Arco gólflampinn
Arco gólflampinn er talinn einstakt meistaraverk í fegurð sinni og einfaldleika sem einkennir hönnun hans. Ítalski iðnhönnuðurinn Achille Castiglioni var afkastamikill hönnuður á seinni hluta tuttugustu aldar. Hann lærði arkitektúr í Mílanó og brautskráðist árið 1944. Eftir seinni heimsstyrjöldina var Evrópa í molum og lítið var um verkefni fyrir nýútskrifaða arkitektinn. Castiglioni ákvað að ganga til liðs bræður sína sem höfðu nýlega stofnað iðnhönnunarstofu í Mílanó. Stofan hafði næg verkefni hjá framleiðendum í grenndinni sem voru smátt og smátt að koma fyrirtækjum sínum í gang að nýju eftir stríðið.
Ný tækni og efni höfðu þróast á stríðsárunum og voru hvati fyrir hönnuði sem leiddi á 7. og 8. áratugnum til frjórrar hönnunar og nýrrar vöru á markaði. Hönnunin varð bæði djarfari og skúlptúrískari en áður hafði þekkst. Hönnuðir og framleiðendur héldu sig ekki við einn stíl heldur varð fjölbreytnin allsráðandi. Húsgagnasalar stöfluðu upp skærum litum, rauðum og appelsínugulum plaststólum við hlið hefðbundnari húsgagna. Eftir erfiðleika stríðsáranna og fyrir tilstilli Marshall-aðstoðarinnar varð 7. áratugurinn tími efnahagslegs stöðugleika og velsældar.
Árið 1962 myndaði Castiglioni tengsl við ítalska ljósaframleiðandann Flos. Fyrirtækið var framsækið og óhrætt við að koma með nýja hönnun á markað. Það ruddi brautina fyrir samvinnu fyrirtækisins við þekkta hönnuði og tilraunaaðferðir til að framleiða nýstárlega lýsingu fyrir heimili og skrifstofur.
Þróun ryðfrís stáls hafði komið fram í Svíþjóð í seinni heimsstyrjöldinni. Svalir og rennilegir eiginleikar stálsins buðu upp á fullkomnar leiðir til að túlka anda 7. og 8. áratugarins. Árið 1963 leit Arco gólflampinn dagsins ljós. Lampinn var dæmigerður fyrir frumlega hönnun Castiglionis og óhefðbundið efnisval. Arco lampinn samanstóð af níðþungum Carrara-marmara sem myndaði nægilega þungt mótvægi við sveigðan stálarminn og álskerminn. Arco gólflampinn er tímalaus hönnun og hefur með árunum orðið að klassísku hönnunartákni.
Barcelona stóllinn
Barcelona stóllinn er eitt þekktasta húsgagn módernismans. Stóllinn var hannaður af þýska arkitektinum Ludwig Mies van der Rohe fyrir heimssýninguna í Barcelona árið 1929. Van der Rohe hannaði einnig sýningarskálann ásamt félaga sínum og samstarfsmanni, Lily Reich. Sýningarskálinn var glæsileg bygging í alla staði, hannaður úr dýrum efnum á borð við marmara og ónyx. Barcelona stólinn átti að nota sem hásæti fyrir spænsku konungshjónin þegar þau kæmu á sýninguna.
Stóllinn er vönduð og nútímaleg smíði úr massífri stálgrind og þykku leðri. Þessi blanda þæginda, lúxuss og einfaldleika hefur tryggt að hönnun stólsins hefur staðist tímans tönn. Barcelona stóllinn er eitt þekktasta húsgagn sem bandaríska hönnunarfyrirtækið Knoll hefur framleitt. Þökk sé tímalausri og stílhreinni hönnun þykir stóllinn enn þann dag í dag afar glæsilegur og mikil stofuprýði hvar sem er.
Bialetti kaffikannan
Allir kaffiunnendur ættu að þekkja vel til Bialetti kaffikönnunar. Mokka kaffikannan var hönnuð af ítalska verkfræðingnum Luigi Di Ponti árið 1933 og fellur því undir Art Deco-hönnun. Á þessu tímabili í hönnunar- sögunni leituðust vöruhönnuðir við að sameina form og notagildi í fallegum hlutum. Þeir notuðu ný og spennandi efni í hönnun sína á borð við plast, stál og ál.
Alfonso Bialetti var einnig verkfræðingur og álsmiður sem fékk stuttu síðar einkaréttinn á framleiðslu kaffikönnunar. Í dag er hún þekkt sem Mokka espressó kaffikannan og er eitt helsta tákn Bialetti fyrirtækisins. Efni og útlit hefur lítið breyst frá frumgerðinni frá árinu 1933 en það sem einkennir könnuna er hin átthyrnda lögun hennar.
Smeg ískápurinn
Um miðja 20. öld eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk, urðu töluverðar breytingar á nútímahönnun. Breytingin varð fyrst og fremst vegna þess að það þurfti að byggja upp eftir stríðið. Litið var á hönnun sem nauðsynlegan þátt í því að auka lífsgæði og skapa hlýlegt andrúmsloft á heimilum.
Margir arkitektar og hönnuðir sneru baki við einföldum, harðlínu-módernisma þriðja og fjórða áratugarins sem fólst í ströngum geómetrískum formum. Hönnuðir snéru sér þess í stað að mýkri formum, hönnunin varð léttari, litaglaðari og með vott af kímnigáfu en áfram var einfaldleikinn í aðalhlutverki. Þessi stíll er oft nefndur mjúk-módernismi. Smeg ísskápurinn tilheyrir mjúk-módernisma.
Ískápurinn er ítölsk hönnun frá árinu 1950 og hefur hann heillað unnendur innanhússtísku og hönnunar um langt skeið. Ísskápurinn er löngu orðinn að klassísku tískutákni. Það má því með sanni segja að Smeg ísskápurinn hafi lengi fangað athygli neytandans með sínum ávölu línum og einstöku litagleði.
Umfjöllunin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Eftir vinnu.