Flugleiðahótel hafa undirritað samning við Skýrr um uppfærslu og innleiðingu á viðskiptalausnum Microsoft Dynamics NAV og hótelbókunarkerfinu Cenium. Kerfin verða innleidd á 21 Flugleiðahóteli ásamt miðlægri bókunarskrifstofu hótelanna, segir í frétt frá Skýrr.
Skýrr er sölu- og þjónustuaðili fyrir Cenium og Microsoft-viðskiptalausnir. Cenium er heildstætt upplýsingakerfi fyrir hótel og ráðstefnusali. Það byggir á fjárhagskerfinu Microsoft Dynamics NAV.
"Flugleiðahótel gera miklar kröfur um gæði, hagkvæmni og þjónustustig til að sinna samstarfsaðila á sviði upplýsingatækni. Við hjá Skýrr erum því eðlilega stolt af samstarfinu við fyrirtækið. Þessi innleiðing mun fara fram á 21 hóteli, sem er ákveðin vísbending um styrkleika vörunnar fyrir dreifða starfsemi," sagði Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr, við undirritun samnings fyrirtækjanna.
Cenium sameinar í einu viðmóti lausn fyrir öll viðfangsefni hótela hvað snertir gestamóttöku, ráðstefnuhald og veitingar. Þetta á við um jafnt bókanir og sölu sem fjárhag. Annar styrkleiki Cenium er að kerfið er algjörlega samhæft Microsoft-lausnum og býður upp á tengingar við önnur Microsoft-sérkerfi, til dæmis afgreiðslu-, veitinga-, starfsmanna- og gjaldkerakerfi.
Cenium veitir heildræna yfirsýn á framboð og bókanir á herbergjum og ráðstefnusölum. Viðmót kerfisins er notendavænt og einfalt er að hafa umsjón með hvers kyns bókunum og verðsamningum. Cenium býður sömuleiðis upp á góðan sveigjanleika við uppgjör og brottför gesta. Möguleikar á upplýsingagjöf eru fjölbreyttir og rekjanleiki gagna er algjör.
Cenium er þróað af samnefndu fyrirtæki í Noregi og hefur verið í mótun frá árinu 1999. Það er í dag notað á yfir 150 hótelum á Íslandi, öðrum Norðurlöndum, í Rússlandi og Bandaríkjunum.
Flugleiðahótel ehf. er í eigu Icelandair Group. Fyrirtækið starfrækir átta Icelandair-hótel, þar á meðal Nordica hotel og Hótel Loftleiðir, ásamt því sem keðjunni tilheyra þrettán Eddu-hótel.
Skýrr er eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði upplýsingatækni, með um 210 starfsmenn og liðlega 2.300 viðskiptavini. Meðal samstarfsaðila Skýrr í þekkingariðnaði eru Microsoft, Oracle, VeriSign og Business Objects. Fyrirtækið er vottað samkvæmt alþjóðlega gæðastaðlinum ISO 9001. Þjónusta fyrirtækisins er í meginatriðum tvíþætt og skiptist í hugbúnaðaðar- og rekstrarþjónustu.