Orkufyrirtækið Enex hefur undirritað samning við Skýrr um innleiðingu á fjárhags- og mannauðslausnum Microsoft Dynamics NAV að því er kemur fram í frétt frá Skýrr.
Samhliða innleiðingu Microsoft Dynamics NAV verður innleidd Microsoft-samhæfð verkefnisstjórnunarlausn frá TopSolutions í Danmörku. Um er að ræða lausn, sem hentar sérstaklega vel fyrir orkufyrirtæki, verkfræðistofur, arkitekta, tæknifræðinga og tengda starfsemi. Lausnin er vottuð af Microsoft og samhæfð við skyldan búnað, svo sem Microsoft Project.
Að sögn Péturs Stefánssonar, fjármálastjóra Enex, réði það mestu um valið á Microsoft Dynamics NAV frá Skýrr að lausnin er hagkvæm, sveigjanleg og samhæfð við umrædda Microsoft-lausn á sviði verkefnisstjórnunar. "Enex leggur áherslu á fagmennsku samstarfsaðila og fyrsta flokks þjónustu. Við teljum að Skýrr standi undir þeim markmiðum," segir Pétur Stefánsson, fjármálastjóri Enex (sjá mynd).
"Enex er afar framsækið í notkun upplýsingatækni. Fyrirtækið starfar víða um heim að fjölbreyttum virkjanaframkvæmdum á sviði jarðvarma, meðal annars í Bandaríkjunum, El Salvador, Kína, Þýskalandi, Ungverjalandi og Slóvakíu. Skýrr býður margvíslegar sérlausnir fyrir Microsoft Dynamics, til dæmis sérstaka verkefnisstjórnunarlausn, sem hentar vel fyrir Enex. Við hlökkum til að takast á við þetta spennandi verkefni," segir Laufey Jörgensdóttir, sölustjóri hjá Skýrr (sjá mynd).
Enex var stofnað til þess að samræma aðgerðir eigenda sinna til útflutnings á þekkingu og til verðmætasköpunar erlendis í krafti þekkingar og reynslu íslenskra fyrirtækja og stofnana á sviði vatnsafls og jarðvarma. Fyrirtækiðkemur að verkefnum með ráðgjöf, hönnun, verktöku, fjármögnun að hluta eða öllu leyti og rekstri orkuvera. Enex er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar, ÍSOR, Hitaveitu Suðurnesja, Glitnis, Jarðborana og fjölda íslenskra verkfræðistofa og fyrirtækja á sviði orkunýtingar. Framkvæmdastjóri Enex er Lárus Elíasson.
Skýrr hf. er eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði upplýsingatækni, með yfir 200 starfsmenn og liðlega 2.300 viðskiptavini. Meðal samstarfsaðila Skýrr í þekkingariðnaði eru Microsoft, Oracle, VeriSign og Business Objects. Fyrirtækið er vottað samkvæmt alþjóðlega gæðastaðlinum ISO 9001. Þjónusta fyrirtækisins er í meginatriðum tvíþætt og skiptist í hugbúnaðaðar- og rekstrarþjónustu. Forstjóri Skýrr er Þórólfur Árnason.