Í tímaritinu Áramótum, sem kom út 30. desember, er umfjöllun um 40 launahæstu atvinnumennina. Hér að neðan er hluti umfjöllunarinnar.

Fjölmargir íslenskir landsliðsmenn eru á mála hjá liðum í Bretlandi. Landsliðsmarkvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson skrifaði undir samning við enska úrvalsdeildarliðið Brentford í byrjun ársins. Brentford keypti hann frá sænska liðinu Elfsborg.

Hann var valinn besti markvörður sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Hann hélt oftar hreinu en nokkur annar (13 sinnum) og varði 78 prósent skota sem á hann komu sem var einnig það besta í deildinni. Elfsborg var nálægt því að vinna sænska titilinn en missti af honum undir lokin.

Hákon Rafn á enn eftir að leika fyrir Brentford í ensku úrvalsdeildinni en hann er annar markvörður liðsins. Hákon Rafn er með um 300 milljónir króna í árslaun á Lundúnaliðinu.

Guðlaugur Victor Pálsson gekk í raðir Plymouth í Championship deildinni ensku og leikur þar undir stjórn Wayne Rooney. Hann kom frá belgíska liðinu Eupen. Hann hefur erfitt með að festa sig í byrjunarliðinu hjá Plymouth sem er í fallbaráttu í Championship deildinni. Stefán Þórðarson er einnig í Championship deildinni en hann gekk til liðs við Preston.

Willum Þór Willumsson gekk til liðs við Birmingham sem leikur í ensku C-deildinni. Liðið er í toppbaráttu deildarinnar og er spáð upp um deild eftir að hafa fallið úr Championship deildinni í vor. Willum hefur spilað mjög vel með liðinu á fyrri hluta tímabilsins og er mjög vinsæll meðal stuðningsmanna þess.

Alfons Sampsted leikur sömuleiðis með Birmingham en hann er þar á láni frá Twente í Hollandi.

Jón Daði Böðvarsson gerði samning við velska knattspyrnufélagið Wrexham sem gildir til áramóta. Liðið leikur í ensku C-deildinni og er í toppbaráttunni þar eins og Birmingham. Eigendur Wrexham eru Hollywood-leikararnir Ryan Reynolds og Rob McElhenney.

Liðið hefur farið upp um tvær deildir á síðustu tveimur tímabilum og er mikil stemning í kringum liðið. Þar sem Jón Daði var samningslaus eftir veru sína hjá Bolton gat hann skrifað undir hjá Wrexham utan félagaskiptagluggans í byrjun október síðastliðnum.

Í tímaritinu Áramótum er listi yfir 40 launahæstu atvinnumennina. Hér að neðan má sjá tíu launahæstu:

  1. Jóhann Berg Guðmundsson Al-Orobah um 950 m. kr.
  2. Orri Steinn Óskarsson Real Sociedad um 440 m. kr.
  3. Hákon Arnar Haraldsson Lille um 350 m. kr.
  4. Albert Guðmundsson Genoa (Fiorentina lán) 350 m. kr.
  5. Hákon Rafn Valdimarsson Brentford um 300 m. kr.
  6. Aron Einar Gunnarsson Al Gharafa um 300 m. kr.
  7. Arnór Sigurðsson Blackburn um 200 m. kr.
  8. Kristian Hlynsson Ajax um 200 m. kr.
  9. Guðlaugur Victor Pálsson Plymouth um 200 m. kr.
  10. Alfreð Finnbogason KAS Eupen um 190 m. kr.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.