Skammt frá höfuðborg Bandaríkjanna, Washington D.C, er að finna eitt dýrasta einbýlishús Virginíuríkis sem nýlega seldist á 25,5 milljónir Bandaríkjadala sem samsvarar um 3,5 milljörðum króna á gengi dagsins.
Samkvæmt The Wall Street Journal er um að ræða eitt hæsta kaupverð á fasteign á svæðinu en eignin var upphaflega auglýst til sölu á 39 milljónir dala árið 2022.
Seljandi eignarinnar er Roger Mody, fyrrum forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Signal og meðeigandi að NBA-liðinu Wasthington Wizards.
Mody borgaði um fimm milljónir dala fyrir landið undir fasteignina árið 2013 sem er um fimm ekrur. Samkvæmt WSJ tók um átta ár að fullklára framkvæmdir á svæðinu.
Samkvæmt WSJ ríkir töluverð leynd yfir kaupandanum og hefur viðskiptamiðlinum ekki tekist að komast að því hver keypti eignina.

Fasteignin er um þrjú þúsund fermetrar með átta svefnherbergjum, körfuboltavelli og útsýni yfir Potomac-ánna.
Hægt er að sjá fleiri myndir hér.