Í tímaritinu Áramótum, sem kom út 30. desember, er umfjöllun um 40 launahæstu atvinnumennina. Hér að neðan er hluti umfjöllunarinnar.
Fjölmargir íslenskir landsliðsmenn eru á mála hjá liðum í Bretlandi. Landsliðsmarkvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson skrifaði undir samning við enska úrvalsdeildarliðið Brentford í byrjun ársins. Brentford keypti hann frá sænska liðinu Elfsborg.
Hann var valinn besti markvörður sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Hann hélt oftar hreinu en nokkur annar (13 sinnum) og varði 78 prósent skota sem á hann komu sem var einnig það besta í deildinni. Elfsborg var nálægt því að vinna sænska titilinn en missti af honum undir lokin.
Hákon Rafn á enn eftir að leika fyrir Brentford í ensku úrvalsdeildinni en hann er annar markvörður liðsins. Hákon Rafn er með um 300 milljónir króna í árslaun á Lundúnaliðinu.
Guðlaugur Victor Pálsson gekk í raðir Plymouth í Championship deildinni ensku og leikur þar undir stjórn Wayne Rooney. Hann kom frá belgíska liðinu Eupen. Hann hefur erfitt með að festa sig í byrjunarliðinu hjá Plymouth sem er í fallbaráttu í Championship deildinni. Stefán Þórðarson er einnig í Championship deildinni en hann gekk til liðs við Preston.
Willum Þór Willumsson gekk til liðs við Birmingham sem leikur í ensku C-deildinni. Liðið er í toppbaráttu deildarinnar og er spáð upp um deild eftir að hafa fallið úr Championship deildinni í vor. Willum hefur spilað mjög vel með liðinu á fyrri hluta tímabilsins og er mjög vinsæll meðal stuðningsmanna þess.
Alfons Sampsted leikur sömuleiðis með Birmingham en hann er þar á láni frá Twente í Hollandi.
Jón Daði Böðvarsson gerði samning við velska knattspyrnufélagið Wrexham sem gildir til áramóta. Liðið leikur í ensku C-deildinni og er í toppbaráttunni þar eins og Birmingham. Eigendur Wrexham eru Hollywood-leikararnir Ryan Reynolds og Rob McElhenney.
Liðið hefur farið upp um tvær deildir á síðustu tveimur tímabilum og er mikil stemning í kringum liðið. Þar sem Jón Daði var samningslaus eftir veru sína hjá Bolton gat hann skrifað undir hjá Wrexham utan félagaskiptagluggans í byrjun október síðastliðnum.
Í tímaritinu Áramótum er listi yfir 40 launahæstu atvinnumennina. Hér að neðan má sjá tíu launahæstu:
- Jóhann Berg Guðmundsson Al-Orobah um 950 m. kr.
- Orri Steinn Óskarsson Real Sociedad um 440 m. kr.
- Hákon Arnar Haraldsson Lille um 350 m. kr.
- Albert Guðmundsson Genoa (Fiorentina lán) 350 m. kr.
- Hákon Rafn Valdimarsson Brentford um 300 m. kr.
- Aron Einar Gunnarsson Al Gharafa um 300 m. kr.
- Arnór Sigurðsson Blackburn um 200 m. kr.
- Kristian Hlynsson Ajax um 200 m. kr.
- Guðlaugur Victor Pálsson Plymouth um 200 m. kr.
- Alfreð Finnbogason KAS Eupen um 190 m. kr.
Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.