Svissneska tennisstjarnan Roger Federer er kominn í fámennan hóp íþróttamanna með auðæfi sem metin eru á einn milljarð dala eða meira.

Einungis Michael Jordan, LeBron James og Tiger Woods eru ofar á auðmannalista Bloomberg.

Federer vann 20 stórmót (e. Grand Slams) á árunum 2003-2018. Hann lagði spaðann á hilluna árið 2022 eftir glæstan 24 ára atvinnumannaferil.

Auður Federer er metinn á 1,3 milljarða dala eða yfir 150 milljarða króna. Auðæfi hans eru að stórum hluta rakin til stórra styrktarsamninga, þar á meðal við Rolex, Credit Suisse, og svissneska súkkulaðiframleiðandann Chocoladefabriken Lindt & Sprungli.

Stærstu samningarnir voru undir lok ferilsins. Árið 2018 var samningur hans við Nike, sem hann hafði átt í samstarfi við frá árinu 1996, að renna út. Japanski fataframleiðandinn Uniqlo, bauð Federer, sem var þá 37 ára, 300 milljónir dala yfir 10 ára tímabil til að vera eitt af helstu andlitum á íþróttasviði tískumerkisins. Hann var ekki skuldbundinn til að spila sem atvinnumaður út samninginn.

Þetta er engu að síður ekki besti samningurinn sem Federer hefur gert, samkvæmt umfjöllun Bloomberg. Það ku vera kaup á 3% hlut í svissneska skóframleiðandanum On, sem fylgdi í kjölfar þess að eiginkona Federer prófaði að kaupa skópar þaðan.

On, sem var skráð á hlutabréfamarkað í New York árið 2021, er í dag metið á nærri 17 milljarða dala. Eignarhlutur Federer er metinn á yfir 500 milljónir dala.