Hjúkrunar- og kynfræðingurinn Áslaug Kristjánsdóttir hefur gefið út bókina Lífið er kynlíf en hugmyndin að bókinni spratt upp eftir að skjólstæðingar hennar fóru að spyrja út í lesefni sem hægt væri að nýta samhliða ráðgjöf á stofu hennar.
„Ég hef getað vísað fólki á erlendar bækur en fannst vanta bók á íslensku. Mér fannst líka ástæða til að svipa hulunni af því sem gerist í kynlífsráðgjöf,“ segir Áslaug.
„Þetta er eins og að hafa kynlífsráðgjafa alltaf við höndina.“
Bókin er sex kaflar og er byggð upp eins og ég vinn sambands- og kynlífsráðgjöf. Í hverjum kafla er þema og dæmisaga um par sem er að glíma við það þema. Lesandinn fylgir parinu í gegnum kaflann og fær innsýn í hvað er hægt að gera til að takast á við sambandið og kynlífið. Í bókinni er líka að finna æfingar sem pör geta gert á sínum forsendum heima fyrir.
„Þetta er eins og að hafa kynlífsráðgjafa alltaf við höndina.“
Hún segir mikilvægi kynlífs í ástarsamböndum vera óumdeilt og að erfiðleikar í kynlífi geti orðið banabiti sambanda sem að öðru leyti eru farsæl og hamingjurík. Erfiðleikarnir geta stafað af þekkingarleysi en óraunhæfar hugmyndir um kynlíf og kynhegðun fá mikið vægi í samfélaginu á kostnað traustra aðferða við að bæta kynlífið.
Að sögn Áslaugar hefur bókin fengið góðar viðtökur. Lesendur hafa verið ánægðir með bókina og eins hefur sala hennar gengið vel. „Mér sýnist að til staðar sé áhugi á efni sem styður við pör í langtímasamböndum.“
Áslaug útskrifaðist með BSc í hjúkrun frá HÍ 2002, Master of Forensic Sexology frá Curtin háskóla Perth Ástralíu 2006, lærði kynlífsráðgjöf í Relate Institute og Hull háskóla í Bretlandi og útskrifaðist árið 2012. Hún er þar að auki gift og er þriggja barna móðir.