Innan fjármálageirans og í skrifstofuheiminum hefur það lengi tíðkast að klæðast í skyrtu og bindi. Örlítil afturför hefur hins vegar orðið á þeirri tísku undanfarin ár og innan tæknigeirans er algengt að sjá forstjóra gangandi um í hettupeysum.
WSJ ræddi hins vegar við nokkra unga starfsnema og starfsmenn og komst að því að skyrtur og bindi eru komin aftur í tísku.
Einn af þeim sem tekur þessum klæðaburði fagnandi er hinn 21 árs Ryan Klein. Hann er starfsnemi Repúblikanaflokksins og er að læra í Pennsylvania State University. Ryan segist hafa verið hissa hversu frjálslegt fólk var farið að klæða sig á formlegum stöðum.
Hann var gjarnan betri til fara en margir háttsettir embættismenn í bandaríska þinghúsinu. „Bindið setur mig í hugarfarið: Hey, ég ætla að fara að gera eitthvað fagmannlegt í dag,“ segir Ryan sem ætlar að starfa áfram í Washington eftir útskrift.
Ami Vyas er önnur sem klæðist bindi en hún starfar hjá Canadian Western Bank. Fyrir rúmu ári síðan byrjaði hún að fá bindi lánuð hjá eiginmanni sínum og fór að taka eftir því að fólk leitaði meira til hennar með vinnutengd verkefni.
Hún hefur nú keypt sér nokkur bindi frá Banana Republic og Shein og segist klæðast bindi að minnsta kosti einu sinni í viku. „Ég set bindi á mig þegar ég funda með stjórnendum eða mögulegum viðskiptavinum,“ segir Ami.