Bernie Ecclestone hefur reynt að freista formúluliðanna frá því að slíta sig úr tengslum við Formúlu-1 með því að stofna til nýrrar mótarðar undir verndarvæng samtaka bílsmiða í greininni, GPWC, með því að bjóða þeim 300 milljónir punda, jafnvirði rúmlega 36 milljarða íslenskra króna. Ecclestone býður greiðsluna þrátt fyrir að borgardómur í London hafi í byrjun vikunnar dæmt hann að kröfu þriggja banka frá yfirráðum í eignarhaldsfélagi sem á viðskiptaréttindi formúlunnar. Ecclestone lagði tilboðið fram á fundi liðsstjóra formúlunnar í London á mánudag. Sagðist hann Þar reiðubúinn að leggja peningana á borðið til að koma í veg fyrir klofning. Með því vill hann freista liðanna þar sem stofnun GPWC-mótanna er af fróðum talin myndu leiða til endaloka Formúlu-1 þar sem lið á borð við Ferrari, McLaren, Williams, Renault, Toyota og líklega BAR myndu hverfa úr greininni.

Óánægjan mikil

Með því yrði hlutafjáreign Ecclestone og bankanna þriggja í SLEC-fyrirtækinu, sem á viðskiptaréttindi Formúlu-1, verðlaus. Með peningunum sem hann býður liðunum nú myndu tekjur þeirra í raun tvöfaldast. Ástæður hughvarfs Ecclestone varðandi greiðslur til liða liggja ekki fyrir en ekki þykir fróðum óvarlegt að ætla að bankarnir þrír hafi knúið hann til aukinnar mildi og minni síngirni. Hefur óréttlát skipting arðs af viðskiptaréttindum formúlunnar - svo sem sjónvarpsréttindum og hvers kyns sölumennsku annarri - verið uppspretta mikillar óánægju meðal liðan og í raun eini hvatinn að stofnun GPWC. Bernie Ecclestone mun hafa sett það sem skilyrði á fundi með liðsstjóranum að skerfur liðanna yrði því aðeins aukinn að þau skuldbindi sig til nýs Concorde-samnings um áframhaldandi keppni í Formúlu-1.