bílastæðum og salernum.

Flugvellirnir geta fengið allt upp í 100 stig en var þó enginn flugvöllur nálægt því að fá það hátt. Phoenix fékk til að mynda 63,4 stig og fengu minni flugvellir á borð við Sacramento og Indianapolis í kringum 70 stig.

Verstu flugvellirnir voru hins vegar þeir sem margir Íslendingar ættu að kannast við, Newark Liberty International og JFK-flugvöllurinn í New York. Flugvöllurinn í Dallas/Fort Worth var einnig meðal verstu flugvalla Bandaríkjanna en þessir þrír vellir eru þekktir fyrir seinkanir, óáreiðanleika og langar raðir.