Elísabet Metta Ásgeirsdóttir er 28 ára eiginkona og móðir úr Kópavogi. Hún er stofnandi og eigandi Maika‘i. „Það er svona það sem ég geri flest alla daga. Hvort sem það er að senda reikninga, panta jarðaber, búa til vaktarplan eða taka upp efni fyrir samfélagsmiða,“ segir Elísabet Metta.

Hún elskar góðan mat og falleg húsgögn og segir að hún myndi líklega vinna við eitthvað tengt innanhúshönnun ef hún væri ekki með Maika‘i.

Elísabet Metta er næsti viðmælandi í liðnum „Draumafríið“.

Ertu dugleg að taka þér frí og ferðast?

Nei ég myndi ekki segja það. Við Áki höfum verið svo upptekin síðustu ár frá því að við opnuðum Maika‘i að það hefur ekki verið mikið um frí síðan við opnuðum fyrsta staðinn okkar. En við erum einmitt að reyna byggja okkur upp það líf að við getum einn daginn leyft okkur að fara í fleiri og lengri frí.

Hvað er þitt uppáhalds frí hingað til?

Þegar ég fór til Balí með þremur vínkonum mínum árið 2016, ég hef aldrei notið mín eins mikið og í þeirri ferð og ég get ekki beðið eftir að fara þangað aftur einn daginn.

Hver er drauma áfangastaðurinn?

Ég myndi segja að það væri svipaður staður og Balí en samt staður sem ég hef ekki komið til áður eins og Tæland. Mig langar rosalega að fara með Áka manninum mínum og stráknum okkar í svona mánaðarferð til Tælands.

Hver er drauma félagsskapurinn í fríið?

Það væri maðurinn minn og Viktor Svan strákurinn okkar, við elskum að ferðast saman og mér líður best þegar við erum öll saman.

Svo eru auðvitað gaman að hafa vini líka, við ferðumst mikið með okkar nánasta hring og það er alltaf jafn gaman.

Lýstu hinum fullkomna degi í fríinu þínu.

Ég vil voða mikið slaka á í mínum fríum og njóta í sólinni. Ég myndi segja að það væri dagur sem væri ekki mikið skipulagður heldur bara þar sem ég gæti slakað á í sólbaði og hlusta á eitthvað gott podcast, svo væri hrikalega gott að enda daginn á góðum kvöldmat.