Sýningin er hluti af HönnunarMars 2025. Þar eru kynnt gagnvirk verk, fyrirlestrar og skapandi framtíðarsýn sem endurspegla stöðu og upplifun þeirra í faginu. Sýningargestir fá innsýn í orðræðu, áskoranir og vonir fyrir þróun greinarinnar í opnu og lifandi samtali. Íris Ösp Sveinbjörnsdóttir, einn af meðlimum Grapíku Íslandica, deilir með okkur hugmyndafræðinni á bakvið sýninguna.
Hver var kveikjan að sýningunni SÖLTUÐ PÍKA, og af hverju fannst ykkur mikilvægt að varpa ljósi á stöðu kvenna og kvára í grafískri hönnun?
Við viljum fagna fjölbreytileikanum, hæfileikunum og samstöðunni innan grafískrar hönnunar á Íslandi. Við erum á svo merkilegu kvennaári – 2025 markar tímamót og við í stjórn viljum vinna að því að gera konur og kvár í grafík enn meira áberandi í samfélaginu. Á árinu verða 50 ár síðan konur lögðu fyrst niður störf 24. október 1975. Við erum með kvenkyns forseta, forsetisráðherra, biskup, landlækni, borgarstjóra og lögreglustjóra svo eitthvað sé nefnt. Þvílík skilaboð sem við erum að senda út í heim! Þrátt fyrir að enn sé verk að vinna, höfum við náð góðum árangri, og það er akkúrat það sem sýningin snýst um – að fagna því sem við höfum byggt upp og beina augunum að enn bjartari framtíð. Sýningin er hugsuð sem vettvangur fyrir samtal, innblástur og tengingar milli ólíkra hópa og kynslóða hönnuða.
Nafnið á sýningunni er áberandi og sterkt – hvaða merkingu hefur það í samhengi við efnið sem fjallað er um?
„SÖLTUÐ PÍKA“ er bæði valdeflandi og kómískt. Það er húmor í þessu – ákveðin hliðstæða við „súra punga“ – en við eigum ekki að þurfa að taka okkur of alvarlega til að vera teknar alvarlega. Þetta nafn speglar seigluna og gleðina sem einkennir konur og kvár í skapandi greinum. Við viljum ekki dvelja í fortíðinni, heldur nýta söguna til að byggja upp sterkara og betra skapandi samfélag fyrir framtíðina.
Viðtalið við Írisi Ösp er að finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út á miðvikudag.
Hér er viðtalið í heild fyrir áskrifendur Viðskiptablaðsins.